Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 13/2012.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. september 2012
í máli nr. 13/2012:
Logaland ehf.
gegn
Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 20. júlí 2012, óskar kærandi, Logaland ehf., eftir því „að kærunefnd útboðsmála afturkalli að eigin frumkvæði ákvörðun sína frá 18. júní 2012 í máli [...] nr. 13/2012 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“ Kærunefnd útboðsmála lítur svo á að með fyrrgreindu erindi hafi kærandi óskað eftir endurupptöku á ákvörðun nefndarinnar 18. júní 2012 í máli nr. 13/2012.

Kærða, Ríkiskaupum, var gefinn kostur á að tjá sig um endurupptökubeiðnina og með bréfi, dags. 6. september 2012, krefst hann þess að kröfu kæranda verði hafnað.

 

I.

Kærði auglýsti í apríl 2012 svonefnt rammasamningsútboð með örútboðum nr. 15157: Skurðstofu- og skoðunarhanskar. Með auglýsingunni óskaði kærði, fyrir hönd áskrifenda að rammasamningskerfi ríkisins á hverjum tíma, þ. á m. helstu heilbrigðisstofnana á Íslandi, eftir tilboðum í níu nánar tilgreinda flokka skurðstofu- og skoðunarhanska. Meðal helstu áskrifenda eru Sjúkratryggingar Íslands, Landspítali Háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Kærandi kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála og gerði eftirfarandi kröfur:

  1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvaði innkaupaferli eða samningsgerð á grundvelli útboðsins þar til endanlega yrði skorið úr kæru.
  2. Að nefndin legði fyrir kærða að auglýsa útboðið á ný.
  3. Að nefndin léti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.
  4. Að nefndin ákvæði að kaupendur og/eða kærði greiddi kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.

Með bréfi, dags. 5. júní 2012, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað, þ. á m. kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir, og að kæranda yrði gert að greiða sér málskostnað, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Hinn 18. júní 2012 tók kærunefnd útboðsmála eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 13/2012:

„Hafnað er kröfu kæranda, Logalands ehf., um stöðvun innkaupaferlis vegna útboðs kærða, Ríkiskaupa, rammasamningsútboðs með örútboðum nr. 15157: Skurðstofu- og skoðunarhanskar.“

 

II.

Kærandi telur að ákvörðun kærunefndar útboðsmála hafi verið reist á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og að hún hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 84/2007.

Kærandi heldur því fram að samkvæmt 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007 sé það fortakslaus regla að örútboð skuli fara fram milli rammasamningshafa ef skilmálar rammasamnings eru að einhverju leyti óákveðnir. Kærandi bendir á að verðskilmálar í rammasamningi þeim sem hið kærða útboð lýtur að séu óákveðnir og vísar því til stuðnings til ákvörðunar kærunefndar útboðsmála 18. júní 2012 í málinu.

Kærandi vísar til þess að í málinu hafi komið fram af hálfu kærða að í rammasamningi, sem hið kærða útboð varðar, sé gert ráð fyrir því að á samningstíma sé kaupendum heimilt að kaupa beint af birgjum samkvæmt gildandi verðlistaverði hverju sinni eða nýta sér heimild til örútboða samkvæmt fyrirmælum rammasamningsins. Því næst vísar kærandi til þess að kærði hafi meðal annars gert breytingar á útboðsgögnum 30. maí 2012 þess efnis að einstök kaup, þar sem kostnaður fari yfir 500.000 krónur, verði boðin út í örútboði. Telur kærandi samkvæmt framangreindu óljóst hvernig staðið verði að örútboðum af hálfu kærða að þessu leyti og að af þessu leiði að kærði hyggist ekki efna til örútboða í öllum þeim tilvikum sem skylt sé að gera svo samkvæmt 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007.

Samkvæmt því sem á undan er rakið telur kærandi að kærunefnd útboðsmála hafi láðst að yfirfara útboðsgögn hins kærða útboðs með tilliti til 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007 og krefst þess „að kærunefnd útboðsmála afturkalli að eigin frumkvæði ákvörðun sína frá 18. júní 2012 í máli [...] nr. 13/2012 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“ Telur kærandi slíkt fært með vísan til þess að kærði hafi enn ekki gengið til samninga við bjóðendur á grundvelli hins kærða útboðs og að ekki verði séð að afturköllun sé til tjóns fyrir aðila, auk þess sem kærandi heldur því fram að ákvörðun nefndarinnar sé ógildanleg.


 

III.

Kærði vísar á bug beiðni kæranda um endurupptöku með þeim rökum að í hinu kærða útboði og ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. júní 2012 í máli nr. 13/2012 hafi verið gætt fyrirmæla 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007. Þá upplýsir kærði að gengið hafi verið til samninga við nánar tiltekna bjóðendur 14. ágúst 2012, enda hafi kærunefnd útboðsmála ekki mælt því í mót, og því sé ljóst að „afturköllun“ ákvörðunar nefndarinnar yrði til tjóns fyrir kærða. Kærði hafnar rökum kæranda fyrir „afturköllun“ nefndarinnar, heldur því fram að ekkert nýtt hafa komið fram af hálfu kæranda sem stutt geti slíka niðurstöðu og telur að skilyrði stjórnsýslulaga séu ekki fyrir hendi í málinu.

 

IV.

Ákvæði 95. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup fjallar um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laganna gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um meðferð kærumála að öðru leyti en kveðið er á um í 95. gr. laga nr. 84/2007. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls einnig rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í endurupptökubeiðni hefur ekki verið vísað til nýrra upplýsinga, málsástæðna eða lagaraka. Þannig er ekkert fram komið um það að upphafleg ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í endurupptökubeiðni er einungis byggt á því að kærunefnd útboðsmála hafi láðst að yfirfara útboðsgögn hins kærða útboðs með tilliti til 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007 og að fyrirmæli útboðsgagnanna fari í bága við fyrrgreint ákvæði. Kærunefnd útboðsmála telur að ákvörðun nefndarinnar 18. júní 2012, um að hafna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis hins kærða útboðs, hafi verið reist á fullnægjandi upplýsingum og í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 og að atvik málsins hafi í engu breyst frá því að ákvörðunin var tekin. Eru þannig engin lagaskilyrði til þess að endurupptaka ákvörðun nefndarinnar.

 


Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Logalands ehf., um endurupptöku á ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. júní 2012 í máli nr. 13/2012.

                

                                                            Reykjavík, 13. september 2012.

 

                                                             Páll Sigurðsson,

                                                             Auður Finnbogadóttir,

                                                             Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn