Hoppa yfir valmynd
30. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 30. október 2012

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Stella K. Víðisdóttir tiln. af Reykjavíkurborg, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Hrefna K. Óskarsdóttir tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Ragnheiður Bóasdóttir tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir varam. Landlæknis, Unnar Stefánsson tiln. af Landssambandi aldraðra, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Þórhildur Þorleifsdóttir tiln. af velferðarráðherra, Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar.

1. Íbúðalánasjóður - „Vanskil einstaklinga“

Sigurður Erlingsson, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Ágúst Björnsson og Ingi Pálsson frá Íbúðalánasjóði fóru yfir stöðuna hjá sjóðnum hvað varðar vanskil einstaklinga. Vanskil fóru að aukast verulega hjá sjóðnum upp úr árinu 2008 og í dag virðist ekki ennþá sjá fyrir endann á þeirri aukningu. Mikið er um ný vanskil meðal einstaklinga og ekki virðist vera samsvörun á milli minnkandi atvinnuleysis og vanskila. Segja má að sá hópur einstaklinga sem er í vanskilum sé þverskurður af samfélaginu því þarna á meðal eru einnig tekjuháir einstaklingar og að meðaltali er hópurinn yfir landsmeðaltali tekna. Mörg heimili eru í greiðsluerfiðleikum og eru 25% þeirra á Suðurnesjum. Athygli vakti að í Reykjavík búa 57% þeirra sem eiga eignir í vanskilum ekki á veðstað. Búist er við að vanskil muni aukast enn frekar á næstunni því margir einstaklingar standa ekki undir greiðsluaðlöguninni og koma ekki til með að geta haldið eign sinni. Sjóðurinn á rúmlega 2100 eignir í dag en erfiðlega gengur að selja þessar eignir á sumum landssvæðum. Margar eignanna eru enn á byggingarstigi og aðrar í döpru ásigkomulagi. Til stendur að stofna dótturfélag um þær eignir sjóðsins sem verða á leigumarkaði til langframa. Eins og er eru viðbrögð stjórnvalda við þessari stöðu þau að það eigi að koma í hlut Íbúðalánasjóðs að finna lausnir á þessum vanda og það skortir skilning á að í þessum vanskilahópi er fólk sem getur í raun ekki framfleytt sér og staðið undir húsnæðiskostnaði – tekjur eru einfaldlega of lágar. 

Glærur frá fundi verða sendar á hópinn.

2. Fundargerð 71. fundar velferðarvaktarinnar

Fundargerðin var samþykkt.

3. Bréf til velferðarráðherra vegna Suðurnesjavaktarinnar

Formaður las bréf velferðarvaktarinnar til ráðherra þar sem óskað er eftir áframhaldandi stuðningi ráðuneytisins við Suðurnesjavaktina á árinu 2013. Ráðherra hefur brugðist við og samþykkt að senda fjármálaráðherra bréf með óskum um áframhaldandi framlag til starfsemi Suðurnesjavaktarinnar. 

4. Vetrarstarfið

  • Á næsta fundi velferðarvaktarinnar, þann 13. nóvember, mun vinnuhópur um fátækt kynna nýútkomna skýrslu þess efnis. Fundur vaktarinnar þann 27. nóvember nk. mun verða helgaður atvinnumálum.   
  • Lára óskaði eftir viðbrögðum hópsins við þeirri hugmynd að velferðarvaktin færi á höfuðborgarsvæðið og út á land bæði í þeim tilgangi að kynna starfsemi velferðarvaktarinnar og ræða við fólkið á landsbyggðinni. Best væri að fá tengilið á hverjum stað til þess að undirbúa fundinn og kalla til rétta fólkið. Hugmyndin er að halda fyrsta fund í Reykjavík.  

Fundargerð ritaði Lovísa Lilliendahl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum