Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2012 Matvælaráðuneytið

Embætti yfirdýralæknis auglýst laust til umsóknar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti yfirdýralæknis samkvæmt lögum nr. 80/2005. Skipað verður í embættið til fimm ára frá 1. janúar 2013.

Yfirdýralæknir er forstöðumaður dýraheilbrigðissviðs Matvælastofnunar og hann er jafnframt staðgengill forstjóra stofnunarinnar. Matvælastofnun er með aðalskrifstofu á Selfossi og þar er starfsstöð yfirdýralæknis.

Um helstu hlutverk Matvælastofnunar og verksvið yfirdýralæknis er fjallað í lögum um Matvælastofnun nr. 80/2005, lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, lögum um innflutning dýra nr. 54/ 1990, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998 og lögum um dýravernd nr. 15/ 1994. Hlutverk yfirdýralæknis er að leiða starf dýraheilbrigðissviðs og tryggja faglega og metnaðarfulla starfsemi þess. Meðal verkefna er stefnumörkun á sviði dýraheilbrigðis og dýravelferðar, dagleg stjórnun sviðsins, fagleg samskipti innan og utan stofnunarinnar auk þess að sinna alþjóðlegu samstarfi.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Dýralæknismenntun
  • Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu
  • Stjórnunarreynsla
  • Þekking á löggjöf á starfssviði stofnunarinnar
  • Nákvæmni, frumkvæði, fagleg vinnubrögð og sjálfstæði í starfi
  • Samskipta- og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að leiða verkefni og breytingar
  • Hæfni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku

Umsóknafrestur er til og með 3. desember n.k. og með umsókn þarf að fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og skýr rökstuðningur fyrir því hvernig viðkomandi uppfyllir hæfniskröfur fyrir starfið. Umsóknir skulu sendar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík eða á netfangið [email protected]. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðningarferli er lokið. Nánari upplýsingar um starfið veitir Sigurgeir Þorgeirsson ([email protected]). Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi ríkisins og Dýralæknafélags Íslands.

Hjá Matvælastofnun starfa rúmlega 70 starfsmenn. Stofnunin sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla. Stofnunin starfar samkvæmt eftirfarandi gildum, árvekni, framsækni, trausti og gegnsæi. Nánari upplýsingar um stofnunina er að finna á http://www.mast.is/.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum