Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 62/2012, úrskurður 20. nóvember 2012

Mál nr. 62/2012                    Eiginnafn:     Franzisca

 Hinn 20. nóvember 2012 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 62/2012.

Í erindi sem barst mannanafnanefnd 26. september var óskað eftir breyttri ritun á nafni barns yngra en 18 ára, án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Nánar tiltekið er um að ræða beiðni um breytingu á rithætti nafnsins Fransiska í Franzisca. Byggist beiðnin á 20. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Mannanafnanefnd hefur áður úrskurðað um beiðni á umbeðnum rithætti nafnsins, sbr. úrskurð í máli nr. 25/2008 23. apríl 2008, þar sem  beiðninni var hafnað. Í þeim úrskurði segir m.a. svo:

„Eiginnafnið Franzisca (kvk.) ... getur ekki talist ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls þar sem bókstafirnir ‘z' og ‘c' teljast ekki til íslenska stafrófsins þótt þeir komi fyrir í nokkrum mannanöfnum sem hafa unnið sér hefð. Nú þegar eru tvær gerðir þessa nafns á mannanafnaskrá, Fransiska og Franziska. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er engin núlifandi íslensk kona, sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna, skráð með eiginnafnið Franzisca. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Franzisca uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.“

Í úrskurðarorði tilvitnaðs úrskurðar kemur fram að bæði sé hafnað beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Franzisca (kvk.).

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er heimilt að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1996 kemur fram að breytingar sem falla undir greinina séu m.a. „[B]reyting á rithætti eiginnafns eða millinafns í samræmi við úrskurði mannanafnanefndar um heimila rithætti nafna (t.d. Esther í stað Ester eða öfugt)“. Reglur samkvæmt 20. gr. laga um mannanöfn hafa ekki verið settar. Þrátt fyrir það verða ritháttarbreytingar samkvæmt því ákvæði að fullnægja skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn um leyfilegan rithátt eiginnafna.

Eins og rakið var í áður tilvitnuðum úrskurði mannanafnanefndar frá 23. apríl 2008 er rithátturinn Franzisca ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Með vísan til sama úrskurðar verður ekki talið að hefð sé fyrir þessum rithætti. Samkvæmt því er ekki heimilt að breyta ritun nafnsins Fransiska í Franzisca.

 Í tilefni af ábendingu í fylgiskjali með eyðublaði Þjóðskrár varðandi nöfnin Franz, Cesar og Cecil skal tekið fram að nöfnin Franz og Cecil eru á mannanafnaskrá þar sem umræddir rithættir eru hefðaðir. Rithátturinn Cesar er hins vegar ekki á mannanafnaskrá þar sem hann er ekki hefðaður. Eðli málsins samkvæmt er litið sjálfstætt á hvert nafn fyrir sig.

Einnig er nefnt í fylgiskjalinu að stafinn z sé að finna í staðlinum ÍST 130:2004. Tekið skal fram að enda þótt stafirnir z, c, q og w séu taldir upp í staðlinum breytir það ekki almennum íslenskum ritreglum en þessir stafir eru ekki notaðir nema hefð sé fyrir þeim í nöfnum/orðum af erlendum uppruna.

Í fylgiskjalinu er enn fremur nefnt að sonardóttir Franziscu Antonie Josefine von Weenk Jörgensen hafi alltaf ritað nafn sitt Franzisca og þannig sé það ritað í prestþjónustubók. Þetta hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu.

Að lokum skal tekið fram að samkvæmt 19. gr. laga nr. 45/1996 skulu nöfn manna rituð á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum eins og þau eru skráð í þjóðskrá á hverjum tíma. Af því má ráða að fólk hefur almennt um það frelsi hvort það sjálft kýs að rita nöfn sín með öðrum hætti í öðrum tilvikum.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um ritháttinn Franzisca (kvk.) er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn