Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 19/2012

 

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 21. nóvember 2012 í máli nr. 19/2012

Fasteignir: Grænivöllur 10 landnr. 218969, Háaleitishlað 1 landnr. 217609, Háaleitishlað 2 landnr. 217571, Háaleitishlað 10 landnr. 217575 Háaleitishlað 12 landnr. 217577, Háaleitishlað 23 landnr. 217605, Háleitishlað 27 landnr. 217607, Háaleitishlað 29 landnr. 217608, Hólsvöllur 11 landnr. 217584, Pétursvöllur 6 landnr. 217585, Pétursvöllur 8 landnr. 217586 og Pétursvöllur 15 landnr. 217587, allar í Reykjanesbæ.

Kæruefni: Framkvæmd fasteignamats.

Ár 2012, miðvikudaginn 21. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í málinu nr. 19/2012 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dagsettu 21. júní 2012 kærði Reykjanesbær ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 17. apríl 2012 um að hafna því að framkvæma fasteignamat á eignunum Grænavelli 10 landnr. 218969, Háaleitishlaði 1 landnr. 217609, Háaleitishlaði 2 landnr. 217571, Háaleitishlaði 10 landnr. 217575 Háaleitishlaði 12 landnr. 217577, Háaleitishlaði 23 landnr. 217605, Háaleitishlaði 27 landnr. 217607, Háaleitishlaði 29 landnr. 217608, Hólsvelli 11 landnr. 217584, Pétursvelli 6 landnr. 217585, Pétursvelli 8 landnr. 217586 og Pétursvelli 15 landnr. 217587, sem allar eru í Reykjanesbæ. Kærandi krefst ógildingar á hinni kærðu ákvörðun Þjóðskrár Íslands og að stofnuninni verði gert að framkvæma fasteignamat á nefndum fasteignum. 

Yfirfast­eigna­matsnefnd óskaði eftir umsögnum frá Þjóðskrá Íslands og Isavia ohf. og þær bárust. Einnig barst greinargerð frá Landhelgisgæslu Íslands. Öllum aðilum málsins var veitt tækifæri til að gera athugasemdir við framkomnar greinargerðir og síðari athugasemdir.

Málið var tekið til úrskurðar 30. október 2012.

Sjónarmið kæranda.

Kærð er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 17. apríl 2012 um að hafna að framkvæma fast­eigna­mat á fyrrgreindum eignum í eigu Isavia ohf. Með ákvörðun sinni telji Þjóðskrá Íslands ofantaldar fasteignir undanþegnar fasteignamati og eigi undir 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978 sbr. 10. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

Vísað er til þess að í 9. tl. 4. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að mannvirki í afnotum eða for­ráðum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku séu undanþegin fasteignamati. Sam­kvæmt varnar­samningi milli Íslands og Bandaríkjanna, sem undirritaður hafi verið 5. maí 1951 á grund­velli Norður-Atlantshafssamningsins, hafi Bandaríkin átt að gera ráðstafanir til þess að verja Ísland mögulegum árásum. Til þess að Bandaríkin gætu sinnt hlutverki sínu sam­kvæmt samningnum hafi verið kveðið á um í 1. gr. samningsins að íslenska ríkið myndi útvega Banda­ríkjunum nauðsynlega aðstöðu á landinu endurgjaldslaust. Þegar samningurinn var undir­ritaður hafi verið í gildi lög nr. 67/1945 um fasteignaskatt til bæjar- og hreppsfélaga og jöfnunar­sjóðs sveitarfélaga. Samkvæmt þeim lögum hafi mannvirki í afnotum eða for­ráðum varnar­liðs Bandaríkjanna ekki verið sérstaklega undanskilin fasteignamati. Mann­virki í afnotum eða forráðum varnarliðs Bandaríkjanna hafi heldur ekki verið undanþegin fast­eigna­mati með lögum nr. 69/1962, 51/1964 eða 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga. Lög­bundin undan­þága frá fasteignamati fyrir mannvirki í afnotum eða forráðum varnarliðs Banda­ríkjanna hafi ekki verið veitt fyrr en með 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978 en sú reglu­gerð hafi verið sett á grundvelli 10. tl. 16. gr. laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fast­eigna en með þeim lögum hafi Fasteignamat ríkisins verið sett á stofn. Reglugerð nr. 406/1978 sé enn í gildi og hvíli nú á 10. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fast­eigna.

Hinn 11. október 2006 hafi íslensk stjórnvöld undirritað samning við bandarísk stjórnvöld um að íslensk stjórnvöld myndu taka við fasteignum varnarliðs Bandaríkjanna. Með honum hafi eigna­ráð á ofantöldum fasteignum færst yfir á íslenska ríkið en þær höfðu áður tilheyrt varnar­liði Bandaríkjanna. Með lögum nr. 76/2008 hafi samgönguráðherra verið veitt heimild til þess að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríks­sonar. Ofantaldar fasteignir hafi tilheyrt svæði Keflavíkurflugvallar og stofnaði samgöngu­ráð­herra félagið Keflavíkurflugvöll ohf. um rekstur svæðisins. Með lögum nr. 153/2009 hafi svo samgönguráðherra verið veitt heimild til þess að sameina Kefla­víkurflugvöll ohf. og Flugstoðir ohf. í nýtt opinbert hlutafélag. Samgöngu­ráð­herra stofnaði Isavia ohf. sem tók við öllum réttindum og skyldum Keflavíkurflugvallar ohf. og Flug­stoða ohf. og fari það nú með þinglýsta eignarheimild yfir ofantöldum fasteignum.

Kærandi telur að undanþága 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978 eigi ekki við um Isavia ohf. þar sem þetta ákvæði reglugerðar taki aðeins til mannvirkja í afnotum eða forráðum varnarliðs Banda­ríkjanna. Kærandi setur fram að Þjóðskrá Íslands túlki hugtakið varnarlið Banda­ríkjanna í skilningi reglu­gerðar nr. 406/1978 þannig að það taki til Norður-Atlantshafs­bandalagsins (NATO). Túlkunin sé reist á 1. tl. og 11. tl. 5. gr. varnar­málalaga nr. 34/2008 þar sem hugtökin afleiddir samningar og notenda­ríki séu skil­greind. Þjóðskrá Íslands telur að í ljósi þess að það sama gildi um samninga byggða á varnar­samningnum og samninga sem Ísland hafi gert við NATO falli eignir í eigu Isavia ohf. undir 9. tl. 4. gr. reglugerðarinnar. Ekki verði séð að þessi túlkun sé á rökum reist þar sem skilgreiningar á hugtökunum afleiddir samningar og notendaríki séu bundnar við varnarmálalög nr. 34/2008 og ekki ætlað víðtækara gildissvið. Ákvæðið taki sam­kvæmt orðanna hljóðan aðeins til varnarliðs Bandaríkjanna og hvergi sé vísað til NATO. Nú hafi eignayfirráð fasteignanna færst frá varnarliði Bandaríkjanna yfir til Isavia ohf. Þá rekur kærandi sjónarmið sín um að hugtakið varnarlið Bandaríkjanna geti ómögulega fallið undir hug­takið NATO samkvæmt almennri málvenju. NATO sé fjöl­þjóðleg samtök með aðsetur í Brussel en varnarlið Bandaríkjanna hafi verið her­liðs­afli sem sendur var til Íslands á grundvelli varnarsamnings frá 5. maí 1951. Hér sé um að ræða undan­tekningu frá meginreglu 2. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og skýra beri hugtakið varnarlið Bandaríkjanna þrengjandi lögskýringu. Auk þess feli reglu­gerðarákvæðið í sér undanþágu frá greiðslu á sköttum og í ljósi jafnræðissjónarmiða beri að túlka slík frávik þrengjandi. Hafi þessi sjónarmið m.a. verið staðfest í dómi Hæstaréttar 1997, bls. 2763. Þá heldur kærandi því fram að hafi ætlunin verið sú að eignir Isavia ohf. væru undan­þegnar fasteignamati hefði þurft að kveða skýrlega á um það í reglugerð nr. 406/1978 sbr. 26. gr. laga nr. 6/2001. Það hafi ekki verið gert og gildi því meginregla 2. gr. laga nr. 6/2001 um skyldu Þjóðskrár Íslands að framkvæma fasteignamat. Ofangreindar fast­eignir séu skráðar samkvæmt eignaskráningu í þinglýsingabók á Isavia ohf. og geti því aldrei fallið undir undan­þágu 9. tl. 4. gr. reglugerðarinnar. Skipti þar engu hvort NATO hafi þar tiltekin afnot í sam­ræmi við alþjóðasamninga. Isavia ohf. sé þinglýstur eigandi fasteignanna og hvergi sé minnst á réttindi NATO í þinglýsingabók. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 6/2001 sé skráður eignandi fasteignar sá sem hefur þinglýsta eignarheimild og undanþágur frá fast­eigna­mati miðist því við þann aðila sem er þinglýstur eigandi hverju sinni. Ekki sjáist af samþykktum Isavia ohf. að rekstur fasteigna NATO sé hluti af tilgangi félagsins. Kærandi bendir auk þess á að fasteignin Grænivöllur 10 sé ekki á lista auglýsingar nr. 610/2008 og geti aldrei fallið undir þær undanþágur sem Þjóðskrá Íslands hafi lagt til grundvallar.

Kærandi telur umræddar fasteignir aldrei geta talist vera „[M]annvirki í afnotum eða forráðum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku“ og bendir á að skv. 22. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sé skráður eigandi fasteignar sá sem á þinglýsta eignarheimild hverju sinni. Mat á því hvort fasteignamat eigi að fara fram miðist því alltaf við þinglýstan eiganda. Isavia ohf. sé þinglýstur eigandi fasteignanna, ekki varnarlið Bandaríkjanna og falli því ekki undir 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978. Eigi NATO einhver réttindi í fasteignunum séu þau ekki þinglýst og því ekki hægt að miða við þau þegar meta skuli hvort fasteignamat eigi að fara fram.

Kærandi tekur fram að lög nr. 176/2006 eigi ekki við þar sem þau kveði ekki á um hvort fast­eigna­mat eigi að fara fram, heldur aðeins um hvort greiða eigi fasteignaskatt. Álitaefnið hér sé hvort fasteignamat eigi að fara fram eða ekki.

Ennfremur bendir kærandi á, í ljósi þeirrar áherslu sem Isavia ohf. og Þjóðskrá Íslands virðist leggja á lög nr. 176/2006, að undanþágan falli niður við leigu eða sölu skv. 2. ml. 1. mgr. 5. gr. laganna. Eins og fram komi í umsögn Isavia ohf. þá sé félagið grunnleigutaki fasteignanna og þinglýstur eigandi. Íslenska ríkið hafi því ráðstafað fasteignunum til Isavia ohf. með leigu. Lík­legt sé, miðað við skráningu eignanna, að þær séu taldar upp sem eignir í ársreikningum Isavia ohf.

Af hálfu kæranda er á því byggt að Isavia ohf. hafi fullan ráðstöfunarrétt á eignunum sem eigandi og hafi notað sér það vegna fasteignarinnar að Grænuvöllum 10, sem hafi verið leigð Lög­reglu­stjóranum á Suðurnesjum. Megi því ljóst vera að Isavia ohf. hafi fullan og ótak­markaðan ráðstöfunarrétt sem eigandi á öllum þeim eignum sem óskað sé fasteignamats á.

Kærandi mótmælir athugasemdum Isavia ohf., sérstaklega hvað varðar túlkun á 5. gr. laga nr. 176/2006. Það sé ljóst að eignir þær sem óskað er fasteignamats á séu framseldar frá NATO til Isavia ohf. Í samningi milli Keflavíkurflugvallar ohf. og Varnar­mála­stofnunar komi skýrt fram að fasteignirnar skv. samningnum skulu þinglýstar Isavia ohf. Hér sé um að ræða eignatilfærslu frá Bandaríkjunum/NATO/Varnar­mála­stofnun til Isavia ohf. (áður Keflavíkurflugvallar ohf.) á eignunum skv. íslenskum lögum. Þetta hafi verið gert með yfirlýsingu um aðilaskipti að lóðarleigusamningi dags. 26. ágúst 2010 sem hafi verið þinglýst 2. september 2010.

Túlkun Isavia ohf. um að fasteignirnar séu áfram eignir NATO geti ekki staðist skv. beinum lagaákvæðum 25. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Þar segi að þing­lýstur eigandi sé sá sem þinglýsingabók nefnir eiganda hverju sinni. Reykjanesbær vísar jafn­framt til 22. gr. laga nr. 6/2001 um að skráður eigandi fasteignar sé sá sem eigi þinglýsta eignar­heimild hverju sinni. Ljóst sé að með nefndum samningi ásamt þinglýstri yfirlýsingu sé Isavia ohf. þinglýstur eigandi þeirra eigna sem Reykjanesbær óski fasteignamats á. Eigandinn sé ekki undanþeginn fasteignamati skv. 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978.

Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

Í athugasemdum sínum rekur Þjóðskrá Íslands að Reykjanesbær hafi með bréfi 24. febrúar 2011 gert kröfu um að stofnunin ákvarðaði fasteignamat á fasteignum í eigu Isavia ohf. Eignirnar, sem allar séu á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar í Reykja­nesbæ og hafi ekki áður sætt fasteignamati, séu eftirfarandi: Grænivöllur 2, landn. 217567; Grænivöllur 10, landn. 218969; Grænivöllur 28, landn. 219356; Háaleitishlað 1, landn. 217609; Háaleitishlað 2, landn. 217571; Háaleitishlað 10, landn.217576; Háaleitishlað 12, landn. 217577; Háaleitishlað 23, landn.217605; Háaleitishlað 27, landn.217607; Háa­leitis­hlað 29, landn.217608; Hólsvöllur 11, landn. 217584; Pétursvöllur 6, landn. 217585; Péturs­völlur 8, landn. 217586 og Pétursvöllur 15, landn. 217587.

Rökin fyrir ofangreindri kröfu hafi verið þau að Reykjanesbær hafi töluverða hagsmuni af því að umræddar fasteignir væru metnar fasteignamati líkt og aðrar eignir Isavia ohf. á sama stað. Þá beri Þjóðskrá Íslands að tryggja samræmi í matsstörfum og samræmingu upplýsinga sem máli skipti við framkvæmd matsins. Þjóðskrá Íslands rekur að krafan hafi verið kynnt Isavia ohf. með bréfi 7. nóvember 2011. Svar hafi borist frá Isavia ohf. 30. nóvember 2011, þar sem segi að meiri hluti eignanna sé í eigu NATO og íslenska ríkið f.h. mann­virkjasjóðs NATO fari með eigandahlutverkið. Landhelgisgæsla Íslands hafi hins vegar umsjón með eignunum fyrir hönd íslenska ríkisins. Með bréfi 5. desember 2011 hafi Reykjanesbæ verið veittur kostur á að koma á framfæri athuga­semdum sínum og sjónarmiðum við bréfi Isavia ohf. Svar hafi borist 15. desember 2011, þar sem fyrri kröfur sveitarfélagsins hafi verið ítrekaðar og tekið fram að þinglýstar heimildir um eigendur og þau réttindi og skyldur sem þeim fylgi séu lykilatriði þessa máls.

Fjallað er um að niðurstaða Þjóðskrár Íslands hafi verið þríþætt. Kröfu vegna Grænuvalla 2 hafi verið vísað frá þar sem eignin hafi þá þegar borið fasteignamat. Vegna Grænuvalla 28 hafi verið fallist á kröfu Reykjanesbæjar um ákvörðun fasteignamats þar sem fasteignin hafi ekki talist mannvirki NATO. Vegna annarra eigna hafi kröfu um ákvörðun fast­eigna­mats verið hafnað með vísan til þess að umræddar eignir teljist mannvirki NATO, sbr. auglýsingu nr. 610/2008 um mannvirki og fjarskiptakerfi NATO sem Varnarmálastofnun beri ábyrgð á. Þessar eignir séu því undanþegnar fast­eigna­mati sbr. 9. tl. 4. gr. reglugerðar, nr. 406/1978.

Þá segir í athugasemdum Þjóðskrár Íslands að kærandi virðist telja að undanþáguákvæði 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978, sem taki til mann­virkja í afnotum og forráðum varnarliðs Bandaríkjanna, geti ekki átt við um ofangreindar eignir Isavia ohf., þar sem ekki sé hægt að túlka greinina með svo rúmum hætti að hún eigi við um eignir NATO. Um þetta segir síðan í athugasemdum Þjóðskrár Íslands að mark­mið laga nr. 176/2006 hafi verið að taka af öll tvímæli um skipan mála á varnar­svæðinu og skýra réttarstöðu þar. Með samningum sem undirritaðir voru í Washington í október 2006 hafi íslensk stjórnvöld tekið aftur við varnarsvæðunum á Keflavíkurflugvelli og sam­kvæmt 1. gr. laganna fari utanríkisráðherra með yfirstjórn mála. Jafn­framt hafi orðið að samkomulagi að Íslendingar tækju við hlutverki gistiríkis af Banda­ríkjunum varðandi mannvirki fjármögnuð af NATO á Íslandi. Vísað er til almennra athugasemda sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 176/2006.

Þá er vísað til 5. gr. laganna og athugasemda við hana um að fasteignir á varnarsvæðum séu nú þegar undanþegnar opinberum gjöldum á grundvelli laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 og reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat nr. 406/1978. Sérstaklega sé áréttað að mannvirki í eigu NATO muni áfram undanþegin fasteignasköttum á grundvelli c-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. einnig lög um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana nr. 98/1992. Undanþágan frá opinberum gjöldum gildi einnig þótt gefin sé út auglýsing um svæðin skv. 2. mgr. 1. gr. Eðlilegt þyki að fasteignir og mannvirki á öryggissvæði sem eru eign íslenska ríkisins eða NATO skuli enn­fremur undanþegin öllum opinberum gjöldum. Svæðið sé ætlað til varnarþarfa og því eðli­legt að það sama eigi við um þetta svæði og gilt hafi um varnarsvæðið í heild til þessa.

Þjóðskrá Íslands bendir á að Grænivöllur 10 sé ein af þeim eignum sem taldar eru upp í fylgiskjali með auglýsingu nr. 610/2008 og því ekki hægt að ganga út frá öðru en að hún sé eign NATO.

Þjóðskrá Íslands hafi metið það svo að umræddar fasteignir væru eign NATO, sbr. fylgiskjal auglýsingar nr. 610/2008 og því undanþegnar fasteignamati á grundvelli 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978 sbr. og lög nr. 6/2001.

Sjónarmið Isavia ohf.

Isavia ohf. skilaði athugasemdum og segir grundvallaratriði í málinu að þær eignir sem kæran lúti efnislega að, að undaskyldri eigninni að Grænuvöllum 10, séu ekki í eigu Isavia ohf., hvorki mannvirki né lóðarréttindi. Byggingarnar séu í eigu NATO og þeim tilheyri lóðarréttindi þeirra lóða sem þær standa á eins og hefðbundið sé. Skráning eignanna á Isavia ohf. skv. þing­lýsingabók sé röng. Isavia ohf. sé grunnleigutaki alls lands á Keflavíkurflugvelli. Félagið hafi tekið þau réttindi yfir með samningi við ríkissjóð Íslands 26. ágúst 2010. Á því skjali virðist öll opinber skráning eignanna byggja. Sá samningur fjalli ekki um eignarhald umræddra mannvirkja og geti því ekki breytt eignarheimildum þeirra. Einstökum eignum á svæðinu  hafi verið afmarkaðar lóðir úr því landi sem grunn­leigu­samningurinn fjalli um. Hina röngu skráningu eignanna megi að líkum rekja til framan­greinds en þar sem Isavia ohf. fari með grunnleigurétt á landinu hafi Isavia ohf. séð um að útbúa lóðarblöð fyrir allar fasteignir á svæðinu. Þeim hafi verið þinglýst til að afmarka eignirnar í opinberri skráningu. Isavia ohf. sé því aðeins handhafi grunnleiguréttar landsins en hvorki handhafi lóðarréttinda þessara einstöku lóða né eigandi mannvirkjanna sem á þeim standa. Af framangreindu leiði að Isavia ohf. sé ekki bært til að svara fyrir um fasteignamat eignanna. Þar sem Isavia ohf. sé aðeins handhafi grunnleiguréttar landsins en ekki lóðarhafi og hafi engar eignarheimildir yfir fasteignunum sjálfum geti heldur ekki komið til þess að félagið greiði af þessum eignum gjöld eða skatta. Slík gjöld og skattar séu lögð á lóðarhafa og eigendur mannvirkja á viðkomandi lóð.

Í 2. gr. samnings Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (nú Isavia ohf.) og Varnarmálastofnunar, dags. 22. apríl 2009, komi skýrt fram að um sé að ræða eignir sem séu á mannvirkjaskrá NATO. Með samningnum sé Keflavíkur­flug­velli (nú Isavia ohf.) heimiluð afnot af tilteknum mannvirkjum á mannvirkjaskrá NATO sem Varnarmálastofnun sé með forræðið á sbr. 2. gr. 4. gr. samningsins. Isavia ohf. vekur sérstaka athygli á því að skv. 4. mgr. 4. gr. samningsins sé Varnarmála­stofnun/NATO heimilt að taka mannvirkin til afnota á ófriðartímum og í neyðartilvikum. Samningurinn staðfesti það sem áður hafi komið fram í máli Isavia ohf. og Þjóðskrár.

Vegna athugasemda Reykjanesbæjar tekur Isavia ohf. fram að með vísan til fyrirliggjandi samnings sé ljóst að umræddar eignir séu áfram eign NATO og þ.a.l. ekki eign Isavia ohf. Reykjanesbær vísi til þess að undanþága skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 176/2006 falli niður við leigu eða sölu skv. 2. ml. ákvæðins. Isavia ohf. bendi á að túlkun Reykja­nes­bæjar á greininni sé röng. Í 2. ml. ákvæðins sé aðeins verið að fjalla um eignir sem Banda­ríkin eða NATO hafa skilað. Sú grein eigi ekki við um eignir sem Banda­ríkin eða NATO eiga áfram. Fyrir liggi að umræddar eignir séu áfram eign NATO. Þetta sé augljóst ef frumvarp til laganna sé skoðað.

Isavia ohf. tekur að öðru leyti undir rökstuðning Þjóðskrár Íslands fyrir niðurstöðu stofnunarinnar í hinni kærðu ákvörðun og greinargerðar til nefndarinnar.

Sjónarmið Landhelgisgæslu Íslands.

Landhelgisgæsla Íslands tekur fram að utanríkisráðherra og innanríkisráðherra hafi gert með sér samkomu­lag 11. desember 2010 um að Landhelgisgæslan yfirtæki nær öll meginverkefni Varnar­mála­stofnunar við niðurlagningu hennar, en ríkislögreglustjóri hafi tekið að sér vottunar­mál og úrvinnslu upplýsinga. Verkefni sem Landhelgisgæslan hafi tekið að sér séu m.a. talin séu upp í 6. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 og vísað er til fleiri ákvæða sama samnings.

Landhelgisgæslan hafi nú samkvæmt framangreindum samningi u.þ.b. 153 mannvirki í sinni umsjón. Helguvíkurmannvirkin séu t.a.m. metin á 40 milljarða ef miðað sé við byggingarkostnað. Verði krafist fasteignaskatts af öllum þessum mannvirkjum þyrfti ríkið að gera ráð fyrir fjárveitingum til utanríkisráðuneytisins til að greiða skattinn. Það yrði einungis millifærsla á háum fjárhæðum milli opinberra aðila og fæli í sér tilviljunarkennda útdeilingu fjármuna til sveitarfélaganna þar sem sum fengju háar fjár­hæðir en önnur ekki. Landhelgisgæslan hafi falið Isavia ohf. umsjón með eignum á eigna­skrá mannvirkjasjóðs NATO samkvæmt heimild í framangreindum lögum. Umrædd mann­virki séu sett í umsjón Isavia ohf. í þeim eina tilgangi að standa straum af viðhalds- og rekstrar­kostnaði og koma í veg fyrir að eignirnar fari forgörðum vegna notkunarleysis. Einka­fyrir­tæki hafi ekki leigusamninga um eignir á svæðinu. Landhelgisgæslan tekur að öðru leyti undir rökstuðning Isavia ohf.

Niðurstaða.

Í 2. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna kemur fram sú meginregla að fast­eignir skuli meta til fasteignamatsverðs. Í 26. gr. laganna er síðan upptalning á allmörgum tegundum fast­eigna sem eru undanþegar fasteignamati. Í 10. tl. ákvæðisins er auk þess heimild til ráð­herra um að undanþiggja ákveðnar fasteignir eða tegundir fasteigna fast­eigna­mati. Í þessu máli er tekist á um hvort umræddar fasteignir séu undanþegnar fast­eigna­mati.

Í 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978 um fasteignaskráningu og fasteignamat er tiltekið að mannvirki í afnotum eða forráðum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku, svo og lóðir og lendur sem því hefur verið lagt til skv. ákvæðum laga nr. 110/1951, séu undanþegnar fast­eigna­mati.

Í athugasemdum með frumvarpi til varnarmálalaga nr. 34/2008 er fjallað um að landsvæði sem Bandaríkin fengu til afnota hér á landi á grundvelli samnings landanna, sem lögfestur var með lögum nr. 110/1951, voru kölluð varnarsvæði. Þeirra á meðal var svæði í Reykjanesbæ, sem umræddar fasteignir eru á, en það svæði fór síðar í umráð íslenska ríkisins við skil Bandaríkjanna og brottför herafla þeirra.

Í 5. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 eru skilgreind hugtök, m.a. hugtökin afleiddir samningar og Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO). Í 15. gr. laganna er mælt fyrir um að ráðherra birti lista yfir þau mannvirki og þær eignir NATO og íslenska ríkisins sem hann beri ábyrgð á. Það hefur ráðherra gert með auglýsingu nr. 610/2008 og umræddar eignir eru á þeim lista.

Þá liggur fyrir í málinu samningur um afnot mannvirkja á mannvirkjaskrá NATO á Keflavíkurflugvelli frá 22. apríl 2009 milli Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (nú Isavia ohf.) og Varnarmálastofnunar. Þar er m.a. kveðið á um að Varnarmála­stofnun fari með forræði eigna á mannvirkjaskrá NATO og geti tekið mannvirkin til afnota samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda, en Isavia ohf. hafi samt ákveðnar heimildir, m.a. til tíma­bundinnar útleigu eignanna.

Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að þótt ákveðið hafi verið um umráð og afnot umræddra fast­eigna eins og raun beri vitni, verði ekki fram hjá því litið að þær séu háðar þeim skuld­bindingum sem íslenska ríkið beri m.a. samkvæmt samningum við NATO. Því beri að líta svo á að þessar fasteignir falli undir 26. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978, sbr. auglýsingu nr. 610/2008 og séu því undanþegnar fasteignamati. Með vísan til þessa er kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð.

Staðfest er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 17. apríl 2012 um að hafna að framkvæma fast­eigna­mat á Grænavelli 10 landnr. 218969, Háaleitishlaði 1 landnr. 217609, Háaleitishlaði 2 landnr. 217571, Háaleitishlaði 10 landnr. 217575, Háaleitishlaði 12 landnr. 217577, Háaleitis­hlaði 23 landnr. 217605, Háaleitishlaði 27 landnr. 217607, Háaleitishlaði 29 landnr. 217608, Hóls­velli 11 landnr. 217584, Pétursvelli 6 landnr. 217585, Pétursvelli 8 landnr. 217586 og Péturs­velli 15 landnr. 217587, Reykjanesbæ.

 

__________________________________

Jón Haukur Hauksson

 

_______________________________

Ásta Þórarinsdóttir

_______________________________

Inga Hersteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum