Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Samvinnufundur um lyfjamál

Lyfjastofnun
Lyfjastofnun

Rætt var um leiðir til að stuðla að bættu lyfjaöryggi landsmanna á samvinnufundi sem Lyfjastofnun stóð fyrir í vikunni með ýmsum hagsmunaaðilum og fulltrúum velferðarráðuneytisins. Meðal annars var fjallað um leiðir til að koma í veg fyrir tímabundinn skort á skráðum lyfjum og áherslu á að lyfjafyrirtæki skrái lyf sem nú eru aðeins fáanleg gegn undanþágulyfseðli, ekki síst lyf sem einkum eru ætluð börnum.

Á fundinum kynntu fulltrúar Lyfjastofnunar þær leiðir sem stofnunin hefur til að hafa áhrif á framboð lyfja hér á landi og hvernig brugðist er við þegar vísbendingar eru um að tímabundinn skortur geti orðið á tilteknum lyfjum. Fram kom að með markvissum aðgerðum og góðu samstarfi lyfjafyrirtækja og Lyfjastofnunar takist oftast nær að tryggja framboðið og fyrirbyggja tímabundinn skort, þótt fyrir komi að skráð lyf séu ófáanleg í einhvern tíma.

Umræður á fundinum snerust einkum um þrjá þætti, þ.e.:

  • Vandamál sem geta skapast þegar tímabundinn skortur verður á skráðu lyfi.
  • Vandamál sem geta skapast þegar eina lyf sinnar tegundar er afskráð á Íslandi.
  • Þá staðreynd að mörg lyf sem afgreidd eru gegn svokölluðum undanþágulyfseðli þyrftu að vera skráð.

Ljóst er að engin ein lausn er til á framantöldum vandamálum en ýmsar leiðir færar sem mögulega geta fækkað þeim. Til þess þurfa allir hagsmunaaðilar að koma að málum og á fundinum kom fram eindreginn vilji til þess.

Tímabundinn eða langvarandi lyfjaskortur er ekki einskorðaður við Ísland heldur kemur slíkt fyrir á miklu stærri mörkuðum og er einnig vel þekkt á öðrum litlum mörkuðum á borð við Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Notkun undanþágulyfja einskorðast ekki við Ísland og nefna má sem dæmi að mörg lyf sem notuð eru í undanþágulyfjakerfinu hér á landi eru ekki markaðssett í mörgum nágrannalanda Íslands. Í þeim löndum kann hins vegar að vera að hluti vandans sé leystur með framleiðslu lyfja í apótekum eða á sjúkrahúsum.

Umsóknir um undanþágulyf verða rafrænar

Ljóst er að þótt takist að fækka svokölluðum undanþágulyfjum er óhjákvæmilegt að alltaf verður eitthvað af lyfjum sem eru háð undanþágu sem læknar þurfa að sækja um sérstaklega fyrir sjúklinga sína. Embætti landlæknis vinnur nú að því að gera umsóknarferlið rafrænt sem mun auðvelda ferlið til muna, draga úr vinnu við gerð umsókna og flýta afgreiðslu. Stefnt er að því að rafrænt umsóknarkerfi, þ.e. rafrænn undanþágulyfseðill, verði tilbúið í byrjun næsta árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum