Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þekkingarsetur Suðurnesja

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði undirrituðu samning um Þekkingarsetur Suðurnesja.
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði undirrita samning um Þekkingarsetur Suðurnesja.
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði undirrita samning um Þekkingarsetur Suðurnesja.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra  og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri Sandgerðis og formaður stjórnar Þekkingarseturs undirrituðu miðvikudaginn 21. nóvember sl. samning um starfsemi og þjónustu Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði, þ.e. um ráðstöfun rekstrarframlags ríkisins til starfseminnar. Samningurinn gildir til ársloka 2014.

Þekkingarsetrið á Suðurnesjum hefur margþætt starfsmarkmið. Því er ætlað að vera miðstöð rannsóknastarfs og rannsakenda í náttúrufræðum og tengdum greinum og hafa  frumkvæði að rannsóknaverkefnum og rannsóknastarfi á Suðurnesjum. Þekkingarsetrinu er ætlað að vera leiðandi afl í að byggja upp samstarf vísinda- og fræðimanna, rannsóknanema, stofnana, fyrirtækja og samtaka,  þ.e. allra þeirra aðila er stunda rannsóknir á Suðurnesjum og stuðla að aukinni starfsemi þeirra. Framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Suðurnesja er Hanna María Kristjánsdóttir.

Grunn Þekkingarsetursins má rekja til upphafs þess vísinda og fræðastarfs, sem hófst með verkefninu BIOICE „Botndýr á Íslandsmiðum“ og stofnunar Botndýrastöðvarinnar í Sandgerði árið 1992. Botndýrastöðin er rekin í samstarfi Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sandgerðisbæjar.  Það var því vel til fallið að á 20 ára tímamótum fræðastarfs í Sandgerði væri undirritaður samningur um starfsemi Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði.  

Árið 1995 var Fræðasetrið í Sandgerði stofnað en þar var sett upp safn um náttúru landsins auk aðstöðu og ýmiskonar þjónustu fyrir vísindamenn í tengslum við BIOICE. Safnið hefur frá upphafi notið mikilla vinsælda og var stækkað árið 2007, undir sýninguna „Heimskautin heilla“. Safnið leggur mikla áherslu á lífríki hafsins og fjörunnar og þau skipta þúsundum skólabörnin, sem hafa komið þangað í heimsóknir til að fá fræðslu og kynningu um lífríki fjörunnar.

Árið 2000 var svo Náttúrustofa Reykjaness stofnsett í Sandgerði í samstarfi Sandgerðis- og Grindavíkurbæjar og er stofan  ein af sjö náttúrustofum landsins. Verkefni stofunnar hafa verið fjölbreytt en mikið hefur verið unnið að rannsóknum á m.a. strandfuglum, fjörum og náttúrutengdri ferðaþjónustu.

Háskólasetur Suðurnesja var síðan stofnað í Sandgerði árið 2004 og er það eitt af sjö rannsóknasetrum Háskóla Íslands. Helstu verkefni Háskólasetursins eru á sviði sjávarlíffræði, með sérstaka áherslu á rannsóknir á áhrifum mengandi efna á sjávarlífverur.

Árið 2011 var tekin í notkun ný og sérhæfð aðstaða til rannsókna á fisksjúkdómum sem nýtt er af Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, m.a. til rannsókna á smitsjúkdómum í fiski.

Fræðasetrið  í Sandgerði er á vissan hátt frumkvöðull svæðabundinna þekkingarsetra sem stofnað hefur verið til víðs vegar um land með tilheyrandi aukningu í vísinda og fræðastarfi utan höfuðborgarsvæðisins. Fræðasetur Sandgerðisbæjar sameinast nú Þekkingarsetri Suðurnesja.

Sandgerðisbær hefur ætíð stutt vel við bakið á þessari starfsemi. Í ávarpi Katrínar Jakobsdóttur við undirritun samningsins ítrekaði hún m.a. hve mikilvægt það sé að hinar fjölbreyttu stofnanir á Suðurnesjum, sem tengjast rannsóknum og fræðslumálum, vinni saman að framfaramálum til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði undirrita samning um Þekkingarsetur Suðurnesja.Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði undirrita samning um Þekkingarsetur Suðurnesja.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum