Hoppa yfir valmynd
3. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fæðingarorlof – greiðslur hækka og orlof lengt í áföngum

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka um 50.000 kr. 1. janúar næstkomandi og orlofstíminn verður lengdur um þrjá mánuði í áföngum, verði frumvarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra að lögum. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið á fundi fyrir helgi og hefur frumvarpið verið lagt fram á Alþingi. 

Markmið frumvarpsins er að endurreisa fæðingarorlofskerfið þannig að foreldrar verði hið minnsta jafnsettir og þeir voru fyrir breytingar sem gerðar voru vegna aðhaldsaðgerða í kjölfar efnahagshrunsins.

Þann 1. janúar næstkomandi hækkar hámarksgreiðsla til foreldra í fæðingarorlofi úr 300.000 krónum á mánuði í 350.000 krónur. Greiðslur til foreldra nema hlutfalli af heildarlaunum á tilteknu viðmiðunartímabili. Þetta hlutfall verður jafnframt hækkað og fer í 80% af heildarlaununum, líkt og áður.

Fæðingarorlof lengt úr 9 mánuðum í 12

Lagt er til að fæðingarorlof foreldra verði lengt úr níu mánuðum í tólf í áföngum og að lengingin verði að fullu komin til framkvæmda árið 2016. Áhersla er lögð á jafna möguleika beggja foreldra til orlofs og er því lagt til að skiptingin verði sú sama og verið hefur. Samkvæmt því mun einn mánuður bætast við sameiginlegan rétt foreldranna árið 2014, árið 2015 bætist hálfur mánuður við sjálfstæðan rétt beggja foreldra og svo hálfur mánuður til viðbótar árið 2016. Gert er ráð fyrir að réttur foreldra til greiðslu fæðingarstyrks lengist á sama hátt og fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði.

Réttarbót fyrir foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

Samkvæmt gildandi lögum getur komið til álita að framlengja fæðingarorlof foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu. Samkvæmt frumvarpinu verður þetta ákvæði rýmkað. Í stað þess að binda heimildina við sjúkrahúsdvöl verður þess í stað horft til ástands barnsins og hvort það þurfi umönnun foreldra sinna umfram það sem venjulegt er við umönnun ungbarna. Með þessu móti eru heimildir til að lengja fæðingarorlof foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðara barna sameinaðar og verður mögulegt að framlengja orlofið um allt að sjö mánuði að undangengnu mati sérfræðilæknis.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum