Hoppa yfir valmynd
3. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innkoma listamanna í fámenn samfélög

Katrín Jakobsdóttir tók þátt í málþingi á Raufarhöfn um gildi og áhrif listamanna í fámennum byggðarlögum.

Innkoma listamanna í fámenn samfélög
Innkoma listamanna í fámenn samfélög

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hélt á dögunum til Raufarhafnar og tók þátt í málþingi, sem haldið var á Hótel Norðurljósum þar í bæ. Yfirskrift málþingsins var Innkoma listamanna í fámenn samfélög. Þar var það rætt hvaða tækifæri felast í því þegar listamenn kaupa yfirgefin hús í litlum bæjarfélögum og hvernig sé hægt að nýta sér nærveru þeirra bæjarfélaginu til framdráttar. Í ávarpi sínu sagði ráðherra m.a.:

„Í hröðum heimi þar sem einstaklingurinn verður undir heilu flóðunum af myndefni og upplýsingum ýmis konar á degi hverjum, skal enginn halda að ímynd skipti ekki máli. Einhverjum kann að þykja hugtakið á stundum vera líkast innantómri skel, en þá ríður líka á að ímynd og inntak haldist í hendur þegar betur er að gáð.

Í litlum samfélögum er nefnilega oft stundum auðveldara að láta taka til sín og beita sér. Smæðin er nefnilega líka styrkleiki þegar til kemur. Íslenskt samfélag almennt nýtur á hverjum degi þess hvað boðleiðir geta verið stuttar og ákvarðanataka einföld, þó svo að vissulega er alltaf hætta á því að við brennum okkur líka á slíku, einmitt vegna smæðarinnar. 

Eftir stendur spurningin um það hvort að við uppbyggingu á litlum byggðarlögum þurfi stórar lausnir eða hvort byggja megi líka á litlum lausnum. Hvort ekki sé rétt fyrir opinbera aðila að vera með augu opin fyrir litlum en vel ígrunduðum hugmyndum um nýjungar og nýtingu á húsnæði sem fyrir er“.

Að málþingi loknu kynnti ráðherra sér svokallað Heimskautsgerði, sem verið er að reisa utan við bæinn og áform um frekari uppbyggingu þess.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum