Hoppa yfir valmynd
6. desember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar gerðar á byggingarreglugerð

Byggingakranar.
Byggingakranar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur ákveðið í kjölfar umfjöllunar um nýja byggingarreglugerð að nokkur ákvæði hennar er lúta m.a. að einangrun byggingarhluta og rýmisstærðum verði endurskoðuð.

Ný byggingarreglugerð tók gildi í byrjun þessa árs en skv. bráðabirgðaákvæði er byggingafulltrúum þó heimilt til 1. janúar 2013 að gefa út byggingarleyfi að hluta til á grundvelli krafna eldri byggingarreglugerðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Mikil umfjöllun hefur verið um nýju reglugerðina í fjölmiðlum og meðal hagsmunasamtaka frá því að hún tók gildi. Í framhaldi af þeim ábendingum sem þar hafa komið fram hefur umhverfis- og auðlindaráðherra ákveðið að gerðar verði nokkrar efnislegar og tæknilegar breytingar á reglugerðinni sem og breytingar er varða nálgun og sveigjanleika í kröfum reglugerðarinnar.

Breytingarnar lúta m.a. að ákvæðum er varða einangrun byggingarhluta og rýmisstærðir og eiga að fela í sér aukinn sveigjanleika fyrir hönnuði og arkitekta til að ná markmiðum um algilda hönnun og aðgengi.

Í grein umhverfis- og auðlindaráðherra sem birtist í Fréttablaðinu í dag má nánar lesa um þessi atriði.

Vinnu við breytingarnar verður hraðað eins og kostur er og er vonast til að þær nái fram að ganga áður en fyrrgreint bráðabirgðaákvæði fellur úr gildi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum