Hoppa yfir valmynd
7. desember 2012 Matvælaráðuneytið

Fjármögnun Vaðlaheiðarganga tryggð

Í grein sem birtist í Vikudegi í dag gerir Steingrímur J Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra grein fyrir fjármögnun Vaðlaheiðarganga og ræðir mikilvægi þeirra.

Fjármögnun Vaðlaheiðarganga tryggð

Í síðustu viku undirritaði fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins, lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. vegna framkvæmdar við jarðgöng undir Vaðlaheiði. Undanfari þess var yfirferð Ríkisábyrgðasjóðs á samningnum.  Undirritunin markar tímamót en þar með er fjármögnun verkefnisins upp á tæpa 9 milljarða króna tryggð. Í grunninn er verkefnið einfalt og keimlíkt Hvalfjarðagöngum. Félagið Vaðlaheiðargöng hf., sem er að mestu í eigu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila þar sem KEA er stærst, tekur lán hjá ríkissjóði fyrir framkvæmdinni. Innborgað hlutafé mun nema í heild um 600 milljónum króna en veggjöld standa undir afborgun lánsins. Gert er ráð fyrir að félagið borgi upp lánið við ríkissjóð að loknum framkvæmdum og fjármagni sig á markaði enda þá komið með traustan tekjustofn í formi veggjalda. Öflug verktakasamsteypa, ÍAV Martí, átti hagstæðasta tilboð í verkið, 5% undir kostnaðaráætlun þess, sem hlýtur að teljast vel viðunandi.

Forsaga málsins er löng eins og margir þekkja. Hugmyndin um jarðgöng undir Vaðlaheiði er orðin býsna gömul en segja má að með tilkomu félagsins Greiðrar Leiðar ehf. árið 2003 hafi málið fengið verulegan byr undir vængi. Þá tóku heimamenn frumkvæði í að leiða verkefnið, vinna að framgangi þess og ekki síst tala fyrir því. Í þessu frumkvæði hafa falist mikil verðmæti og ekki síður í þeirri samstöðu sem náðist meðal Norðlendinga um verkefnið.

Síðan að Greið Leið ehf. var stofnuð hefur tekið vel á þriðja kjörtímabil að koma verkefninu á þann stað sem það er núna. Ýmislegt skýrir þessa löngu vegferð svo sem umfang verkefnisins en einnig að það hefur á köflum mætt ákaflega litlum skilningi. Þrátt fyrir ótal skýrslur og greiningar þar sem ótvíræðir kostir verkefnisins hafa verið tíundaðir og mikilvægi þess fyrir framþróun atvinnu, byggðar og mannlífs á norðan og norðaustanverðu landinu, þar með fyrir Ísland, hefur ekki skort á úrtöluraddir. Skýr vilji Alþingis, sbr. lög um stofnun hlutafélags árið 2010 og samþykkt í fjáraukalögum 2011, til í að ráðast í verkefnið með þeim hætti sem að ofan greinir dugði lengi vel ekki til. Hugkvæmni þeirra sem vildu gera það tortryggilegt og varpa á það rýrð voru lítil takmörk sett. Samvinna þingmanna kjördæmisins og úthald, að mestu án undantekninga, hefur skipt sköpum sem og eindreginn og mikill vilji sveitarfélaganna með Akureyrarbæ í broddi fylkingar. Hitt er svo annað mál að ákall um auknar framkvæmdir og krafa um að koma hjólum atvinnulífsins á meiri ferð, líkt og þetta verkefni sannarlega gerir, endurspeglaðist misvel í atkvæðagreiðslum í þinginu. 

Göng undir Vaðlaheiði eru þjóðþrifamál og löngu tímabær samgöngubót á Norðurlandi. Í haust og það sem af er vetri höfum við kynnst því allt of vel hversu erfitt er að treysta á Víkurskarðið sem megin samgönguleið. Göng undir Vaðlaheiði munu auka öryggi í samgöngum, spara innflutt eldsneyti og slit á bílum og koma þannig umhverfinu til góða. Í sjúkraflutningum þar sem jafnvel lífið liggur við munu margir hugsa hlýlega til Vaðlaheiðarganga, þekkjandi ástandið eins og það hefur verið. Þá munu göngin skipta sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu, vöxt og viðgang ferðaþjónustu á Norðurlandi og uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum, svo nokkuð sé nefnt. Undirbúningi er nú að mestu lokið og fátt sem getur staðið í vegi fyrir framkvæmdum.  Því er ástæða til að fagna þessum áfanga. Hér er framkvæmd í sjónmáli sem ég leyfi mér að fullyrða að á eftir að teljast meðal lykilmannvirkja í samgöngukerfi landsins þegar fram líða stundir.

Steingrímur J. Sigfússon
Höfundur er fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum