Hoppa yfir valmynd
7. desember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Ingveldur Einarsdóttir sett í embætti hæstaréttardómara

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ákveðið að setja Ingveldi Einarsdóttur, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, í embætti hæstaréttardómara til ársloka 2014. Ingveldur var ein af fimm umsækjendum um embættið og var niðurstaða dómnefndar sú að þrír af fimm umsækjendum væru hæfust til að gegna embættinu.

haestirettur
Hæstiréttur Íslands

Auk Ingveldar sóttu um embættið Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Ása Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness. Niðurstaða dómnefndar var sú að þau Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson væru hæfust umsækjenda til að gegna embættinu.

Fram kemur í niðurstöðu dómnefndar að þau atriði sem dómnefndin leit aðallega til í mati sínu og að hennar mati varð þess valdandi að framangreindir þrír umsækjendur stæðu framar vel hæfum umsækjendum var að þau Ingveldur og Þorgeir eiga að baki langan og farsælan feril sem héraðsdómarar og bæði stundað framhaldsnám í lögfræði að loknu embættisprófi, fengist við fræðiskrif og komið að akademískum störfum. Þá hafi Ása verið sjálfstætt starfandi lögmaður um árabil og búi yfir fjölbreyttri stjórnsýslureynslu. Jafnframt hafi hún lokið meistaraprófi í lögfræði eftir embættispróf, sinnt umfangsmikilli kennslu við háskóla og gefið út tvö ritverk og fjölda fræðigreina á ólíkum réttarsviðum. Dómnefndin gerir ekki upp á milli hæfni þeirra þriggja.

Við Hæstarétt Íslands starfa nú 12 dómarar (þar af einn í leyfi) og eru einungis tvær þeirra konur. Ef ráðherra skipar Þorgeir Inga í embætti hæstaréttardómara, er ljóst að tíu af tólf dómurum réttarins verða karlar. Í ljósi þess hversu mikill munur er á fjölda karla og kvenna á meðal dómara við réttinn verður að telja að í tilviki sem þessu, í samræmi við markmið laga nr. 10/2008 og túlkun Hæstaréttar á þeim lögum, sé ráðherra rétt að setja konu til starfa við réttinn sé hún metin jafnhæf öðrum umsækjendum. Með vísan til framangreinds verður því að telja að valið um hver hljóti setningu í embættið standi á milli þeirra Ásu og Ingveldar.

Við val á milli þeirra Ásu og Ingveldar er meðal annars litið til þess að það starf sem um ræðir er tímabundið, mikið álag er á Hæstarétti og nauðsynlegt er að viðkomandi geti á mjög skömmum tíma tileinkað sér starfshætti réttarins. Þar af leiðandi vegur reynsla af dómstörfum þyngra við mat á umsækjendum en önnur reynsla. Ingveldur hefur langa reynslu af dómstörfum og hefur auk þess tekið sæti í Hæstarétti. Ása hefur ekki slíka reynslu. Með vísan til framangreinds, er tekin sú ákvörðun að setja Ingveldi í framangreint embætti.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum