Hoppa yfir valmynd
10. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Gjafir til handa Neyðarmóttöku vegna nauðgana

Frá athöfninni í húsakynnum Embættis landlæknis
Frá athöfninni í húsakynnum Embættis landlæknis

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra veitti í dag móttöku gjöfum til Neyðarmóttöku vegna nauðgana við athöfn í húsnæði Landlæknis við Barónsstíg. Meðal gjafa voru nýr bæklingur um sálrænar afleiðingar kynferðisofbeldi ásamt upplýsingaefni og límmiðum um þjónustu Neyðarmiðstöðvarinnar sem dreift verður víða. Gjafirnar eru afrakstur af Öðlingsátakinu sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir efndi til árið 2010 en hún fékk til liðs við sig nokkra góða karlmenn til að safna fé fyrir gjöfunum.

Þetta eru góðar gjafir til Neyðarmóttökunnar sagði velferðarráðherra þegar hann veitti gjöfunum viðtöku: „...nýr og endurhannaður bæklingur um sálrænar afleiðingar kynferðisofbeldis sem mér skilst að sé mikill fengur af, sérhannað lógó Neyðarmóttökunnar, upplýsingaspjald sem dreift verður í framhaldsskólum, heilsugæslustöðvum og víðar og loks límmiði með upplýsingum um þjónustu Neyðarmóttökunnar á þremur tungumálum sem verður komið fyrir á hverju einasta salerni á öldurhúsum borgarinnar og víðar. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar ætlar að sjá til þess að dreifing límmiðanna gangi vel fyrir sig Embætti landlæknis tekur einnig þátt í þessu upplýsinga- og fræðslustarfi og því óhætt að segja að þetta mikilvæga verkefni eigi öflugan og góðan stuðning sem tryggja mun framgang þess.“

Guðbjartur sagði mikilvægt að virkja öll möguleg öfl í samfélaginu til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi; „það þarf að berjast gegn því á öllum vígstöðvum og samfélagið þarf að taka afdráttarlausa stöðu gegn því.“

Ráðherra sagði stjórnvöld meðvituð um þetta og vísaði til áætlunar um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og börnum og jafnframt aðgerðir til að bæta aðbúnað þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi eða eru í áhættuhópi hvað þetta varðar: „Í apríl á síðasta ári lagði ég fyrir Alþingi skýrslu með tillögum um ýmsar aðgerðir til að sporna við ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar og jafnframt voru þar birtar niðurstöður sex viðamikilla rannsókna á þessu sviði sem áður hafa verið kynntar.

Ég vil einnig geta um útgáfu fræðslurita sem velferðarráðuneytið stóð fyrir og birtust árið 2009, ætluð til kennslu og jafnframt til að nýtast tilteknum stéttum í starfi, með áherslu á starfsfólk félagsþjónustu, heilbrigðisstéttir, ljósmæður og lögreglu.

Í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi er þekking á vandamálinu, umfangi þess og birtingarmyndum mikilvæg forsenda árangurs. Þekkingunni þarf að fylgja eftir með fræðslu, jafnt til þeirra starfsstétta sem ég nefndi hér að framan og eins út í samfélagið til almennings. Það er vel þekkt að þolendur kynferðisofbeldis eiga oft afar erfitt með að leita sér aðstoðar af ýmsum ástæðum. Það er mikilvægt að fólk sem verður fyrir slíkum glæp geti gengið að því vísu að það mæti skilningi og fái allan nauðsynlegan stuðning og faglega hjálp til að takast á afleiðingarnar og byggja sig upp að nýju.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil þakka þær góðu gjafir til Neyðarmóttökunnar sem hér hafa verið kynntar. Þetta er mikilvægt framlag til mikilvægrar starfsemi sem ég þakka kærlega fyrir.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum