Hoppa yfir valmynd
11. desember 2012 Matvælaráðuneytið

13. fundur samstarfsnefndar Íslands og Rússlands um sjávarútvegsmál

Rússaviðræður - handaband
Rússaviðræður - handaband

Þrettándi fundur samstarfsnefndar Íslands og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegsmála var haldinn í Reykjavík dagana 10.-11. desember 2012. Á fundinum voru rædd þau mál sem helst eru á döfinni varðandi samstarf landanna á vettvangi sjávarútvegsmála.

Á fundinum skiptust fulltrúar landanna á upplýsingum um framkvæmd samningsins frá 15. maí 1999 milli ríkisstjórna Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs (Smugusamningur). Þannig var fjallað um samstarf á sviði veiðieftirlits, hafrannsókna og veiðistjórnunar sameiginlegra stofna á Norður-Atlantshafi, m.a. úthafskarfa, kolmunna, norsk-íslenskrar síldar og makríls.

Á fundinum var m.a. rætt um mikilvægi þess að Rússar verði aðilar að samkomulagi um stjórnun úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg. Ísland áréttaði vonbrigði sín með afstöðu Rússlands til ráðgjafar Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) um stofnstærð og stofngerð og voru rússnesk stjórnvöld hvött til að vinna náið með ICES með því að leggja fram tiltæk gögn sem nauðsynleg þykja til rannsókna á karfastofnunum. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að veiðistjórnun karfastofnanna á Reykjaneshrygg byggi á þeirri vísindalegu þekkingu og ráðgjöf sem fyrir liggur.

Á næsta ári  koma alls 9.141 tonn af þorski í rússneskri lögsögu í hlut Íslands á grundvelli samnings ríkjanna tveggja en þar með talin eru 3.428 tonn sem íslenskar útgerðir hafa rétt á að kaupa af Rússum. Meðaflaheimild í ýsu verður 10%, og nemur 914 tonnum en meðaflaheimild í öðrum tegundum nemur 20% aflaheimilda í þorski.

Einnig ræddu ríkin um frekara samstarf á sviði sjávarútvegsmála á fjölþjóðlegum vettvangi þar sem áherslur og hagsmunir ríkjanna tveggja fara oft saman. Að loknum fundinum lýstu báðir aðilar yfir ánægju með viðræðurnar og mikilvægi þeirra í tvíhliða samskiptum ríkjanna.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Kristján Freyr Helgason.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum