Hoppa yfir valmynd
13. desember 2012 Matvælaráðuneytið

Tólf styrkir til ferðamála veittir úr Þróunarsjóði Landsbankans og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Tólf styrkir voru veittir úr Þróunarsjóði Ferðamála, samtals 31,1 milljón króna, en að sjóðnum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Landsbankinn . Þetta var önnur úthlutun úr sjóðnum og bárust honum 56 umsóknir að þessu sinni. Í fyrri úthlutun voru veittar 38,9 milljónir króna til 20 verkefna.

Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímann á Íslandi, með því að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka á þann hátt arðsemi þeirra. Stofnendur sjóðsins lögðu fram 70 milljónir í upphafi, 40 milljónir komu frá Landsbankanum og 30 milljónir frá atvinnuvegaráðuneyti sem úthlutað skyldi í tveimur úthlutunum.

Ákveðið hefur verið að framlengja starfsemi Þróunarsjóðsins og verða á næsta ári veittar 35 milljónir króna úr honum.

 Eftirtaldir hlutu styrki úr Þróunarsjóði að þessu sinni:

  • Norðurhjari – Uppbygging ferðaþjónustu frá Kelduhverfi að Bakkafirði – 5 millj. kr.
    Til að vinna að gerð áætlunar um uppbyggingu á völdum ferðamannastöðum á svæðinu frá Kelduhverfi að Bakkafirði, skipulagi þeirra og merkingum. Greind verða tækifæri í ferðaþjónustu á haustin og vorin, m.a. í veiðiferðamennsku og menntatengdri ferðaþjónustu.
  • South Iceland Adventure – Miðgarður – 4 millj. kr.
    Til að efla ferðamennsku á Suðurlandi vetrarmánuði ársins með verkefninu Miðgarður - eða Project Midgard – en markmið þess er að nýta ferðamannasvæði sem býður upp á íslenska vetrarupplifun með ævintýraferðum.
  • Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Jarðvarmavangur á Reykjanesi – 3.450.000 kr.
    Til að vinna að uppbyggingu jarðvarmavangs á Reykjanesi með það að markmiði að auka vöruframboð fyrir ferðamenn á svæðinu á jaðartímum. Með því móti má auka framlegð atvinnugreinarinnar í samvinnu fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila í samstarfi við Geo Camp Iceland.
  • Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða – Vatnavinir Vestfjarða – 3.000.000 kr.
    Til að finna leiðir til að nýta haf, vatn, jarðvarma og náttúru svæðisins til atvinnusköpunar í ferðamennsku á umhverfisvænan hátt. Markmiðið er að lengja ferðatímabil á svæðinu og dvalartíma ferðamanna.
  • Fisherman ehf. – Matarferð í sjávarþorp – 3.000.000 kr.
    Til að undirbúa/skipuleggja matarferðir til Suðureyrar þar sem farið er í tveggja tíma söguferð um vistvænt sjávarþorp, þar sem stoppað er á mismunandi stöðum í þorpinu til að smakka á framleiðsluafurðum heimamanna.
  • Harald Jóhannesson – Fuglaskoðunarferðir á Norðausturlandi – 3.000.000 kr.
    Til að skipuleggja fugla- og náttúruskoðunarferða fyrir erlenda ferðamenn og þróa markaðsefni fyrir þær hérlendis og erlendis.
  • Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar – Ísland, áfangastaður listamanna – 3.000.000 kr.
    Til að gera Ísland að áfangastað alþjóðlegra listamanna og listaverkasafnara á þeim tíma þegar mest er um að vera í myndlistarlífi landsins frá september til maí á ári hverju.
  • Westfjords Adventures – Þróun ævintýraferða á Vestfjörðum – 1.900.000 kr.
    Til að stofna afþreyingarfyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum og bjóða upp á ævintýraferðir á svæðinu. Fyrirtækið mun starfa allt árið og vera leiðandi í þróun svæðisins sem vetraráfangastaðar.
  • Mývatnsstofa ehf. – Orka vetrarins – 1.800.000 kr.
    Mývatnsstofa og Húsavíkurstofa er samstarfsvettvangur aðila í verslun og ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Félögin koma að ýmsum viðburðum en þeirra á meðal er Orkugangan, "Hestar á ís" og "Mývatnsmaraþon".
  • Magnús Freyr Ólafsson – Vitinn lýsir leið – 1.000.000 kr.
    Til að vinna að skipulagningu heimsókna ferðamanna í stóra vitann á Breið á Akranesi sem býður upp á einstakt útsýni og tækifæri til ljósmyndunar.
  • Skjaldarvík ferðaþjónusta – Jólaævintýri – 1.000.000 kr.
    Til að skipuleggja námskeið og kvöldverði þar sem íslenskar jólahefðir eru kynntar fyrir ferðamönnum og þá sér í lagi laufabrauðsgerð og matarhefð á jólum.
  • Snæland Grímsson – Heilsueflandi ferðir – 950.000 kr.
    Til að finna leiðir til að markaðssetja eiginleika íslenska vatnsins og nýta fjárfestingu betur í heilsueflandi ferðir yfir vetrarmánuðina, svokallaða wellness-ferðamennsku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum