Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Bráðabirgðaákvæði byggingarreglugerðar framlengt

Byggingakranar.
Byggingakranar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að framlengja til 15. apríl 2013 bráðabirgðaákvæði nýrrar byggingarreglugerðar er kveður á um að byggingafulltrúum sé heimilt að gefa út byggingarleyfi á grundvelli krafna eldri byggingarreglugerðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samhliða verða gerðar breytingar á ákvæðum nýrrar byggingarreglugerðar er varða einangrun og rýmisstærðir.

Nokkur umfjöllun hefur verið um nýju reglugerðina frá því að hún tók gildi og í framhaldi af ábendingum sem þar hafa komið fram verða gerðar verði nokkrar efnislegar og tæknilegar breytingar á reglugerðinni sem og breytingar er varða nálgun og sveigjanleika í kröfum reglugerðarinnar. Breytingarnar lúta m.a. að ákvæðum er varða einangrun byggingarhluta og rýmisstærðir og eiga að fela í sér aukinn sveigjanleika fyrir hönnuði til að ná markmiðum um algilda hönnun og aðgengi.

Fyrrgreint bráðabirgðaákvæði er framlengt með það að markmiði að gefa frekara ráðrúm til samráðs við hagsmunaaðila sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Mannvirkjastofnun að leiða, sem og að veita frekari tíma fyrir framkvæmdaraðila til að ljúka hönnun verka áður en heimild til að fylgja fyrri byggingarreglugerð fellur að fullu úr gildi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn