Hoppa yfir valmynd
14. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttektir á leikskólum

Ytra mat á leikskólum flyst frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til Námsmatsstofnunar.

Frá og með 1. janúar 2013 flyst umsjón og framkvæmd ytra mats á leikskólum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til Námsmatsstofnunar. Á vormisseri 2013 verða gerðar stofnanaúttektir á þremur leikskólum, sbr. lög nr. 90/2008 um leikskóla, gildandi reglugerðir um mat og eftirlit og þriggja ára áætlanir mennta- og menningarmálaráðuneytis um úttektir á þessu skólastigi.
Hér með er auglýst eftir sveitarfélögum, sem hafa áhuga á því að fram fari úttekt á starfi leikskóla innan þeirra, bæði þeirra sem reknir eru af sveitarfélaginu og öðrum aðilum. Afstaða skólaráðs viðkomandi skóla til úttektarinnar þarf að koma fram í umsókninni.

Í úttektinni felst að utanaðkomandi aðili leggur mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Verður það gert m.a. með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra. Vakin er athygli á að einnig getur sveitarfélag óskað eftir því að úttektinni verði jafnframt beint að tilteknum þáttum í skólastarfinu. Kostnaður vegna úttektarinnar greiðist úr ríkissjóði.

  • Umsóknir skulu berast Námsmatsstofnun frá sveitarstjórnum fyrir 31. desember 2012.
  • Umsókn skal fylla út á vef Námsmatsstofnunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum