Hoppa yfir valmynd
17. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Útskrift nemenda frá Hringsjá

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flutti ávarp við útskrift nemenda frá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu, síðastliðinn föstudag.

Átján nemendur voru útskrifaðir eftir þriggja anna nám og endurhæfingu og jafnframt voru afhentar einkunnir nemenda eftir fyrstu og aðra önn. Markmið Hringsjár er að veita starfsendurhæfingu fólki sem er átján ára og eldri og þarf vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla á endurhæfingu að halda til að takast á við frekara nám eða stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika.

Hringsjá fagnaði á þessu ári 25 ára starfsafmæli og sagði Guðbjartur að þótt mikilvægi starfs Hringsjá hafi lengi legið fyrir hafi með tímanum opnast æ fleiri augu fyrir gildi náms- og starfsendurhæfingar eins og þar fer fram:

„Í sumar voru samþykkt á Alþingi lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Lögin endurspegla ákveðna vitundarvakningu sem orðið hefur í þessum málaflokki og eru afdráttarlaus viðurkenning á mikilvægi starfsendurhæfingar. Sérstaklega mikilvægt er að með lögunum er tryggður réttur allra til starfsendurhæfingar, óháð atvinnuþátttöku – sem ætti að opna mörgum dyr sem áður voru lokaðar.

Það eru mikilvæg mannréttindi að geta tekið sem allra virkastan þátt í samfélaginu. Forsendur fólks til þess eru misgóðar og þær geta breyst vegna ýmissa áfalla eða aðstæðna. Möguleikarnir ráðast ekki einungis af einstaklingsbundinni getu og færni heldur einnig af því hvort og hversu vel samfélagið er í stakk búið til að mæta fjölbreytileikanum, hversu sveigjanlegt það er og hvernig búið er að fólki almennt,“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum