Hoppa yfir valmynd
21. desember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Persónuafsláttur hækkar um 4,2% og tekjumiðunarmörk um 5%  árið 2013

Fréttatilkynning nr. 16/2012

Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 581.820 kr. fyrir árið í heild og 48.485 krónur að meðaltali á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar því um 23.435 kr. milli áranna 2012 og 2013 og nemur hækkunin 4,2%.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 135.330 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð samanborið við 129.810 kr. á mánuði 2012. Hækkunin milli ára nemur 4,3%.

Í tekjuskattslögunum er einnig kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns, þ.e. mörkin milli skattþrepa, skulu taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við hækkun launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili. Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 5,0%.  

Mánaðarleg tekjumiðunarmörk þrepa verða samkvæmt því 241.475 kr. í fyrsta þrepi, 498.034 kr. í öðru þrepi og 739.509 kr. í þriðja þrepi fyrir tekjur ársins 2013.

Tekjuskattur er lagður á í þremur þrepum eins og áður. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2.897.702 kr. árstekjum einstaklings (241.475 kr. á mánuði) er reiknaður 22,9% skattur. Af næstu 5.976.406 kr. (498.034 kr. á mánuði) er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8.874.108 kr. (739.509 kr. á mánuði).

Við þessi hlutföll bætist útsvar sem er mishátt eftir sveitarfélögum. Meðalútsvar á árinu 2013 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðun sveitarfélaga 14,42% í stað 14,44% á árinu 2012.  

Staðgreiðsluhlutfall ársins 2013 verður þríþætt eftir fjárhæð tekna, þ.e. 37,32% á tekjur í fyrsta þrepi, 40,22% á tekjur í öðru þrepi og 46,22% á tekjur í þriðja þrepi.

Nánari upplýsingar veitir Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, [email protected].

Reykjavík, 21. desember 2012

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum