Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2013 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samstarfssamningur um eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlamennta á framhaldsskólastigi

Staða nýsköpunar- og frumkvöðlamennta á framhaldsskólastigi verður greind og metin þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir menntað fólk á því sviði. Þá verður gerð áætlun um aðgerðir til að auka hæfni kennara og framhaldsskólanemenda í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti hafa undirritað samstarfssamning til þriggja ára um eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlamennta á framhaldsskólastigi. Samstarfsaðilar í verkefninu eru Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Félag íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og Félag íslenskra framhaldsskóla.

Greining á stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamennta

Í fyrstu verður staða nýsköpunar- og frumkvöðlamennta á framhaldsskólastigi greind og metin þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir menntað fólk á því sviði. Einnig verður litið til þeirra landa, sem fremst standa í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, til að sækja góðar fyrirmyndir um uppbyggingu og framkvæmd náms á þessu sviði auk þess að taka tillit til ráðlegginga alþjóðastofnana í þessu efni. Í framhaldinu verður gerð áætlun um aðgerðir, sem verða til þess fallnar að auka hæfni kennara og framhaldsskólanemenda í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Gera má ráð fyrir tilraunakennslu í völdum framhaldsskólum hefjist haustið 2013.

Ákall til aukinnar nýsköpunar

Ríkir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að menntastefna og atvinnustefna séu  í samræmi og unnar í víðtæku samstarfi, en í raun má rekja verkefnið til hrópandi ákalls þjóðfélagsins alls til aukinnar nýsköpunar, að sögn Jóhönnu Ingvarsdóttur, verkefnisstjóra verkefnisins. Verkefnið lýtur ekki síst að eflingu og nútímavæðingu verk- og tæknimennta með aðkomu Fab Lab-hugmyndafræðinnar auk þess sem markmiðið er einnig að freista þess að draga úr brottfalli úr íslenskum framhaldsskólum, sem er eitt hið mesta meðal OECD-þjóða.

Í Sóknaráætlun 2020 kemur m.a. fram að leggja þurfi áherslu á nýsköpun á öllum skólastigum með markvissri þjálfun listrænnar og hagnýtrar sköpunar. Samþætting nýsköpunar við allt nám er þar lykilorð og menntun kennara mikilvæg, sérstaklega þverfagleg menntun og meiri skilningur á fjölþættari fræðasviðum en þeir hafa nú. Leitast þurfi við að tengja skólastarf við nýsköpun, koma þurfi á fót tæknimiðstöð, sem vekja myndi athygli og áhuga ungmenna á raungreinum og örva nýsköpun í samstarfi við atvinnulífið allt. Einnig kemur fram í Sóknaráætlun að tímabært sé orðið að opinberir aðilar á öllum sviðum þjónustu og rekstrar marki sér stefnu í nýsköpun.

Sams konar áherslu má finna í menntastefnu nálægra þjóða og hjá alþjóðasamtökum á sviði menntunar. Þannig hefur Norræna ráðherranefndin mótað stefnu um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á öllum skólastigum og innan fullorðinsfræðslunnar sem Íslendingar eru aðilar að. Enn fremur hefur Evrópusambandið mótað almenna stefnu um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og mikið þróunarstarf hefur átt sér stað innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um menntun í nýsköpun.

Ný lög mynda ágæta umgjörð

Á árunum 2006-2010 voru sett ný lög um leikskóla-, grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastig, kennaramenntun og framhaldsfræðslu. Samanlagt má segja að þessir lagabálkar myndi ramma um ævinámsstefnu stjórnvalda. Lagaramminn sem slíkur er ágætlega til þess fallinn að mynda almenna umgjörð um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í öllu skólakerfinu. Segja má að grunnskólinn hafi þar nokkurt forskot sögulega séð. Frá því um 1990 hefur nokkur fjöldi grunnskóla sinnt nýsköpunarmennt sérstaklega og þá gjarnan í tengslum við Nýsköpunarkeppni grunnskóla. Nýsköpunarmennt hefur ekki fest sig í sessi með sama hætti í framhaldsskólum og er því æskilegt að nú verði lögð áhersla á það skólastig og unnið að þróunarverkefni innan framhaldsskólans.

Ný aðalnámskrá, almennur hluti, fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla var samþykkt í maí 2011.  Hún á að taka gildi í framhaldsskólum landsins í síðasta lagi haustið 2015 þó skólum sé í sjálfsvald sett að innleiða hana fyrr. Sú menntastefna, sem birtist í aðalnámskrá allra skólastiga, er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eiga að vera leiðarljós fyrir námskrárgerðina. Einn þessara grunnþátta er  sköpun sem hlýtur að teljast lykilþáttur í allri nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Stuðlað að aukinni framleiðni og verðmætasköpun

Við mótun atvinnustefnu á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis er lögð áhersla á nýsköpun og þátt menntunar í eflingu hennar. Samtök á vinnumarkaði leggja áherslu á styrkari starfsmenntun og að komið verði til móts við þarfir vinnumarkaðarins fyrir menntað starfsfólk, sérstaklega á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar sem og verk- og tæknimenntunar. Þannig verði stuðlað að aukinni framleiðni og verðmætasköpun á Íslandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Jóhanna Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í síma: 522 9264 / netfang: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum