Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2013 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingum á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að breytingum á reglugerð nr. 348/2007 um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum. Umsagnarfrestur um drögin er til 31. janúar og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].

Markmið breytinganna er annars vegar samræming reglugerðarinnar við kröfur Evrópusambandsins varðandi skyldubundna notkun öryggisbelta í ökutækjum innan við 3,5 tonn. Þær kröfur er að finna í tilskipun nr. 2003/20/EB frá 8. apríl 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/671/EBE. Hins vegar er markmiðið að stuðla enn frekar að auknu öryggi barna í ökutækjum.

Í fyrsta lagi fela breytingarnar í sér áréttingu um að allur öryggis og verndarbúnaður barna í ökutækjum skuli ávallt uppfylla þær kröfur sem kveðið er á um í III. viðauka við reglugerð nr. 348/2007 og skuli merktur þannig að ljóst sé að þær kröfur séu uppfylltar.

Í öðru lagi miða breytingarnar við að öryggis- og verndarbúnaður barna í ökutækjum skuli skilyrðislaust uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í ECE-reglum 44.3, sbr. og tilskipun 77/541/EBE, með síðari uppfærslum reglnanna og tilskipunarinnar. Þannig er felld brott sú heimild sem nú er að finna í reglugerðinni að nota megi búnað sem uppfyllir sambærilegar kröfur og þær sem ofangreindar reglur kveða á um.

Í þriðja lagi er stefnt að því reglugerðin kveði skýrt á um að allur innflutningur öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum verði að uppfylla tilskildar kröfur. Þar með er allur vafi tekinn af um það að reglugerðin taki einnig til einkainnflutnings, svo sem í gegnum póstverslun o.s.fv.

Í fjórða og síðasta lagi skal reglugerðin kveða á um með skýrum hætti að markaðseftirlit með barnabílstólum sé hjá Neytendastofu.

Miðað er við að reglugerðin taki gildi við birtingu, að undanskildu ákvæði um kröfur til öryggis- og verndarbúnaðar barna í ökutækjum. Það ákvæði taki gildi 1. júlí nk. Með þeim hætti er ætlunin að koma til móts við þá sem nú notast við öryggis- og verndarbúnað sem ekki uppfyllir kröfur reglugerðarinnar eftir breytingarnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum