Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samráð um mótun nýrrar stefnu um upplýsingasamfélagið

Nýverið skipaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kjarnahóp til að vinna að mörkun stefnu upplýsingasamfélagsins 2013-2017. Viðfangsefni hópsins er að móta tillögur um framtíðarsýn, markmið og verkefni hinnar nýju stefnu. Í kjarnahópnum eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta og tveir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Fundur með hópi ríflega 70 starfsmanna ríkis og sveitarfélaga ásamt fulltrúum hagsmunaaðila, sem haldinn var 2. nóvember 2012 var mikilvægur þáttur í stefnumótunarferlinu. Þar ávarpaði innanríkisráðherra  fundarmenn, þakkaði þeim fyrir þeirra framlag og sagði nýja stefnu um upplýsingasamfélagið til fjögurra ára rökrétt framhald af stefnunni Netríkið Ísland 2008 - 2012. Á fundinum voru kölluð fram sjónarmið, hugmyndir, tillögur og verkefni sem gerð eru skil á vefsvæði verkefnisins í samantekt sem unnin var í kjölfar fundarins. Þar er að finna yfir 50 verkefnishugmyndir sem nýskipaður kjarnahópur hefur unnið með upp á síðkastið. Einnig eru gögn frá fundum kjarnahóps aðgengileg á vef verkefnisins.

Kjarnahópurinn hefur komið sér saman um eftirfarandi sex drög að meginmarkmiðum sem lögð verða til grundvallar jafnmörgum verkefnastofnum sem ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög munu útfæra á næstu vikum. Verkefnastofn er safn afmarkaðra verkefna sem tengjast innbyrðis og hafa sameiginlegt markmið. Eftirfarandi eru drög að slíkum markmiðum í sex flokkum.

thekking1. Þekkingaruppbygging

Aukið verði við þekkingu samfélagsins á möguleikum og notkun upplýsingatækni í þeim tilgangi að nýta tæknina á sem bestan máta til atvinnusköpunar, bættrar þjónustu, lýðræðislegrar þátttöku og hver kyns hagræðingar. Áhersla er lögð á þekkingaruppbyggingu meðal barna, ungmenna og annarra hópa eftir því hvar þörf krefur. Efla þarf þekkingu hjá stjórnendum í þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

opin-stjornsysla2. Opin og gagnsæ stjórnsýsla

Almenningur, fyrirtæki og hagsmunaaðilar hafi greiðan aðgang að ópersónubundnum upplýsingum og skrám í vörslu ríkis og sveitarfélaga. Mótuð verði stefna ríkis og sveitarfélaga um opin gögn og sett upp ein gátt fyrir aðgang að slíkum gögnum/gagnagrunnum. Einnig verði opnaður aðgangur að persónubundnum upplýsingum fyrir viðkomandi einstaklinga og lögaðila þar sem því verður við komið og ný kerfi verði hönnuð með slíkan aðgang í huga.

arkitektur3. Arkitektúr, öryggi og samvirkni kerfa

Komið verði á samræmdum arkitektúr og samvirkni milli upplýsingakerfa ríkis og sveitarfélaga og tryggt að þau uppfylli tiltekin öryggis- og gæðaviðmið. Mótaðar verði, eftir því sem þörf krefur, sértækar stefnur, viðmið, staðlar og reglur fyrir opinbera vefi sem þróist í takti við breytingar í tækni og þarfir samfélagsins. Þeim verði fylgt eftir með reglulegum könnunum/úttektum. Tryggt verði aðgengi að auðkenningarleiðum, sem mæta því öryggisstigi sem þörf er á hverju sinni, þar með talin rafræn skilríki.

hagraeding4. Hagræðing og skilvirkni

Upplýsingatækni verði nýtt til að ná aukinni sjálfvirkni, samnýtingu upplýsinga og til almennrar hagræðingar í rekstri og þjónustu. Stofnanir ríkis og sveitarfélaga hafi aðgang að þekkingu og ráðgjöf  þegar þau ráðast í umbótaverkefni  á sviði upplýsingatækni (verkefnahús). Unnið verði að því að nota upplýsingatækni við að greina og draga úr svikum og rutt verði úr vegi lagalegum hindrunum sem kunna að standa í vegi fyrir að hægt sé að veita rafræna þjónustu og opna gögn.

aukid-lydraedi5. Aukið lýðræði

Stofnanir og sveitarfélög efli lýðræði með því að tileinka sér gagnsæ, skilvirk og opin samráðsferli svo að almenningur og fyrirtæki geti með auðveldum hætti komið að sjónarmiðum sínum í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku. Komið verði á rafrænni kjörskrá, rafrænum íbúakosningum og undirskriftasöfnunum í sveitarfélögum. Þá verði gerð tilraun í með rafrænar sveitarstjórnarkosningar.

aukin-thjonusta6. Aukin þjónusta

Einstaklingar og fyrirtæki geti afgreitt erindi sín við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga hvenær sem er og án tafar, þá geti einstaklingar og fyrirtæki fengið upplýsingar um eigin mál og fylgst með stöðu þeirra. Ríki og sveitarfélög þrói saman „mínar síður“ á Ísland.is (ein gátt).

Opið samráð til 8. febrúar 2011

Allir áhugasamir eru hvattir til að senda inn tillögur eða ábendingar, sér í lagi er tengjast þeim drögum að meginmarkmiðum sem hér eru kynnt og verkefnisstofna. Allar ábendingar er varða stefnumótunina, ferlið sjálft eða þau gögn sem liggja þessari vinnu til grundvallar eru vel þegnar en þær sendist með tölvupósti á netfangið [email protected] fyrir 8. febrúar næstkomandi. Kjarnahópur fer yfir allar ábendingar sem berast og þeim verða gerð skil í greinargerð á vefsvæði verkefnisins í lok febrúarmánaðar. Á vef verkefnisins eru einnig aðgengileg ýmis grunngögn fyrir mótun nýju stefnunnar, t.d. um stöðu Íslands í málefnum upplýsingasamfélagsins, mat á árangri fyrri stefnu og erlendar fyrirmyndir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira