Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Innviðaráðuneytið

Ríkisstjórnin heimilar undirbúning að hönnun og smíði Vestmannaeyjaferju

Ríkistjórnin áréttaði á fundi sínum í dag sem haldinn var á Selfossi að haldið yrði áfram undirbúningi vegna útboðs og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Að fengnum jákvæðum niðurstöðum undirbúningsins yrði ráðist í næsta áfanga sem er að bjóða út hönnun og síðan smíði hennar út. Samkvæmt áætlunum yrði ný Vestmannaeyjaferja tekin í notkun árið 2015.

Unnið hefur verið að þessu verkefni undir forræði innanríkisráðuneytisins samkvæmt samgönguáætlun og framkvæmdaáætlun. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga, þarfagreiningu og kröfulýsingu fyrir nýja ferju, ljúki í byrjun næsta mánaðar.

Áhersla er lögð á lágmarks djúpristu en jafnframt að tryggja góða stjórnhæfni við hinar erfiðustu aðstæður með það að markmiði að frátafir siglinga ferju í Landeyjahöfn verði sem minnstar. Gert er ráð fyrir að lögð verði til smíði á um 60 fólksbíla ferju, rúmlega 60 m langri og 15 m breiðri og með djúpristu 2,8 m en Herjólfur ristir 4,3 m. Gert er ráð fyrir svokallaðri tvinn (hybrid) tækni. Miðað er við að siglingar í Landeyjahöfn allt árið með ásættanlegum frátöfum yfir háveturinn.

Með því að siglingar til Þorlákshafnar hætti og með hybrid tækninni mun sparast umtalsverður olíukostnaður. Með nýrri tækni og skipulagi má mögulega lækka árlegan rekstrarkostnað um 230 milljónir króna. miðað við núverandi stöðu. Ekki hefur hér verið tekið tillit til annarra veigamikilla og jákvæðra atriða svo sem aukins öryggis, bættrar þjónustu, minni mengunar og framtíðarmöguleikum á að nýta landrafmagn. Þá er eftir að taka tillit til sparnaðar við dýpkun en með nýrri grunnristari ferju lækkar dýpkunarþörfin frá 300-500 þúsund rúmmetrum niður í 150-200 þúsund rúmmetra á ári. Það gefur árlegan sparnað upp á um 150 m.kr. til viðbótar þeim 230 m.kr. sem framan er talið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum