Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2013 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaun í samkeppni um besta barnaefnið á netinu.
Undirritun skólasamnings við Fjölbrautaskóla Suðurlands
Undirritun skólasamnings við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Á Alþjóðlega netöryggisdeginum, sem haldinn er 5. febrúar, voru veitt verðlaun í samkeppni um besta barnaefnið á netinu. Verðlaunin hlutu Selma Hrönn Maríudóttir, fyrir Grallarasögur á síðunni Grallarar.is og Anna Margréti Ólafsdóttir, höfundur Paxel123.com. Í umsögn dómnefndar um Grallarasögur segir m.a. að verkefnið sé heildstætt með margvíslega notkunarmöguleika og mikla þróunarmöguleika í margar áttir.  Það er skemmtilegt, fræðandi og krefjandi og talar beint til aldursflokksins sem það er hugsað fyrir. Hönnun og myndefni er í stíl við innihaldið til fyrirmyndar að bakland efnisins er skýrt og traust, þ.e. fjölskylda grallaranna.

Í umsögn um dómnefndar um Paxel123 segir m.a. að hann sé mjög skemmtilegur vefur, sem býr yfir miklum möguleika til áframhaldandi þróunar. Vefurinn er mjög aðgengilegur fyrir börn, leikirnir eru fjölbreyttir, á mörgum tungumálum og styðja við stærðfræðilega hugsun og móðurmálsörvun. Einnig bjóða leikirnir upp á mismunandi erfiðleikastig sem er gott fyrir yngstu notendurna.

Í vetur efndi SAFT til samkeppni um besta barna- og unglingaefnið á netinu. Verkefnið er sameiginlegt átak netöryggismiðstöðva í Evrópu. Þetta er í annað skipti sem samkeppnin er skipulögð og fer hún fram í tvennu lagi:

1.            Fyrst er samkeppni á landsvísu sem fram fer í öllum þátttökulöndum.

2.            Evrópusamkeppni fer svo fram síðar á árinu, en þar etja sigurvegararnir úr landskeppnunum kappi.

Tilgangur samkeppninnar er að vekja athygli á gæðaefni fyrir börn og unglinga og hvetja til framleiðslu á þess háttar efni. Markmiðið er að netefnið gagnist börnum á einn eða annan hátt svo sem við fræðslu og sköpun.

Þema alþjóðlega netöryggisdagsins í ár er „Réttindi og ábyrgð á netinu ” og munu yfir 70 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá. Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda samstarfsnetið Insafe, og yfir 40 önnur lönd leiða saman ýmsa hagsmunaðila til þess að vekja athygli á og ræða netið frá ýmsum hliðum á Alþjóðlega netöryggisdeginum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira