Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 35/2012.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

 

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. janúar 2013

í máli nr. 35/2012:

Nortek ehf.

gegn

Ríkiskaupum

 

Með bréfi, dags. 13. desember 2012, kærir Nortek ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 1533 „Aðgangsstýrikerfi fyrir LSH. 1. áfangi: Slysa- og bráðadeild“. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur: 

1.      Að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað innkaupaferli og samningsgerð á grundvelli ofangreinds útboðs í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.

2.      Að felld verði úr gildi ákvörðun kærða þess efnis að taka tilboði Securitas hf., sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

 Verði ekki fallist á ofangreindar kröfur krefst kærandi þess:

3.      Að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða að bjóða verkið út að nýju, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

4.      Að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

5.      Í öllum tilvikum er þess krafist að nefndin ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis. Athugasemdir kærða bárust kærunefnd útboðsmála með bréfi, dags. 10. janúar 2013. Krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að kærunefnd ákveði að kærandi skuli greiða kostnað kærða við að verjast þessari kæru að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar.

       Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar. 

I.

Kærði auglýsti í október 2012 útboð nr. 15335 „Aðgangsstýrikerfi fyrir LSH. 1. áfangi: Slysa- og bráðadeild“. Var óskað eftir tilboðum í lagningu á búnaði fyrir aðgangskerfi á slysdeild, deilihönnun, tengingu og forritun á búnaði. Átti kerfið að vera samkvæmt EN kröfum sem skilgreindar eru í EN-50-133 og vera CE merkt, sbr. gr. 2.1.1 í útboðslýsingu. Samkvæmt verklýsingu áttu aðgangskort og aðgangslesarar að vinna samkvæmt svokölluðum iClass staðli sem og að geta unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma. Jafnframt áttu samskipti við hurðarstjórnunareiningu að vera dulkóðuð með 128 bita kóðun. Samkvæmt gr. 1.2.3 í útboðslýsingu skyldu tilboð einungis metin út frá verði. Frávikstilboð voru óheimil, sbr. gr. 1.1.7.

       Kærandi, sem sérhæfir sig í lausnum á öryggiskerfum, lagði fram tvö tilboð. Tilboð A var að fjárhæð 8.154.810 krónur. Í því tilboði voru aðgangslesarar með áskildum iClass stuðli en gátu ekki fullnægt því skilyrði að vinna með NFC samskiptatækni við gsm farsíma. Tilboð Securitas ehf., sem var einn bjóðenda, gerði ráð fyrir sömu lausn. Kærandi lagði einnig fram tilboð B að fjárhæð 7.025.160 krónur, sem var lægsta tilboðið. Í því tilboði höfðu aðgangslesarar svokallaðan DESFire EV1 stuðul sem fullnægði því skilyrði útboðslýsingar að geta unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma. Kærandi greinir frá því að síðarnefndi stuðullinn sé hraðvirkari og ódýrari en iClass stuðullinn og sé með 128 bita AES dulkóðun, eins og áskilið hafi verið í útboðslýsingu. Hins vegar sé iClass stuðullinn einungis með 64 bita AES dulkóðun.

       Kærði tilkynnti 4. desember 2012 að ákveðið hefði verið að velja tilboð Securitas ehf., sem var að fjárhæð 7.589.865 krónur. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun kærða, þar sem tilboð B frá kæranda hefði verið lægra. Rökstuðningur kærða barst kæranda 11. desember 2012. Af rökstuðningnum er ljóst að tilboð B hafi verið metið ógilt, þar sem DESFire staðall hafi verið boðinn í stað iClass staðals. Tilboð A var hins vegar talið samrýmast útboðsgögnum, þrátt fyrir að hvorki hafi verið unnt að uppfylla það skilyrði að NFC samskiptatækni væri fyrir hendi né um 128 bita dulkóðun. Tilboð Securitas ehf. var sambærilegt tilboði A en lægra og því var því tilboði kæranda hafnað.   

II.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að sú ákvörðun kærða, að hafna tilboði kæranda á grundvelli þess að það sé í andstöðu við útboðsskilmála en jafnframt taka tilboði Securitas ehf., hafi verið í andstöðu við jafnræðisreglu laga nr. 84/2007, enda hafi tilboð Securitas ehf. heldur ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar.

       Kærandi bendir á að ástæða þess að hann hafi lagt fram tvö tilboð hafi verið mikil vandkvæði við að uppfylla skilyrði útboðsskilmála um aðgangslesara, sbr. gr. 2.1.4. Í skilmálunum hafi verið gert ráð fyrir að aðgangslesarar væru samkvæmt svokölluðum iClass staðli og skyldu geta unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma. Ljóst sé hins vegar að það sé miklum vandkvæðum bundið að uppfylla bæði skilyrðin, þar sem aðgangslesarar með iClass staðli uppfylli almennt ekki það skilyrði að geta unnið með NFC samskiptatækni. Annað tilboð kæranda hafi því haft aðgangslesara með iClass staðli, sem geti ekki unnið með NFC samskiptatækni. Hitt tilboðið hafi haft aðgangslesara með DESFire EV1 staðli sem geti unnið með NFC samskiptatækni og hafi uppfyllt önnur skilyrði útboðslýsingar. Báðum tilboðunum hafi verið hafnað en hins vegar hafi tilboði Securitas ehf. verið tekið. Það tilboð hafi gert ráð fyrir aðgangslesara með iClass staðli, sem geti ekki unnið með NFC samskiptatækni. Kærandi telur að sú ákvörðun kærða að hafna tilboði hans sem innihélt DESFire EV1 staðalinn en taka tilboði Securitas ehf. hafi brotið í bága við jafnræði aðila, þar sem ljóst sé að tilboð Securitas ehf. hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar.

       Kærandi leggur áherslu á að í útboðslýsingu hafi verið kveðið á um að aðgangslesarar skyldu geta unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma sem og að lesarar skyldu vera með iClass staðli. Einnig hafi komið fram að hurðarstjórnareiningar skyldu vera dulkóðaðar með 128 bita kóðun og allt kerfið skyldi vera í samræmi við EN kröfur. Kærandi telur að tilboð Securitas ehf. hafi einungis uppfyllt eitt framangreindra skilyrða með fullnægjandi hætti. Þrátt fyrir það hafi kærandi talið það tilboð standast kröfur útboðslýsingar. Tilboð B hjá kæranda, sem hafi verið lægst að fjárhæð, hafi hins vegar uppfyllt kröfur um NFC samskiptatækni en ekki kröfur um iClass staðalinn og hafi af þeim sökum verið talið ógilt. Bendir kærandi á að kærði virðist þannig ákveða hvaða frávik séu heimil og hvaða ekki. Telur hann slíkt ótækt.

       Kærandi telur að samkvæmt gr. 2.1.4 í útboðslýsingu séu gerðar skýrar kröfur um tæknilega eiginleika sem umrætt kerfi þurfi að búa yfir. Það sé óundanþæg krafa að lesarar geti unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma og að samskipti séu með 128 bita kóðun. Tilboð Securitas ehf. uppfylli ekki þessar kröfur.

       Þessu til viðbótar leggur kærandi áherslu á að vottorðið sem Securitas ehf. hafi lagt fram um að kerfið uppfylli kröfur EN 50-133 stafi frá framleiðanda. Ekki sé um lögbæra vottun að ræða og því sé ekki á því byggjandi.

       Kærandi telur það andstætt jafnræðisreglu útboðsréttar að taka tilboðum sem víki frá almennum kröfum útboðslýsingar. Óheimilt sé að setja skilyrði eða veita rýmri heimildir til frávika eftir á.

       Kærandi telur að tilboð Securitas ehf. geti ekki talist frávikstilboð, enda hafi slík tilboð ekki verið heimil. Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga nr. 84/2007 sé kaupanda skylt að taka fram í útboðsauglýsingu hvort frávikstilboð séu heimil en að öðrum kosti séu þau óheimil. Óheimil frávikstilboð séu því ógild. Þá sé kaupanda aðeins heimilt að taka til umfjöllunar frávikstilboð sem fullnægi lágmarkskröfum kaupanda samkvæmt útboðsgögnum. Telur kærandi að það skilyrði sé ekki uppfyllt í máli þessu. Kærði hafi einfaldlega ákveðið að taka tilboði sem sé ekki í samræmi við forskrift útboðslýsingar. Slíkt sé ótækt og í andstöðu við ákvæði laga nr. 84/2007.

       Kröfu sína um stöðvun innkaupaferlis og gerð samnings byggir kærandi á 1. mgr. 96. gr laga nr. 84/2007. Telur kærandi ljóst að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna. Því telur hann rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs þar til endanlega hafi verið skorið úr kæru. 

III.

Kærði hafnar öllum fullyrðingum kæranda og telur þær ekki byggja á neinum haldbærum gögnum heldur einungis röngum ályktunum. Telur hann kæru þessa tilefnislausa með öllu. Forsendur þær sem útboðslýsingin byggi á og þau atriði sem deilt sé um séu hvoru tveggja málefnaleg og hlutlæg.

       Kærði hafnar því að tilboð Securitas ehf. hafi ekki uppfyllt kröfu útboðslýsingar um að samrýmast EN kröfum. Kærði hafi ekki óskað eftir vottun frá viðurkenndum óháðum aðila. Það sé viðtekin venja í tæknigreinum, þar sem breytingar séu örar, að yfirlýsingar frá framleiðendum um að búnaður uppfylli viðeigandi staðla hverju sinni teljist fullnægjandi. Ákvörðun um að krefjast ekki vottunar frá óháðum þriðja aðila hafi því verið í samræmi við venju, ívilnandi fyrir væntanlega bjóðendur og í samræmi við 51. gr. laga nr. 84/2007.

       Kærði hafnar með öllu röngum staðhæfingum kæranda um tilboð Securitas ehf. Telur hann fullyrðingarnar einfaldlega rangar og vísar til fylgiskjala máli sínu til stuðnings. Í skjölunum komi fram að umræddir lesarar geti unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma og að samskipti séu með 128 bita kóðun. Kærði furðar sig á því að þessu sé haldið fram án nokkurra gagna þegar til séu opinberar upplýsingar um vöruna og lítið mál sé fyrir kæranda, sem búi yfir mikilli sérfræðiþekkingu, að kynna sér það.

       Kærði hafnar því að brotið hafi verið á jafnræðisreglu laga nr. 84/2007 og að tilboð Securitas ehf. sé í raun frávikstilboð.       

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum.

       Fram hefur komið að ágreiningur máls þessa snýst að meginstefnu um það hvort jafnræði aðila hafi verið raskað þegar tilboði Securitas ehf. hafi verið tekið en tilboði kæranda hafnað, þrátt fyrir að hvorugt tilboðanna hafi uppfyllt allar kröfur útboðsskilmála eins og kærandi heldur fram.

       Kærandi tiltekur einkum tvö skilyrði í útboðslýsingu, sem tilboð Securitas ehf. hafi ekki uppfyllt, það er að umræddir lesarar geti ekki unnið með NFC samskiptatækni við gsm farsíma og að samskipti séu með 128 bita kóðun. Í gögnum málsins, sem kærði hefur lagt fram, er meðal annars að finna nákvæmar upplýsingar um þá vöru sem Securitas ehf. bauð í tilboði sínu. Kemur þar fram að lesararnir búi yfir tilskildum eiginleikum. Þá er það einnig ljóst að í útboðslýsingu kemur hvergi fram áskilnaður um lögbæra vottun.

Er það mat kærunefndar útboðsmála í samræmi við fyrirliggjandi gögn að ekkert sé fram komið er leitt geti verulegar líkur að því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis.

      

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Norteks ehf., um að stöðva innkaupaferli sem fram fer á grundvelli útboðs kærða, Ríkiskaupa nr. 15335 „Aðgangsstýrikerfi fyrir LSH. 1. áfangi: Slysa- og bráðadeild“ þar til endanleg niðurstaða kærunefndar útboðsmála liggur fyrir.

 

Reykjavík, 24. janúar 2013

 

Páll Sigurðsson,

Auður Finnbogadóttir,

Stanley Pálsson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík,  [Setja inn dags.]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn