Hoppa yfir valmynd
Velferðarráðuneytið

Ársskýrsla Neytendasamtakanna um aðstoð við leigjendur

Húsin í bænum
Húsin í bænum

Leigjendaaðstoðinni sem Neytendasamtökin reka samkvæmt þjónustusamningi við velferðarráðuneytið bárust rúmlega 1.400 erindi árið 2012 samkvæmt ársskýrslu samtakanna um þjónustuna. Samtökin hafa annast aðstoð við leigjendur samkvæmt samningi við ráðuneytið frá því vorið 2011.

Erindi til leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna voru 1.048 árið 2011 en samtals 1.431 árið 2012. Nýr samningur var gerður milli velferðarráðuneytisins og Neytendasamtakanna um aðstoð við leigjendur og gildir hann til ársloka 2013. Þjónustan felst í því að veita leigjendum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um lagalega stöðu sína komi upp ágreiningur milli leigjenda og leigusala.

Í ársskýrslunni kemur fram að algengustu fyrirspurnir leigjenda snúist um viðhald og ástand eignar og um uppsagnir leigusamninga. Er þá einkum spurt hvað leigjandi geti tekið til bragðs ef viðhaldi húsnæðisins er ábótavant eða ástand þess óviðunandi, hvort leigjandi megi mála íbúðina eða gera einhverjar breytingar og einnig um lok tímabundinna leigusamninga, hvenær megi segja upp samningi og hvernig eigi að fara að því og þar fram eftir götunum. Fjölmörg erindi berast einnig um margvísleg önnur mál, s.s. um húsaleigubætur, kærunefnd húsamála, framkvæmd útburðar, þinglýsingu samninga og margt fleira.

Upplýsingar um erindi frá leigjendum eru kyngreindar í ársskýrslunni og kemur fram að talsvert fleiri konur en karlar hafa samband við leigjendaaðstoðina. Árið 2012 bárust 611 erindi frá körlum en 820 frá konum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira