Hoppa yfir valmynd
11. mars 2013 Innviðaráðuneytið

Endurbætur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á Keflavíkurflugvelli fyrir um þrjá milljarða króna

Framkvæmdir eru hafnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem miða að því að auka afköst í stöðinni og stytta biðtíma við afgreiðslu flugfarþega meðal annars með fjölgun sjálfsinnritunarstöðva, fjölgun brottfararhliða, fjölgun landamærabásum og með nýjum biðsvæðum. Nokkur fjárfesting verður einnig vegna sjálfs flugvallarins og er gert ráð fyrir að framkvæmdir á þessu ári og því næsta kosti um þrjá milljarða króna.

Margs konar endurbætur standa nú yfir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Margs konar endurbætur standa nú yfir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia sem rekur alla flugvelli landsins, segir að síðasta ár hafi verið metár í umferð og rekstri Keflavíkurflugvallar. Liðlega 2,3 milljónir farþega fóru um völlinn á síðasta ári sem er 12,7% aukning frá 2011. ,,Umsvif á Keflavíkurflugvelli hafa farið vaxandi síðustu árin og við gerum ráð fyrir um 10% fjölgun í sumaráætlun flugfélaganna í ár,” segir Björn Óli en 17 félög munu annast áætlunar- og leiguflug um Keflavíkurflugvöll í sumar.

Um 15.500 manns um stöðina á dag á háannatíma

Gert er ráð fyrir að afgreiða 32 komur og brottfarir flugvéla um háannatíma að morgni og annan eins fjölda síðdegis flesta daga vikunnar. Þessu til viðbótar koma vélar sem afgreiddar eru um hádegi og kringum miðnættið. Þegar mest er um að vera í júní, júlí og ágúst fara um 15.500 manns um Leifsstöð á dag. ,,Með þessum endurbótum erum við samt í raun aðeins að kaupa okkur frið til skamms tíma því eftir sem áður er nauðsynlegt að stækka flugstöðina á allra næstu árum,” segir Björn Óli. Alls verður fjárfest fyrir um 1,4 milljarða króna í flugstöðinni og um nálega 1,3 milljarða vegna verkefna við flugvöllinn og þjónustu við flugvélar og dreifist þessi fjárfesting á tvö ár.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, segir að biðraðamyndun og tafir verða á ákveðnum svæðum í flugstöðinni vera flöskuháls í afgreiðslu farþega og mikilvægt sé að leysa það fyrir háönn sumarsins. Framkvæmdirnar miðist við það að sem minnst hætta sé á að flöskuhálsar myndist, hvort sem er við innritun farþega í brottfararsal, vegabréfaskoðun inn eða út úr landinu eða þegar farþegum er hleypt um borð í flugvélar.

Einnig framkvæmdir við flugvöllinn

Auk framkvæmda við sjálfa flugstöðina er nú verið að undirbúa byggingu þjónustuhúss sem hýsa á alla starfsemi flugvallarþjónustu sem annast meðal annars viðhald flugbrauta, hálkuvarnir og slökkvi- og björgunarþjónustu og aðstöðu þeirra starfsmanna en gert er ráð fyrir að bjóða verkið út bráðlega. Þá verður einn slökkvibíll endurnýjaður í ár og annar á næsta ári, endurnýja þarf yfirborð akstursbrauta og stóra flugskýlið sem Varnarliðið skildi eftir verður rifið og svæðið þar endurskipulagt. Gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir kosti ríflega einn milljarð króna.

Eiríkur Ómar Sveinsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar, segir brýnt að fá slökkvistöð og tækjageymslu undir sama þak og þar með aðstöðu allra starfsmanna sem sinna hvers kyns þjónustu á vellinum sjálfum.

Björn Óli Hauksson segir að lokum um afkomu Isavia að hún hafi verið góð á síðasta ári, hagnaður verið tæplega 900 milljónir króna og gert sé ráð fyrir um 1.800 milljóna króna hagnaði á þessu ári. Hann segir veltu Isavia og dótturfélaga, þ.e. Fríhafnarinnar og Tern Systems sem annast hugbúnaðargerð vegna flugleiðsögu, sé um 20 milljarðar króna. Þá segir forstjórinn að til lengri framtíðar þurfi að huga að viðbyggingu við flugstöðina og standi yfir vinna við aðalskipulag. Í framhaldinu komi að deiliskipulagi og verið er einnig að hefja vinnu við 5 til 10 ára áætlun fyrir flugstöðina þar sem þróun næstu ára verður skipulögð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum