Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 4. október 2012, þess efnis að leggja hald á 49 lambskrokka, verði aðallega felld úr gildi,

I. Kröfugerð

Jón Ögmundsson, hrl., f.h. Arnórs Stefánssonar kt. 090160-3469, krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 4. október 2012, þess efnis að leggja hald á 49 lambskrokka, þar af 7 skrokka í eigu umbjóðanda hans, verði aðallega felld úr gildi, en til vara að ákvörðun Matvælastofnunar verði ógilt eða breytt, þannig að skrokkarnir verði afhentir eiganda sínum.

Þann 25. október 2012 var  ákvörðun Matvælastofnunar endurupptekin að hluta þar sem stofnunin viðurkenndi eignarhald Ævars Snorrasonar á 7 lambskrokkum.

Jón Egilsson, hrl., hefur f.h. sex aðila hins vegar kært sömu ákvörðun Matvælastofnunar og gert sömu kröfur hvað varðar haldlagningu á 35 skrokkum í meintri eigu umbjóðenda hans. Samkvæmt þeirri kæru, eru kærendur: Jens Pétur Högnason kt. 070950-3329, Friðbjörg Egilsdóttir kt. 230355-7549 og börn þeirra, sögð eiga 18 haldlagða skrokka og aðrir fimm aðilar, sagðir eiga frá 2 og allt að 7 skrokkum.

Þá krefst lögmaður kærenda þess að stjórnvöld beri allan kostnað af aðgerðum Matvælastofnunar, þar með talinn lögfræðikostnað kærenda.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 30. gr. d. laga nr. 93/1995, um matvæli og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málavextir

Við skoðun héraðsdýralæknis þann 19. september 2012 kom í ljós að verið var að slátra umtalsverðum fjölda  sauðfjár í húsi merkt 8. A, í Fjárborg – fjárhúsum á félagssvæði fjáreigenda á Hólmsheiði í Reykjavík. Þinglýstir eigendur húsnæðisins eru þau Jens Pétur Högnason og Friðbjörg Egilsdóttir. Samkvæmt lýsingu Matvælastofnunar upplýsti Jens Pétur, að 50 skrokkar væru í eigu hans sjálfs.


Með bréfi dags. 19. september 2012, tilkynnti Matvælastofnun Jens Pétri um haldlagningu á framangreindum 50 skrokkum. Matvælastofnun byggir haldlagningu á 3. mgr. 30 gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Matvælastofnun taldi með tilliti til kjötmagnsins, þ.e. 50 skrokka, auk þess sem fyrirhugað var að slátra 28 kindum til viðbótar, að kjötið væri ekki til eigin neyslu og starfsemin því stunduð án leyfis skv. 5. gr. laga nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir.  

Haldlagning Matvælastofnunar fór fram þann 20. september 2012 og var endanlegur fjöldi haldlagðra lambskrokka 49 skrokkar þar sem einn skrokkur hafði horfið frá deginum áður. Í sameiginlegri yfirlýsingu  þeirra Jens Péturs og Gunnars Arnar Guðmundssonar, héraðsdýralæknis Suðvesturumdæmis þann sama dag, kemur fram að skrokkarnir verði í vörslu Matvælastofnunar á meðan málið er í vinnslu, eða svo lengi sem þurfa þykir. Í yfirlýsingunni samþykkir Jens Pétur að skrokkarnir séu í hans eigu. Í bréfinu var veittur frestur til 25. september 2012 til andmæla vegna aðgerða stofnunarinnar og fyrirhugaðrar ákvörðunar stofnunarinnar.

Þann 21. september 2012 sendi þáverandi lögmaður Jens Péturs Högnasonar bréf til Matvælastofnunar þar sem hann andmælti haldlagningu kjötsins.  Í bréfinu er bent á að Jens Pétur sé ekki einn eigandi lambskrokkanna heldur séu tíu aðrir eigendur að afurðunum. Vísað var til þess að fyrir lægi sérstök „fjárbók“ þar sem útskýrt væri hver á hvaða grip.

Þann 24. og 27. september 2012 upplýsti kærandi, Friðbjörg Egilsdóttir, Matvælastofnun með tölvupósti um að Arnór Stefánsson ætti hluta hinna haldlögðu lambskrokka .

Þann 30. september 2012 vísaði Matvælastofnun, í tölvupósti til Friðbjargar Egilsdóttur, til þeirrar afstöðu sinnar að heilmilt sé að slátra heima til eigin neyslu. Matvælastofnun hafi ekki gert athugasemdir við slátrun þar sem magnið er innan eðlilegra marka. 15 skrokkar hafi verið látið óátalið magn hjá einum aðila í Fjárborg. Sé magnið hins vegar umtalsvert, í þessu tilfelli 49 skrokkar , telji stofnunin að leiða megi að því líkur, að slíkt magn geti ekki verið til eigin neyslu og sé því til dreifingar.

Þann 4. október 2012 tók Matvælastofnun hina kærðu ákvörðun og staðfesti ákvörðun sína um  haldlagningu lambskrokkanna til bráðabirgða frá 19. september 2012. Stofnunin taldi að ekki væri hægt að fallast á eignarhald annarra en Jens Péturs Högnasonar á skrokkunum. Stofnunin mat það svo að afhending afurða til annarra einstaklinga væri dreifing og starfsemin þannig stunduð án tilskilinna leyfa.

Degi seinna, eða þann 5. október 2012, bauð Matvælastofnun lögmanni Jens Péturs að koma á framfæri nýjum athugasemdum.

Þann 15. október 2012 var haldinn fundur milli Matvælastofnunar og hluta kærenda, Jens Péturs og Friðbjargar ásamt lögmanni þeirra og formanni fjáreigendafélags Reykjavíkur. Tilefni fundarins var að gefa aðila málsins kost á því að koma á framfæri frekari gögnum og sjónarmiðum vegna málsins og mögulega endurskoða fyrri ákvörðun Matvælastofnunar frá 4. október 2012 í ljósi nýrra gagna. Á fundinum lögðu kærendur fram „fjárbók“ og vísuðu kærendur til þess að fjárbókin  sannaði eignarrétt þeirra að tilteknum kindum, enda sé um nákvæma fjárbók að ræða þar sem eignarhaldið sé sérstaklega skráð.  


Matvælastofnun barst greinargerð allra meintra eigenda fjárins, þar á meðal kæranda Arnórs Stefánssonar þann 22. október 2012, þar sem kröfum er lýst og málsatvik og málsástæður tíundaðar.

Þann 25. október 2012 tilkynnti Matvælastofnun síðan Jens Pétri að ákvörðunin hafi verið endurupptekin að hluta þar sem stofnunin viðurkenni eignarhald Ævars Snorrasonar á sjö skrokkum, þar sem kindurnar voru merktar bæði með merki og marki sem hann var skráður fyrir á þeim tíma. Þann 29. október 2012 afhenti Matvælastofnun Ævari þessa sjö skrokka sem stofnunin taldi í eigu hans.

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 4. október 2012 var síðan kærð til ráðuneytisins þann 7. nóvember 2012, þar sem gerð var sú krafa að ákvörðun Matvælastofnunar, þess efnis að leggja hald á  49 lambskrokka, þar af 7 skrokka í eigu umbjóðanda hans, Arnórs Stefánssonar,  verði aðallega felld úr gildi, en til vara að ákvörðun Matvælastofnunar verði ógilt eða breytt, þannig að allir skrokkar verði afhentir eigendum sínum.

Lögmaður Arnórs sendi Matvælastofnun tölvupóst, þann 30. október 2012, þar sem vísað er til þess að lagt hafi verið hald á sjö kjötskrokka sem tilheyrðu kæranda og ætlaðir voru til neyslu hjá fjölskyldu hans. Farið var fram á að Matvælastofnun félli frá frekari málarekstri og afhenti umræddar afurðir. Matvælastofnun svaraði þessum tölvupósti sama dag þar sem sagt var að stofnunin hefði tekið ákvörðun í málinu og því væri lokið af hálfu stofnunarinnar.

Þann 14. nóvember 2012 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar og öllum gögnum málsins um stjórnsýslukæru Jóns Ögmundar f.h. kæranda. Svar Matvælastofnunar  barst ráðuneytinu 21. nóvember 2012.

Þann 23. nóvember 2012 sendi ráðuneytið umsögn Matvælastofnunar og gögn málsins til lögmanns f.h. kæranda og óskaði eftir umsögn og athugasemdum kæranda við umsögn Matvælastofnunar. Svar barst ráðuneytinu 13. desember 2012.

Þann 8. janúar 2013 sendi ráðuneytið Jóni Egilssyni lögmanni Jens Péturs o.fl. aðila ósk um frekari upplýsingar um afdrif þeirra 28 kinda sem fyrirhugað var að slátra þegar stofnunin lagði hald á umrædda 49 skrokka. Svar barst ráðuneytinu þann 10. janúar 2013 þar sem fram kom að 13 kindum hafi verið slátrað, þar af einni í eigu Ævars Snorrasonar en 15 gripir settir á.

Þann 12. mars 2013 óskaði ráðuneytið eftir því við lögmann Jens Péturs að skoða umrædda fjárbók. Ráðuneytinu barst bókin þann 13. mars 2013.

III. Málsástæður og lagarök


Málsástæður kæranda

Lögmaður kæranda mótmælir því að umbjóðanda hans hafi verið synjað um aðild að málinu hjá Matvælastofnun, enda hafi hann beinna hagsmuna að gæta, þar sem ákvörðun stofnunarinnar hafi leitt til þess að hald var lagt á lambskrokka sem hann átti og honum síðan neitað um afhendingu þeirra þegar eftir því var leitað.

Lögmaður kæranda vísar að öðru leyti í heild sinni til málsástæðna sem fram koma í stjórnsýslukæru: Jón Egilsson, hrl., f.h. sex aðila, dags. 2. nóvember 2012.
Í þeirri kæru kemur fram að kærendur telja sig „...uppfylla öll skilyrði þess að mega heimaslátra sínu fé.  Þá er hvergi að finna lagastoð fyrir þeirri túlkun Matvælastofnunar að miða eignarhald alfarið við opinbera markaskrá, hvað þá þegar hægt er að upplýsa með gögnum um rétt eignarhald. Þessi afstaða Matvælastofnunar er ólögmæt og órökrétt. Að breyta ekki ákvörðun þótt forsendur séu rangar er óafsakanlegt.“
Kærendur vísa til þess að: „Matvælastofnun hafi ekki samþykkt aðild þeirra að málinu en fallast samt á kröfur Ævars þótt hann eigi ekki aðild að málinu.  Þ.e. stofnun veit að kærendur eru réttir eigendur en samt er ekki byggt á því nema við Ævar sem sagður er eiga vini á stofnuninni. Öðrum eigendum var ekki gefinn kostur á því að koma sínum sjónarmiðum að í málinu.“ Kærandi segir ennfremur: „Matvælastofnun hefur verið treg í leiðbeiningar til kærenda – virðast vilja standa áfram í stríði við kærendur og það er ekki ásættanlegt.“

Kærendur vísa til þess að starfmenn Matvælastofnunar, hafi ekki haft „...leitarheimild og hafi ekki með sér lögreglu og hlustaði nákvæmlega ekkert á fólkið á staðnum og lét setja tvo og tvo skrokka saman og notaði ekki kælibíl heldur „skítugan sendibíl.“

Lögmaður kærenda vísar til þess, að kærandi Jens og fjölskylda hans uppfylli sannanlega öll skilyrði þess að mega stunda heimaslátrun eins og að framan er rakið og geti ákvörðun Matvælastofnunar ekki verið lögmæt eða málefnaleg. „Kærendur hafa reynt að finna skýringu á afskiptum Matvælastofnunar þar sem eigendur kinda í húsi Jens og fjölskyldu eru hreinlega lagðir í einelti en engir aðrir á svæðinu þótt alkunna sé að skepnuhald kærenda er með miklum ágætum til heimilishalds og enginn hefur borið á kærendur sölu eða dreifing,“ segir í stjórnsýslukæru lögmanns fyrir hönd kærenda  
Bent er á að við úrlausn þessa máls hafi Matvælastofnun mismunað fjáreigendum í Fjárborg. Í öðrum fjárhúsum í Fjárborginni sé aðeins eitt mark í hverju húsi þótt  eigendur séu fleiri, en engin fjárbók eða númer á kindunum,  allir aðrir mega stunda heimaslátrun án afskipta stofnunarinnar „...þar eru margir með sama mark en engin afskipti stofnunar og lélegri aðstæður og engin fjárbók.  Allt aðrar og meiri kröfur eru til kærenda og það er ólögmæt mismunun og ráðuneyti mun vonandi ekki líða þessa mismunun.“
Kærendur segja í kæru sinni að starfsmenn Matvælastofnunar „...virðast vera á móti heimaslátrun Jens og eigenda.  Þetta er ekki lögmætt sjónarmið þar sem heimaslátrun utan lögbýla er lögmæt, sbr. t.d. hrd. 380/2010 – þar voru 19 skrokkar slátrað í gámi eitt mark en fleiri eigendur, sbr. einnig 5. gr. l. mr. 96/1997.  Við úrlausn málsins ber m.a. að leggja til grundvallar áður en til afskipta viðtakanda kom að aðstaða til heimaslátrunar var góð, fullkomin fjárbók lá frammi og engin heldur öðru fram en að slátrun hafi verið til eigin nota.  Engar fjöldatakmarkanir eru á svæðinu og eingöngu er ráðist í eitt hús en ekki önnur.  Hverju sætir þessi mismunun.  Viðtakandi hefur ekki enn viljað upplýsa um það hverju það sæti og hver hafi samband við viðtakanda og gat knúið fram þessar dæmalausu aðgerðir.  Viðtakandi hefur því ekki við neinar lögmæltar takmarkanir að styðjast hvað má halda margar kindur eða slátra mörgum til eigin nota, og bar því að sýna sérstaka varkárni við úrlausn þessa máls.“
Kærendur vísa til þess að fjárbók sanni eignarrétt þeirra að tilteknum kindum og það sé fullnægjandi sönnun á eignarhaldi. Hér sé um nákvæma fjárbók að ræða þar sem eignarhaldið sé sérstaklega skráð.  Kærendur vísa til þess að allir sem að þessu máli koma telji hana trúverðuga.  Þá séu framburðir kærenda sjálfra mikilvægir og þeir séu í fullu samræmi við fjárbókina og einnig í samræmi við beiðni kærenda um sérmörk.  Matvælastofnun hafi átt að leggja þessi gögn til grundvallar við ákvörðun um eignarhald.
Kærendur telja það ranga afstöðu hjá Matvælastofnun að „...kærendur megi ekki eiga kindur nema að eiga sérmark þar sem markaskráin sé opinber skráning og opinber skráning gangi framar raunverulegu eignarhaldi.  Með þessu fækkar eigendum kinda umtalsvert í Fjárborginni og annars staðar á landinu.  Þetta er rangt mat – það er eins gott að starfsmenn Matvælastofnunar ráði ekki með réttaráhrif þinglýsingar eða bifreiðaskrár eða Fengs en það liggur fyrir að ekki nema hluti hestamanna skráir í Feng eða tilkynnir eigendaskipti á hrossum.  Það fæst a.m.k. ekki staðist að Matvælastofnun geti mismunað eigendum á landinu með því að staðhæfa að sumir geti ekki átt kindur nema eigi sérmark – þá eigi sá aðili skepnuna sem á markið.“
Kærendur telja að það sé „...mannlegt að gera mistök eins og starfsmenn Matvælastofnunar gerðu í þessu máli.  Það er hins vegar algerlega óásættanleg hegðun að breyta ekki afstöðu þegar aðilar hafa verið upplýstir um villu vegar.  Að hanga á afstöðu eins og gert er í þessu máli þótt allar forsendur bresti, t.d. hafi verið upplýst að fjölskylda Jens hafið aðeins átt 18 skrokka og það er aðeins til heimilisnota, er ólögmætt sjónarmið.  Rétt er að ráðuneyti veiti þessum starfsmönnum tiltal en það virðist vera ólögmæt óvild og þrákelkni í garð kærenda.“
Kærendur nefna að þeir hafi „...reynt að finna skýringu á afskiptum Matvælastofnunar þar sem eigendur kinda í húsi Jens og fjölskyldu eru hreinlega lagðir í einelti en engir aðrir á svæðinu þótt alkunna sé að skepnuhald kærenda er með miklum ágætum til heimilishalds og enginn hefur borið á kærendur sölu eða dreifingu.“

Kærendur benda á að það séu engar fjöldatakmarkanir á kvikfjárhaldi í Reykjavík og hafi stofnunin því engar lagaheimildir við að styðjast þegar hún miðar að eigin geðþótta við að hver einstakur kvikfjáreigandi megi aðeins heimaslátra og nýta til eigin nota 15 skrokka.  Jens og fjölskylda eigi samtals 18 skrokka sem séu nokkur kíló á einstakling.
Kærendur benda á að hér sé um „...verðmætasóun að ræða. Það er fáránleg niðurstaða að haldleggja skrokkana og eyða þeim. „Nýja Ísland á að bera meiri virðingu fyrir verðmætum.“  Engin virðing fyrir Jens sem gerði allt rétt eða öðrum kærendum sem heldu sérskráningu undir marki Jens með sérmerki í eyra.  Fátækt og vinna kæranda náði ekki eyrum virðulegra starfsmanna Matvælastofnunar eða úrbætur kærenda að fá sérmark.  Ráðuneytið mun taka aðra afstöðu og fallast á kröfur kærenda.“
Krafa um ógildingu kærðra ákvarðana „...byggist m.a. á því að stjórnvald braut verulega á rétti þegnana við þessar aðgerðir og ákvarðanir og hafði að engu reglur um rannsóknarskyldu, andmælarétt, reglur um meðalhóf, jafnræði og innra samræmi við úrlausn krafna einstakra eigenda.  Greinilegt er að stjórnvald var búið að taka ákvarðanir áður en andmæli komu fram en tók síðan upp ákvörðun að hluta án nokkurs rökstuðnings þar sem Ævari voru afhentir einhverjir 7 skrokkar en engum öðrum.  Samt var Ævar með kvikfjárrækt sína með sama hætti og kærendur þessa máls í húsi hjá Jens og fjölskyldu hans.  Skrokkarnir sem Ævari voru afhentir er 2 frá Hirti Bergstað og 5 frá fjölskyldu Jens.  Kærendur telja sig ekki hafa notið lögmæltra réttinda sbr. sjá ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, II kafli um vanhæfi, III almennar reglur sjá 7. gr. leiðbeiningarskylda, 10. gr. rannsóknarregla, 11. gr. jafnræðisregla, 12. gr. meðalhófsreglan og öll ákvæði IV kafla um andmælarétt, upplýsingarrétt og aðgang að gögnum sem stofnun byggir aðgerðir sínar á.“
Málsástæður Matvælastofnunar
Undir rekstri málsins hjá Matvælastofnun taldi stofnunin að kærendur aðrir en Jens Pétur Högnason, ættu ekki aðild að málinu. Nærtækara væri að líta á þessa einstaklinga sem viðtakendur kjötsins. Til að njóta aðildar að máli þurfi viðkomandi að hafa einstaka og sérstaka hagsmuni af niðurstöðu þess. Til dæmis séu viðskiptavinir fyrirtækja almennt ekki aðilar máls þegar eftirlitsaðili beitir viðkomandi fyrirtæki þvingunum.

Matvælastofnun bendir á að kærandi, Arnór Stefánsson, hafi ekki skilað búfjárhaldsskýrslum eins og skylt er samkvæmt lögum sbr. 11. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., hafi ekki skráð mark, sbr. 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni og fjallskil né merki eins og öllum búfjáreigendum er skylt samkvæmt lögum, sbr.  4. og 17. gr. reglugerðar nr. 916/2012 (áður 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 289/2005). Engin opinber gögn bendi til þess að kærandi hafi átt sauðfé á umræddum tíma eins og eðlilegt væri ef fylgt væri lögum og reglum. Matvælastofnun telur þannig að kærandi hafi í engu sýnt fram á að hann hafi nokkuð með féð að gera í Fjárborgum A-götu nr. 8. Kærandi eigi því ekki aðild að umræddu máli frekar en viðskiptavinir kjötvinnslu sem beitt er þvingunarúrræðum.

Matvælastofnun telur því í ljósi framangreindra atriða að vísa beri frá stjórnsýslukæru Arnórs Stefánssonar.

IV. Rökstuðningur

I.

Eignarhald lambskrokka

Mál þetta laut í upphafi að slátrun á 49 lömbum í gripahúsi í eigu Jens Péturs Högnasonar og Friðbjargar Egilsdóttur. Eftir afhendingu Matvælastofnunar á 7 lambskrokkum til Ævars Snorrasonar fjallar endanleg ákvörðun Matvælastofnunar um haldlagningu og eignarhald á 42 lambskrokkum.  Kærandi þessa kærumáls krefst staðfestingar á eignarhaldi sínu og afhendingar á 7  af þessum 42 lambskrokkum.   
      
Kærandi vísar til þess að hann eigi 7 lambskrokka og umræddum gripun hafi þannig verið slátrað til eigin neyslu en ekki dreifingar. Kærandi hefur vísað til þess að hann og aðrir fjáreigendur hafi haldið nákvæma fjárbók yfir það fé sem hver og einn átti. Kærandi mótmælir lagtúlkun Matvælastofnunar og telur heimaslátrun löglega með vísan til hæstaréttardóms 380/2010.
 
Matvælastofnun  telur að allir 42 umræddir skrokkar séu eign Jens Péturs og því sé um ólöglega heimaslátrun að ræða skv. 5. gr. laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir,  enda magnið umfram það sem geti talist eðlileg eigin neysla. Að mati Matvælastofnunar snýst mál þetta í raun aðeins um það hvort eignarhald einstaklinga á gripum/kjöti verði sannað með framlagningu einkaskráninga þegar metið er hvort einstaklingur stundi dreifingu á kjöti.  Kjötið sé þannig ætlað til dreifingar og þurfi því að uppfylla lög og reglur um meðferð matvæla skv. lögum nr. 93/1995, um matvæli og lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir. Þannig þurfi meðal annars að slátra gripum í löggiltu sláturhús og afla starfsleyfis frá Matvælastofnun til slíkrar starfsemi. Þannig hafi þeir einstaklingar, aðrir en Jens Pétur, sem hafa gert kröfu um afhendingu kjötsins, ekki skilað búfjárhaldsskýrslum eins og skylt er samkvæmt lögum sbr. 11. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., hafi ekki haft skráð mark, sbr. 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallaskil o.fl. né merki eins og öllum búfjáreigendum er skylt samkvæmt lögum sbr. 4. og 17. gr. reglugerð nr. 916/2012 (áður 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 289/2005). Það er ótrúverðugur búfjáreigandi að mati stofnunarinnar, sem ekki fylgir lögum og fær sér mark og merki, skilar ekki skýrslum eða öðrum athugasemdum í búfjárhaldskýrslu umráðamanns um búfjáreign, sinnir síðan búfénu með takmörkuðum hætti ef nokkrum, kemur ekki að slátrun en fær hinsvegar afurðir að hausti. Afhending með þessum hætti á afurðum til slíks ,,búfjáreiganda“ verði einfaldlega að teljast afhending til ,,neytenda“ og þar með dreifing sbr. 4. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Ekki þurfi að sýna fram á sölu í málum sem þessum heldur afhendingu.

     

Mál þetta lítur að því hvort Jens Pétri hafi verið heimilt lögum samkvæmt að slátra umræddum kindum.  Í 5. gr. laga nr. 96/1997 segir að „Sláturdýrum, sem slátra á til að flytja afurðirnar á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innan lands, skal slátra í löggiltum sláturhúsum.“ Frá þessari meginreglu er gerð ein undantekning, en hún er að eigendum lögbýla er heimilt að slátra búfé á sínu býli til eigin neyslu, sbr. 4. mgr. 5. gr. Í forsendum hæstaréttardóms 380/2010 segir:
„Af 1. mgr. 5. gr. laga nr. 96/1997 leiðir að slátra ber í sláturhúsum þegar afurðir eru annars vegar fluttar á erlendan markað og hins vegar til dreifingar og neyslu innan lands. Hér reynir á síðarnefnda atriðið en það er bundið við dreifingu og neyslu afurða hér á landi. Því nær ákvæðið samkvæmt orðalagi sínu ekki til slátrunar þegar afurðum er ekki dreift heldur þær aðeins nýttar til einkaneyslu." Dómur hæstaréttar hefur verið túlkaður þannig að heimilt sé lögum samkvæmt að slátra búfé  utan lögbýla þegar slíkt er ætlað til eigin neyslu og ekki um dreifingu að ræða.

Ráðuneytið telur rétt að byggja á framangreindri túlkun dómsins, þ.e. að slátrun búfjár utan lögbýla sé heimil til eigin neyslu, enda sé hin kærða ákvörðun íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun gagnvart kæranda og jafnræðissjónarmið mæla með slíkri túlkun.

Kærumál þetta lítur þannig að því hvort þeir lambskrokkar sem deilt er um í málinu hafi verið ætlaðir til einkaneyslu eða dreifingar í skilningi laganna. Með öðrum orðum hvort kærandi sé eigandi umræddra 7 lambskrokka og afurðirnar þannig ætlaðar til einkaneyslu eða hvort Jens Pétur sé eigandi allra 42 lambskrokka og afurðirnar þannig ætlaðar til frekari markaðssetningar.

Matvælastofnun  telur að allir 42 umræddir skrokkar séu eign Jens Péturs og því sé um ólöglega heimaslátrun að ræða skv. 5. gr. laga nr. 96/1997 enda magnið umfram það sem getur talist eðlileg eigin neysla. Matvælastofnun vísar til 11. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. máli sínu til stuðnings. Samkvæmt ákvæðinu á umráðamaður að skila búfjárhaldsskýrslu en umráðamaður er skilgreindur í lögunum sem „...eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði, og vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í viðkomandi sveitarfélagi og samkvæmt samningi milli aðila.“ Samkvæmt þessu ákvæði þarf umráðamaður ekki að vera eigandi. Sama á við um tilvitnuð efnisákvæði 4. og 17 gr. reglugerðar nr.  916/2012 um merkingar búfjár. Þar er það umráðamaður sem ber skyldur samkvæmt ákvæðunum og hugtakið „umráðmaður“ skilgreint með sama hætti og í lögum nr. 103/2002.  Matvælastofnun vísar jafnframt til 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallaskil o.fl. Samkvæmt því ákvæði er hverjum búfjáreiganda skylt að hafa glöggt mark á búfé sínu.

Samkvæmt 64. gr. sömu laga má „Enginn má nota mark annars manns, nema leyfi hans komi til.“Með gagnályktun frá þessu ákvæði getur markeigandi leyft öðrum að nota mark sitt. Í máli þessu liggur fyrir sú staðhæfing eiganda marksins, Jens Péturs Högnasonar, að kærandi hafi verið eigandi umræddra 7 sláturdýra enda þótt búféið hafi borið mark Jens Péturs. Ráðuneytið telur að leggja verði framangreinda afstöðu Jens Pétur Högnasonar til grundvallar í máli þessu og byggja á því að Jens Pétur hafi gefið leyfi fyrir notkun á marki sínu í þessu tilviki. Ekki er þannig hægt að fallast á það með Matvælastofnun að þetta fyrirkomulag sé í andstöðu við framangreint lagaákvæði.

Í 64 gr. laga nr. 6/1986, segir að „...mark helgi markeiganda eignarrétt nema sannist að annar eigi.“ Fyrir liggur í máli sú staðhæfing markeiganda, Jens Péturs Högnasonar, að kærandi sé eigandi umrædds búfjár. Ráðuneytið telur því eins og málatilbúnaði er háttað að Matvælastofnun hafi sönnunarbyrðina fyrir því að eigandi allra skrokkanna sé Jens Pétur Högnason. Ráðuneytið telur jafnframt að stofnunin hafi ekki sýnt fram á, samkvæmt gögnum málsins, að Jens Pétur sé einn eigandi umræddra 42 lambskrokka  gegn staðhæfingu markeiganda, Jens Péturs Högnasonar, og kæranda um annað.

Í máli þessu liggur fyrir sameiginleg yfirlýsing þeirra Jens Péturs Högnasonar og Gunnars Arnar Guðmundssonar, héraðsdýralæknis suðvesturumdæmis, sem gerð var daginn sem skrokkarnir voru haldlagðir, 20. september 2012. Samkvæmt yfirlýsingunni samþykkir Jens Pétur meðal annars að skrokkarnir 50 séu í hans eigu. Daginn eftir eða þann 21. september 2012 sendir þáverandi lögmaður Jens Péturs Högnasonar bréf til Matvælastofnunar fyrir hans hönd,  þar sem hann andmælir haldlagningu kjötsins enda sé Jens Pétur ekki einn eigandi lambskrokkanna heldur séu eigendur fleiri. Samkvæmt þessum málatilbúnaði hefur Jens Pétur fallið frá samþykki sínu um eignarhald á öllum skrokkunum við meðferð málsins hjá Matvælastofnun. Undir meðferð málsins afhenti Matvælastofnun Ævari Snorrasyni 7 haldlagða skrokka sláturdýra. Stofnunin taldi þannig 7 af þeim 50 skrokkum sem yfirlýsing Jens Pétur náði til, eign annars aðila. Svo virðist sem Matvælastofnun hafi þannig ekki talið yfirlýsingu Jens Péturs sýna fram á lögformlegt eignarhald hans á umræddum 50 skrokkum. Að öllu þessu virtu verður ekki byggt á umræddri yfirlýsingu Jens Péturs um eignarhald hans á umræddum skrokkum.

Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi sé ekki eigandi 7 lamskrokka af þeim 42 skrokkum sem haldlagðir voru af Matvælastofnun þann 20. september 2012.

II.

Eigin neysla

Málið lítur að því hvort umræddir skrokkar hafi verið ætlaðir til einkaneyslu eða markaðssetningar (dreifingar) innanlands. Í því sambandi kemur til skoðunar hvort magnið sé umfram það sem getur talist eðlileg eigin neysla.

Við mat á því hvað sé eigin neysla er enga leiðbeiningu að finna í lögum nr. 96/1997 né lögskýringargögnum.  Af gögnum málsins má ráða að Matvælastofnun hefur látið óátalið að eigandi fjár slátri 15 lömbum til eigin neyslu á ársgrundvelli.

Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að 7 skrokkar séu ekki slíkt magn að ætlað sé til dreifingar samkvæmt 5. gr. laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir.

                  

III.

Jafnræðisreglan

Lögmaður kæranda telur rétt að ráðuneytið veiti þeim starfsmönnum Matvælastofnunar, sem að málinu komu, tiltal og vísar til þess að það virðist vera ólögmæt óvild og þrákelkni í garð kærenda. Lögmaðurinn færir ekki frekari rök fyrir þessum fullyrðingum sínum. Í gögnum málsins má þó finna þessa fullyrðingu lögmannsins „...stofnun veit að kærendur eru réttir eigendur en samt er ekki byggt á því nema við Ævar sem sagður er eiga vini á stofnuninni.“
Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hafi ekki beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við ákvarðanatöku sína og að lögmaður kærenda hafi ekki sýnt fram á framangreindar fullyrðingar sínar.
Ráðuneytið vill jafnframt árétta að samkvæmt 12. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, getur ráðherra gefið stjórnvaldi almenn og sérstök fyrirmæli um starfrækslu á verkefnum þess, fjárreiður og meðferð eigna. Samkvæmt 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, getur ráðherra veitt forstöðumanni áminningu skv. 21. gr. eða veitt honum lausn frá embætti í tilteknum tilvikum. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki beint boðvald yfir starfsmönnun stjórnvalds sem undir það heyrir og getur ekki gefið starfsmönnum tiltal eða áminningu.

Samkvæmt framansögðu er kröfu kæranda um að ráðuneytið veiti starfsmönnum Matvælastofnunar tiltal hafnað.

IV.

Málskostnaður

Lögmaður kæranda krefst þess að stjórnvöld beri allan kostnað af aðgerðum Matvælastofnunar, þar með talinn lögfræðikostnað kæranda.

Það er meginregla íslensks réttar að borgararnir verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim, eftir atvikum í kærumáli. Kjósi þeir að nota aðstoð sérfræðinga við slík erindi og hafi af því kostnað geta þeir ekki krafist þess að sá kostnaður verði þeim bættur, nema sérstaklega sé kveðið á um í lögum. Ekki verður fallist á að fyrir hendi séu þau atvik í máli þessu sem réttlæti að vikið sé frá þessari meginreglu. Af þessum sökum verður ekki fallist á að íslenska ríkinu beri að greiða lögfræðikostnað kæranda.  

V.

Niðurstaða

Í samræmi við framangreint er aðalkrafa kæranda tekin til greina. Eignarhald kæranda á 7 af þeim 42 lambskrokkum sem haldlagðir voru af Matvælastofnun þann 20. september 2012 er staðfest. Þannig ber að aflétta haldlagningu umræddra afurða enda eru 7 skrokkar ekki slíkt magn að ætlað sé til dreifingar skv. 5. gr. laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir.

                    


Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Matvælastofnunar frá 4. október 2012 og var endurupptekin þann 25. október 2012, um haldlagningu á 42 lambaskrokkum er felld úr gildi og eignarhald kæranda á 7 lambskrokkum staðfest.


Fyrir hönd ráðherra


Ólafur Friðriksson

        Baldur P. Erlingsson

            

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn