Hoppa yfir valmynd
28. mars 2013 Utanríkisráðuneytið

Á vaktinni fyrir Ísland

Eftir Össur Skarphéðinsson

Íslenska utanríkisráðuneytið sinnir ekki bara samningum, eða vörn og sókn fyrir hagsmuni íslenska ríkisins, á erlendri grundu. Það vakir - í bókstaflegri merkingu - allan sólarhringinn til að aðstoða íslenskra ríkisborgara sem lenda í óvæntum vanda erlendis. Borgaraþjónustan stendur vaktina 24 tíma á sólarhring, alla daga ársins. Sendiskrifstofur í 24 löndum, og vel skipulagt net ríflega hundrað ólaunaðra ræðismanna víðs vegar um heiminn er ræst út eins fljótt og unnt er eða liðsinni veitt að heiman. Ég lít á þessa þjónustu sem ein mikilvægustu verkefni okkar, og er stoltur af vaskleika liðsins sem stendur vaktina.

Sektir og týnd skilríki
Eitt kvöldið hringdi andstutt kona dyrasímanum heima. Maður hennar á leið á sjávarútvegssýningu til að kynna fyrirtæki þeirra hjóna hafði verið handtekinn fyrir of hraðan akstur í Suður-Evrópu og hafði ekki reiðufé fyrir sektinni. Ráðuneytið ræsti út ræðismann sem lagði út fyrir sektinni. Fjórum tímum eftir að dyrabjallan hringdi var karl hennar laus úr dýflissu og komst á vörusýninguna. Það var gott kvöld hjá þjónustunni.
Mörg tilvika tengjast skilríkjum, sem týnast eða er stolið. Maður í Suður-Ameríku gleymir vegabréfi í leigubíl. Annar tapar veski með skilríkjum í fótboltaferð. Vinkonur fjarri Íslandi lenda í að þjófur sprengir upp öryggishólfið og hirðir vegabréfin. Íslenskt barn fæðist í Asíu - og vantar ferðapappíra. Ekki er lengra síðan en á mánudag að okkur barst bréf frá glaðri fjölskyldu sem þurfti framlengingu á vegabréfi á leið í páskaferð til annarrar heimsálfu: „Verð bara að fá að þakka fyrir ótrúlega þjónustu - það er ekki hægt að vera stoltari af þjóðerni sínu en á svona stundum, og fyrir það frábæra fólk sem við Íslendingar eigum. Þúsund þakkir fyrir mig - svona gengur bara upp hjá Íslendingum.“

Líkflutningur og týndra leitað
Maður týnist í stórborg, þar sem lögreglan kippir sér ekki upp við tilkynningu um týndan útlending. Ráðsnar sendiherra ræsir alla starfsmenn og ínáanlega Íslendinga til að leita. Hann finnst að lokum, hundfúll, en ættingjarnir gráta af hamingju.
Menn leita gjarnan á náðir borgaraþjónustunnar ef ættingi veikist illa erlendis til að fá aðstoð við að koma viðkomandi heim. Sorglegustu tilvikin eru kannski þegar fjölskylda er á ferðalagi og dauðsfall hendir. Ráðuneytið kann alltof vel að koma líki heim.

Sorgleg fangamál

Fangamálin eru erfiðust. Í Evrópu eru þó sendiráð nálæg. Á minni vakt hef ég upplifað að sendiráði tókst með óhefðbundnum hætti að koma í veg fyrir að íslenskur ríkisborgari í varðhaldi væri framseldur til ríkis utan Evrópu þar sem fangelsismál eru með því allra versta sem þekkist. Einn sendiherra, með sérlega staðföst augu, mætti dag hvern í réttarhald yfir ógæfusömum ungum Íslendingum. Dómarinn lauk sínu máli þannig að þó að viðkomandi væru sekir ætlaði hann að senda þá heim til Íslands vegna góðra orða sendiherrans um bernsku og innræti viðkomandi. Í mörgum löndum sýnir reynslan hins vegar að það getur verið háskalegt að reyna að tala inn í dómskerfið. Við metum stöðuna út frá aðstæðum.
Verst viðfangs eru málefni fanga sem eru teknir fyrir meint smygl á eiturlyfjum í löndum víðs fjarri okkur, þar sem mannréttindi eru lítils virði, og fangelsin full af vestrænu ungu fólki sem hefur lent á röngu spori. Í þessum löndum höfum við engar sendiskrifstofur. Þá reynast ræðismennirnir afar mikilvægir. Þeir eru þó ólaunaðir, og sinna þjónustu við fanga í hreinni sjálfboðavinnu.
Það er ofurskiljanlegt að harmi lostnum fjölskyldum heima á Íslandi finnist ekki nóg að gert þegar ekki tekst að ná unglingnum þeirra út úr fangelsi, þar sem troðið er í klefa, fötunum stolið af þeim, maturinn vondur, og mannréttindi lítils virði. Raunveruleikinn er allt öðru vísi. Í öllum tilvikum er reynt af fremsta megni að gæta allra réttinda viðkomandi fanga. Á síðustu sex mánuðum höfum við sent fólk nokkrum sinnum þvert yfir hnöttinn til að gæta réttinda Íslendinga í varðhaldi eða fangelsi - af því við höfum óttast um þeirra hag.

Þrýstingi beitt
Stundum er hægt að beita óformlegum þrýstingi. Ég hef látið sendiherra koma því á framfæri að ég íhugi að draga fulltrúa Íslands út úr stofnun í ríki þar sem ég taldi okkar hagsmunum augljóslega misboðið að því er varðaði rétt einstaklings. Ég hef leyft sendiherra að hafa í óformlegum samtölum eftir mér þá skoðun að Ísland telji það ekki þess virði að eiga stjórnmálasamband við fjarlægt ríki sem virtist fara illa með rétt Íslendings, sem reyndist svo ekki sekur. Í svona tilvikum kemur það Íslandi til góða að hafa virka utanríkisþjónustu sem leggur sig fram um að rækta tengsl inn í stjórnkerfi sem flestra þjóða, og er alltaf lipur til samstarfs við fjarlæg ríki - jafnvel þó að það kosti stundum tíma og fjármagn.
Staðreyndin er sú að alltaf þegar Íslendingur lendir í vanda í útlöndum er brugðist við og allt gert til að leysa hann og tryggja að öll réttindi séu virt.

Höfundur er utanríkisráðherra.


Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. mars 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum