Velferðarráðuneytið

Nýtt hjúkrunarheimili fyrir 60 íbúa tekið í notkun í Garðabæ

Hjúkrunarheimilið Ísafold. -/Mynd af vef Garðabæjar
Hjúkrunarheimilið Ísafold. -/Mynd af vef Garðabæjar

Ísafold heitir nýtt hjúkrunarheimili við Sjáland í Garðabæ sem tekið var í notkun um helgina. Heimilið er byggt samkvæmt samningi velferðarráðuneytisins og Garðabæjar eftir svokallaðri leiguleið. Með opnun þess bætast við 20 ný hjúkrunarrými í Garðabæ.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flutti stutt ávarp við formlega vígslu heimilisins síðastliðinn föstudag. Hann sagði ánægjulegt hve framkvæmdum  hefði miðað vel frá því að fyrsta skóflustungan var tekin fyrir tveimur árum. Með leiguleiðinni hefði reynst unnt að ráðast í mikilvægar framkvæmdir við uppbyggingu hjúkrunarrýma víða um land á til að bæta þjónustu við aldraða þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður. „Ég fagna því að Garðabær hefur ákveðið að annast reksturinn, ég veit að hann verður í góðum höndum. Í samræmi við viðmið ráðuneytisins hefur hönnun heimilisins miðast við að gera aðstæður allar sem heimilislegastar, allir íbúarnir 60 munu að sjálfsögðu vera í einbýli, hafa ágætlega rúmt um sig og hjúkrunareiningar eru hæfilega litlar til þess að skapa megi notalegar aðstæður. Það er ekki síður fagnaðarefni að með þessu nýja heimili fjölgar hjúkrunarrýmum um 20 sem er mikil og góð viðbót til þess að efla þjónustu og úrræði fyrir aldraða sem hafa þörf fyrir búsetu á hjúkrunarheimili. Eins er verulegur fengur í glæsilegri þjónustumiðstöð sem hér er einnig að taka til starfa og fékk raunar góðan stuðning úr Framkvæmdasjóði aldraðra.“

Húsið er á fjórum hæðum með þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara á jarðhæðinni en hjúkrunarrýmum á hinum þremur hæðunum. Hjúkrunarheimilið skiptist í sex einingar og eru tíu einstaklingsherbergi með eldhúsi og baði í hverri þeirra, ásamt sameiginlegu eldhúsi og borð- og setustofu. Í þjónustumiðstöðinni verður iðjuþjálfun, dagdvöl fyrir 20 manns, eldhús, matstofa og ýmis önnur þjónusta fyrir eldri borgara.

Um helgina fluttu inn á nýja heimilið 45 íbúar sem dvalið hafa á Vífilsstöðum en aðrir íbúar flytja inn um miðjan mánuðinn.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn