Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Breyting fyrirhuguð á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja

Breyta á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja og felur breytingin í sér innleiðingu á tilskipun 2007/46/EB og afleiddum gerðum. Markmið þeirrar tilskipunar er fyrst og fremst að tryggja að ný ökutæki, íhlutir og aðskildar tæknieiningar sem sett eru á markað uppfylli kröfur um öflugt öryggi og öfluga umhverfisvernd.

Upphafsákvæði draganna miða að því að færa markmið og gildissvið laganna í skýrara horf. Með því að kveða skýrt á um ofangreind markmið í reglugerðinni samrýmist hún að fullu tilskipun 2007/46/EB. Unnið hefur verið að tillögunum í langan tíma. Umsjón með uppsetningu draganna hefur verið í höndum Umferðarstofu með aðstoð sérfræðinga málaflokksins í ráðuneytinu. Jafnframt var haft samráð og leitað ráða hjá þeim norsku sérfræðingum sem komu að innleiðingu sömu reglna inn í norskan rétt.

Mikið hefur verið þrýst á innleiðingu þeirra gerða sem innleiddar eru með reglugerð þessari hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Hefur eftirlitsstofnunin verið fullvissuð um að reglugerðin verði birt fyrir 30. apríl næstkomandi. Í ljósi þess hefur verið ákveðið að birta drögin til kynningar á vef innanríkisráðuneytisins í dag um leið og þau eru send Stjórnartíðindum til birtingar. Berist einhverjar þær umsagnir af vefnum sem talið er að taka þurfi tillit til í reglugerð um gerð og búnað ökutækja mun þurfa að gera slíkt með breytingarreglugerð.

Reglugerðin hefur lagastoð í 60. gr. umferðarlaganna nr. 50/1987 og er gert ráð fyrir að hún öðlist gildi þegar við birtingu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum