Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um flugvernd til umsagnar

Til umsagnar eru nú drög að breytingu á reglugerð um flugvernd nr. 985/2011. Breytingarnar snúast meðal annars um atriði er varða öryggisskanna til gegnumlýsingar á vökva, flugverndareftirlit og fleira. Umsagnarfrestur er til 28. apríl næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].

Með breytingunni er kveðið á um að rekstraraðili flugvallar skuli upplýsa Flugmálastjórn Íslands eigi síðar en 30. júní 2013 hvað líði innleiðingu og notkun öryggisskanna til gegnumlýsingar á vökva, úðaefnum og geli. Skal Flugmálastjórn Íslands upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um stöðuna eigi síðar en 1. september næstkomandi. Ný málsgrein reglugerðarinnar heimilar að frá og með 31. janúar 2014 er farþega heimilt að hafa með sér vökva, úðaefni og gel inn á haftasvæði flugverndar, að því tilskildu að efnin verði skimuð eða séu undanþegin skimun í samræmi við kröfur samkvæmt reglugerð (EB) nr. 300/2008, með síðari breytingum, sbr. reglugerð (ESB) nr. 245/2013 og reglugerð (ESB) nr. 246/2013. Framangreind heimild mun verða veitt í áföngum frá og með fyrrgreindu tímamarki hvað varðar ákveðnar tegundir vökva, úðaefnis og gels.

Þá er með breytingunni kveðið á um að skilgreindir verði svokallaðir ACC3-flugrekendur sem er ætlað að hljóta tilnefningu til að mega flytja flugfarm og póst innan EES.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi ýmsar reglugerðir og ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB með breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans sem nánar er vísað til í reglugerðardrögunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum