Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Góður árangur af rannsóknateymi um skipulagða glæpastarfsemi

Góður árangur hefur verið af starfi sameiginlegs rannsóknateymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurnesjum sem komið var á fót fyrir tveimur árum og einbeitir sér að rannsóknum á skipulagðri glæpastarfsemi. Lagt hefur verið hald á fíkniefni og vopn, meðlimum vélhjólagengja hefur verið snúið tilbaka við komu þeirra til landsins og brotastarfsemi tengd vændi og mansali hefur verið skoðuð sérstaklega.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tilkynnti í mars 2011 um sérstaka fjárveitingu til lögreglu til að rannsaka skipulagða brotastarfsemi. Í kjölfarið hófu fjórir rannsóknarlögreglumenn verkið og að undanförnu hafa sex rannsóknarlögreglumenn alfarið helgað sig þessu verkefni. Kröftunum var í upphafi beint gegn starfsemi vélhjólagengja en síðan hefur spjótunum einnig verið beint að mansali og vændi. Auk lögreglumanna frá áðurnefndum embættum hafa komið við sögu sérsveit og greiningardeild ríkislögreglustjóra, tollstjóri og lögregla á Selfossi og Borgarnesi sem einnig eiga aðild að stýrihópi ríkislögreglustjóra um verkefnið. Ríkisstjórnin samþykkti síðstlðinn þriðjudag að tillögu innanríkisráðherra 25 milljóna króna viðbótarframlag til þessa verkefnis á þessu ári og að gert verði ráð fyrir framlagi á fjárlögum næsta árs.

Fulltrúar hópsins kynntu árangurinn á fundi með fjölmiðlum þriðjudaginn 23. apríl og lögðu þeir áherslu á mikilvægi þess að fylgja eftir þeim árangri sem náðst hefði. Byggst hefði upp þekking, reynsla og alþjóðleg sambönd og hópurinn hefði náð að halda vélhjólagengjum að miklu leyti í skefjum og komið í veg fyrir átök og uppákomur af ýmsum toga. Þá kom fram að lagt hefur verið hald á talsvert af  fíkniefnum og vopnum, þar með talið skotvopnum. Gæsluvarðhaldsdagar eru um 1.200 vegna rannsókna mála. Þá hefur verið haft traust eftirlit á landamærum, einkum Keflavíkurflugvelli og erlendum meðlimum vélhjólagengja verið vísað úr landi séu skilyrði til þess. Það er mat lögreglu að dregið hafi úr starfsemi vélhjólagengja og marktækur árangur náðst á þessu sviði.

Vændi rannsakað og komið í veg fyrir bótasvindl

Síðan í haust hefur rannsóknateymið skoðað sérstaklega brotastarfsemi tengda vændi og mansali. Fyrir liggur ítarleg greining og kortlagning á umfangi vændis og birtingarmyndum þess. Er það mat rannsóknateymisins að umfang vændis sé umtalsvert gegnum netið og að umtalsverð eftirspurn sé eftir vændi hér á landi. Nú er verið að rannsaka um 60 mál vegna vændiskaupa. 

Þá hefur tekist að koma í veg fyrir bótasvindl og skattsvik vegna samvinnu teymisins við önnur stjórnvöld sem hefur skilað verulegum fjárhæðum auk þess sem fjárhagslegum grunni er kippt undan brotasamtökum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum