Utanríkisráðuneytið

Rafræn útgáfa:  Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2013-2016 og Jafnréttisstefna í þróunarsamvinnu

Gefnar hafa verið út á rafrænu formi; Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2013-2016 og jafnréttisstefna á sviði þróunarsamvinnu Íslands.

Tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 var samþykkt á Alþingi hinn 21. mars sl.  Þróunarsamvinnuáætlun, eins og hún er nefnd í daglegu tali, skapar  heildstæða umgjörð um alþjóðlega þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda. Hún felur í sér skýra forgangsröðun þar sem settar eru fram forsendur og markmið, og hvernig unnið skuli að þeim, hvort sem um er að ræða tvíhliða þróunarsamvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, stuðning við fjölþjóðlegar stofnanir og verkefni á þeirra vegum, verkefni á vegum félagasamtaka eða starf í þágu friðar undir merkjum Íslensku friðargæslunnar. Í áætluninni er enn fremur að finna yfirlit yfir framlög til þróunarsamvinnu, en gert er ráð fyrir verulegri hækkun þeirra 2013 – 2016 í samræmi við markmið íslenskra stjórnvalda um að veita 0,7 % af vergum þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu árið 2019.

Áherslulönd í þróunarsamvinnu Íslands eru fimm: Malaví, Mósambík, Úganda, Palestína og Afganistan, og lögð er áhersla á stuðning við fjórar lykilstofnanir í fjölþjóðlegu samstarfi; UNICEF, UN Women, Alþjóðabankann og Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Málefnasviðin sem lögð er áhersla á eru heilbrigði, menntun, fiski- og orkumál, auk starfs í þágu friðar. Jafnréttis- og umhverfismál eru þverlæg málefni og neyðar- og mannúðaraðstoð skipar lykilhlutverk.

Jafnréttisstefna á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands er unnin í samræmi við þróunarsamvinnuáætlun og nær yfir alla þætti þróunarsamvinnunar. Hún byggir bæði á alþjóðlegum samþykktum og íslenskri löggjöf og því að kynjajafnrétti séu grundvallarmannréttindi. Lögð er áhersla á fjögur meginsvið; menntun, heilbrigði, auðlinda- og umhverfismál og konur, frið og öryggi.  Þau endurspegla jafnframt áhersluþætti þróunarsamvinnuáætlunar.

Í jafnréttisstefnunni kemur fram að unnið verði að kynjajafnrétti með tvennum hætti; annarsvegar með samþættingu kynjasjónamiða og hinsvegar með stuðningi við sérstök verkefni sem hafa kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna að meginmarkmiði.

Yfirlit yfir þróunarsamvinnu Íslands

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn