Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 11/2013.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. maí 2013

í máli nr. 11/2013:

Roja Holding ehf.

gegn

Ríkiskaupum

 

Með bréfi, dags. 11. apríl 2013, kærði Roja Holding ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um að krefjast gjalds af þátttakendum fyrir afhendingu útboðsgagna í útboði nr. 15397 „Hjólaskófla fyrir Isavia“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað innkaupaferli útboðs nr. 15397 – Hjólaskófla fyrir Isavia sem nú fer fram þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

2. Að kærunefnd leggi fyrir kærða að auglýsa útboð nr. 15397 – Hjólaskófla fyrir Isavia á nýjan leik.

3. Að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir, sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferilsins. Með bréfi, dags. 24. apríl 2013, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun innkaupaferils yrði vísað frá eða hafnað. 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferlið.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

I.

Kærði krefst þess að fyrirtæki, sem hyggjast taka þátt í útboði nr. 15397 „Hjólaskófla fyrir Isavia“, greiði kr. 3.500 kr. fyrir útboðsgögnin.

            Markmið kæranda með kæru þessari er að koma því til leiðar að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að auglýsa hið kærða útboð að nýju. Kærunefnd útboðsmála leggur almennt ekki fyrir kaupendur að fella niður innkaupaferli og endurtaka það nema ferlið sé haldið verulegum annmörkum sem réttlæti ekki áframhald þess.

            Jafnvel þótt gjaldtaka fyrir útboðsgögn teldust brot gegn lögum um opinber innkaup telur kærunefnd útboðsmála að vægi brotsins myndi ekki réttlæta að leggja fyrir kærða að auglýsa útboðið að nýju. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar. 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Roja Holding ehf., um að útboð kærða, Ríkiskaupa, nr. 15397 „Hjólaskófla fyrir Isavia“, verði stöðvað þar til niðurstaða kærunefndar útboðsmála liggur fyrir í málinu, er hafnað.

 

Reykjavík, 9. maí 2013.

Páll Sigurðsson

Auður Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                maí 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn