Hoppa yfir valmynd
29. maí 2013 Forsætisráðuneytið

Rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum konum

Niðurstöður nýrrar eigindlegrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið veita mikilvæga innsýn í margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum, við hvers konar aðstæður það á sér stað og afleiðingarnar sem það hefur. 

Rannsóknin var hluti af verkefni sem tilheyrir þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Byggt var á viðtölum við þrettán konur sem allar hafa orðið fyrir margháttuðu ofbeldi í æsku og á fullorðinsárum. Markmiðið var að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og fjalla um muninn á því ofbeldi sem einstaklingar beita fatlaðar konur annars vegar og stofnanabundnu ofbeldi hins vegar. Einnig að gera grein fyrir því við hvers konar aðstæður ofbeldið á sér stað, afleiðingunum sem það hefur, hvernig staða fatlaðra kvenna í samfélaginu tengist hættunni á því að þær verði fyrir ofbeldi og loks að setja fram tillögur um hvernig fyrirbyggja megi ofbeldi gegn fötluðum konum.

Skýrsluhöfundar taka fram að sögur kvennanna eru ekki endilega dæmigerðar fyrir líf fatlaðra kvenna almennt. Því sé mikilvægt að samtímis sem lærdómur sé dreginn af reynslu kvennanna sé brýnt að varpa ekki rýrð á það sem vel er gert í starfi með fötluðu fólki. 

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherraEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir margt hægt að læra af niðurstöðum rannsóknarinnar og reynslu kvennanna sem þar er lýst: „Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt að hættan á því að konur séu beittar ofbeldi eykst verulega ef þær búa við fötlun. Þetta verður að hafa hugfast í öllu tilliti og meðal annars við skipulag þjónustu við fatlað fólk og eftirlit með henni.“

Árið 2006 samþykkti þáverandi ríkisstjórn áætlun um aðgerðir vegna ofbeldis gegn konum í nánum samböndum. Á grundvelli hennar hafa verið gerðar rannsóknir sem gefa skýra mynd af umfangi vandans. Eygló segir að áfram verði unnið markvisst að því að útrýma heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Aðgerðaáætlunin frá árinu 2006 hafi átt stóran þátt í því að draga vandann upp á yfirborðið en jafnframt sýnt að margt þarf að gera til að vinna gegn þessu alvarlega samfélagsmeini. „Við verðum að beita til fulls öllum þeim heimildum og úrræðum sem lög leyfa og stofnanir samfélagsins hafa yfir að ráða“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum