Velferðarráðuneytið

Tímamótadómur varðandi endurútreikning ólögmætra gengistryggðra lána

Umboðsmaður skuldara
Umboðsmaður skuldara

Umboðsmaður skuldara segir niðurstöðu Hæstaréttar í máli Plastiðjunnar ehf. marka tímamót varðandi réttarstöðu lántaka vegna endurútreiknings ólögmætra gengistryggðra lána. Fordæmisgildi dómsins sé skýrt og hvetur umboðsmaður fjármálafyrirtæki til að hraða endurútreikningi lána í samræmi við það. 

Umboðsmaður skuldara vann álitið að beiðni Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra sem segir mikilvægt að þessari óvissu hafi nú verið eytt. „Ég vænti þess að fjármálastofnanir muni nú hefja endurreikninga tafarlaust og gera það fljótt og vel.“

Í málinu, nr.50/2013, komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Landsbankanum væri óheimilt að krefja Plastiðjuna um óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands fyrir liðna tíð. Að mati umboðsmanns skuldara er því nú komið skýrt fordæmi frá Hæstarétti um að óheimilt sé að endurreikna lán til skemmri tíma, t.d. bílalán, með vöxtum SÍ aftur í tímann a.m.k. í þeim tilfellum þar sem vextir hafa verið greiddir og fullnaðarkvittun liggur því til grundvallar. Umboðsmaður telur fordæmið víðtækt og taki ekki einungis til lána Landsbankans sem aðila að málinu heldur einnig til annarra lánastofnana sem veitt hafa ólögmæt gengistryggð lán til skemmri tíma.

Umboðsmaður skuldara telur ljóst af niðurstöðu dómsins að endurreikna beri meginþorra skammtímalána í samræmi við uppgjörsaðferð Hæstaréttar í máli nr. 464/2012. Í því felst að afborganir af höfuðstól lánssamnings, sem inntar hafa verið af hendi til og með þess tíma er viðkomandi samningur var endurreiknaður, komi að fullu til frádráttar upphaflegum höfuðstól, sem ber hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga. Fjárhæð greiddra vaxta hefur þar ekki áhrif, enda teljast þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils.

Embætti umboðsmanns skuldara leggur áherslu á mikilvægi þess að endurútreikningum fjármálafyrirtækja verði hraðað eins og unnt er. „Fordæmisgildi dómsins er skýrt og ekkert að vanbúnaði að hefja endurútreikning samkvæmt honum þegar í stað“ segir í áliti umboðsmanns.

Athygli er vakin á því að á vef embættis umboðsmanns skuldara er reiknivél sem byggir á uppgjörsaðferð Hæstaréttar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn