Dómsmálaráðuneytið

Fyrsti fundur samráðsvettvangs um mansal

Fyrsti fundur samráðsvettvangs um mansal, sem stofnað er til á grundvelli nýrrar áætlunar um aðgerðir gegn mansali á tímabilinu 2013 til 2016, var haldinn í innanríkisráðuneytinu í dag. Aðgerðaáætlunin var samþykkt í ríkisstjórn 26. apríl síðastliðinn og í henni er lögð áhersla á fræðslu, áhættugreiningu, verklag, þjónustu, samráð og mat á árangri auk þess sem 25 aðgerðir eru skilgreindar. 

Hópurinn sem sótti fyrsta fund samráðsvettvangs um mansal í innanríkisráðuneytinu í dag.
Hópurinn sem sótti fyrsta fund samráðsvettvangs um mansal í innanríkisráðuneytinu í dag.

Líkt og í fyrri aðgerðaáætlun sem samþykkt var af ríkisstjórn í mars 2009 og gilti til ársloka 2012 er áhersla lögð á margþætta nálgun og samstarf fagfólks. Lögð er áhersla á að viðhalda og efla gott samstarf mismunandi stofnana á vegum ríkis, sveitarfélaga, sem og frjálsra félagasamtaka og verkalýðsfélaga til þess að gera betur í greiningu mögulegra fórnarlamba og veitingu aðstoðar, sem og aðgerðum sem uppræta mansal á borð við forvarnir og rannsóknir lögreglu.

Alls mættu ríflega 20 fulltrúar á fundinn en eftirfarandi aðilar hafa tilnefnt tengilið til að taka þátt í samstarfinu:
Embætti ríkislögreglustjóra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, Útlendingastofnun, embætti ríkissaksóknara,  Lögregluskóli ríkisins, velferðarráðuneytið, Barnaverndarstofa, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Félagsþjónustan í Reykjanesbæ, Barnavernd Reykjavíkur, Barnavernd Reykjanesbæjar, LSH – geðdeild, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Stígamót/Kristínarhús, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, ASÍ, BSRB, Samtök atvinnulífsins, utanríkisráðuneytið, Rauði krossinn og Icelandair.

Fundurinn í dag er fyrsta skrefið í reglulegu samráði aðila sem vinna að mansalsmálum. Ráðgert er að boða til slíkra samráðsfunda tengiliða með opinni dagskrá að minnsta kosti tvisvar á ári. Þar geta allir aðilar lagt til fundarefni eða fundi þar sem tekin verða fyrir ákveðin málefni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn