Dómsmálaráðuneytið

Fyrsti fundur samráðsvettvangs um mansal

Fyrsti fundur samráðsvettvangs um mansal, sem stofnað er til á grundvelli nýrrar áætlunar um aðgerðir gegn mansali á tímabilinu 2013 til 2016, var haldinn í innanríkisráðuneytinu í dag. Aðgerðaáætlunin var samþykkt í ríkisstjórn 26. apríl síðastliðinn og í henni er lögð áhersla á fræðslu, áhættugreiningu, verklag, þjónustu, samráð og mat á árangri auk þess sem 25 aðgerðir eru skilgreindar. 

Hópurinn sem sótti fyrsta fund samráðsvettvangs um mansal í innanríkisráðuneytinu í dag.
Hópurinn sem sótti fyrsta fund samráðsvettvangs um mansal í innanríkisráðuneytinu í dag.

Líkt og í fyrri aðgerðaáætlun sem samþykkt var af ríkisstjórn í mars 2009 og gilti til ársloka 2012 er áhersla lögð á margþætta nálgun og samstarf fagfólks. Lögð er áhersla á að viðhalda og efla gott samstarf mismunandi stofnana á vegum ríkis, sveitarfélaga, sem og frjálsra félagasamtaka og verkalýðsfélaga til þess að gera betur í greiningu mögulegra fórnarlamba og veitingu aðstoðar, sem og aðgerðum sem uppræta mansal á borð við forvarnir og rannsóknir lögreglu.

Alls mættu ríflega 20 fulltrúar á fundinn en eftirfarandi aðilar hafa tilnefnt tengilið til að taka þátt í samstarfinu:
Embætti ríkislögreglustjóra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, Útlendingastofnun, embætti ríkissaksóknara,  Lögregluskóli ríkisins, velferðarráðuneytið, Barnaverndarstofa, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Félagsþjónustan í Reykjanesbæ, Barnavernd Reykjavíkur, Barnavernd Reykjanesbæjar, LSH – geðdeild, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Stígamót/Kristínarhús, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, ASÍ, BSRB, Samtök atvinnulífsins, utanríkisráðuneytið, Rauði krossinn og Icelandair.

Fundurinn í dag er fyrsta skrefið í reglulegu samráði aðila sem vinna að mansalsmálum. Ráðgert er að boða til slíkra samráðsfunda tengiliða með opinni dagskrá að minnsta kosti tvisvar á ári. Þar geta allir aðilar lagt til fundarefni eða fundi þar sem tekin verða fyrir ákveðin málefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn