Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Gott atvinnuástand á Norðurlandi eystra

Eygló Harðardóttir og Soffía Gísladóttir
Eygló Harðardóttir og Soffía Gísladóttir

Vel hefur ræst úr atvinnumálum á Norðurlandi eystra eftir efnahagshrunið 2008. Atvinnuleysi á svæðinu er nú 2,6% og örfáir einstaklingar hafa lokið við bótarétt sinn og þurft að sækja framfærslu til sveitarfélaga að sögn Soffíu Gísladóttur, forstöðumanns þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Akureyri. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, heimsótti þjónustuskrifstofuna á Akureyri í gær.

Soffía sagði frá þróun atvinnuástands á svæðinu og gerði grein fyrir starfsemi þjónustuskrifstofunnar þegar ráðherra heimsótti starfsstöðina á Akureyri í gær og ræddi við starfsfólk. Þegar verst lét í kjölfar efnahagshrunsins fór atvinnuleysi á Norðurlandi eystra í 9,1% en er nú um 2,6% samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar. 

Ráðherra spurði hvort atvinnuleysi á svæðinu væri að einhverju leyti dulið vegna einstaklinga sem hefðu fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta og þurft að sækja sér framfærslu hjá sveitarfélögum. Að sögn Soffíu eru aðeins örfáir einstaklingar í þeirri stöðu. Hún segir að lagaheimild sem gerði kleift að minnka starfshlutfall fólks á móti hlutfallslegum atvinnuleysisbótum hafi reynst vel. Þetta hafi margir nýtt sér meðan heimildin var í gildi. Þannig hafi ráðningarsambandið ekki rofnað og margir endurheimt fullt starfshlutfall eftir því sem staðan hefur batnað.

Soffía segir miklu skipta að þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar á Akureyri sé í góðum og tengslum við sveitarfélög á svæðinu, stofnanir og fyrirtæki. Nálægðin og góð tengsl hafi auðveldað skipulag og framkvæmd vinnumarkaðsúrræða þar sem allir hafi lagst á eitt til að berjast gegn atvinnuleysi og neikvæðum áhrifum þess. Ört vaxandi ferðaþjónusta segir Soffía að hafi einnig skipt miklu máli og sú ánægjulega staðreynd að ferðaþjónustutíminn sé sífellt að lengjast.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum