Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2013 Innviðaráðuneytið

Fjórir styrkir veittir til orkuskipta í skipum

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra afhenti í dag styrki til verkefna á sviði orkuskipta í skipum. Verkefnin miða að því að auka notkun innlendra orkugjafa í skipum og draga þar með úr notkun jarðefnaeldsneytis, afla þekkingar á þessu sviði og auka rannsóknir og samstarf. Styrkirnir eru alls að upphæð 30 milljónir króna og verður 20 milljónum til viðbótar úthlutað síðar á árinu.

Fjórir styrkir til orkuskipta í skipum voru afhentir í dag.
Fjórir styrkir til orkuskipta í skipum voru afhentir í dag.

Styrkirnir eru hinir fyrstu sinnar tegundar og fór úthlutunarnefnd yfir umsóknir sem bárust. Nefndin vinnur samkvæmt verklagi um rannsóknarstyrki til orkuskipta í skipum og leggur áherslu á notkun  innlendra orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis, öflun þekkingar og miðlun hennar, rannsóknir, þróun og samstarf á þessum sviðum.

Styrkjum til orkuskipta í skipum úthlutað.Nefndina skipa þau Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá Samgöngustofu, Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu og Gylfi Árnason, verkfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík. Fagráð til ráðgjafar úthlutunarnefnd er skipað Ágústu Loftsdóttur hjá Orkustofnun, Bryndísi Skúladóttur hjá Samtökum iðnaðarins og Höllu Jónsdóttur hjá Nýsköpunarmiðstöð.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir meðal annars að mikilvægt sé að beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu til að ýta undir græna starfsemi, nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur og að hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Innanríkisráðherra úthlutaði fjórum aðilum styrkjum til orkuskipta í skipum.

Eftirtaldir aðilar hlutu styrki að þessu sinni:

  • Varðeldur ehf. – lífmassa breytt í hráolíulíki

Langtímamarkmið er að breyta með efna- og eðlisfræðilegum aðferðum nægum innlendum lífmassa í hráolíulíki (Biomass to Liquid) til að mæta öllum þörfum landsins fyrir jarðefnaeldsneyti  á sjó og landi. Hér er sótt um framlag til að smíða frumgerð vinnslurásar til að sýna fram á fýsileika þess að breyta lífmassa, þ.m.t. lífrænum úrgangi, í olíulíki með notkun innlendrar raforku. Frumgerðin nýtist einnig til að meta mögulega arðsemi slíkrar framleiðslu og miðla þekkingu á þessu sviði til annarra.

Úthlutunarnefndin telur að með verkefninu megi auka umfjöllun og áhuga á þessari leið til orkuskipta í skipum (getur einnig orðið til orkuskipta í öllum farartækjum ef vel gengur). Verkefnið fellur vel að áherslum úthlutunarnefndarinnar. Sótt var um 10 milljóna króna  styrk en nefndin leggur til að styrkur 2013 verði 8 m.kr.

  • GPO efh. – endurvinnsla á plasti í olíu

Markmiðið er að þróa skilvirkar, hagkvæmar og umhverfisvænar leiðir til að endurvinna plastúrgang (heyrúllu-, heimilis- og iðnaðarplast) í díselolíu og svartolíu. Sótt er um framlag til stofnkostnaðar sem aðallega fer í að kaupa sérhæfðan tækjabúnað til framleiðslunnar.

Úthlutunarnefndin telur að þó framleiðslan verði seint næg til að mæta allri þörf skipa fyrir olíu, þá sé þetta sérstaklega vistvæn leið. Einnig er verkefnið langt á veg komið og því mun styrkurinn fljótlega skapa nýtt olíuframboð til skipa. Verkefnið fellur því vel að áherslum úthlutunarnefndarinnar. Sótt var um 6 m.kr. styrk, en nefndin leggur til að styrkur 2013 verði 5 m.kr.

  • Véltak ehf. – dregið út notkun smurolíu í skipum

Búnaður hefur verið hannaður og prófaður sem getur sparað allt að 50-70% af smurolíunotkun skipa með því að koma í veg fyrir að olían sleppi út í vélarrúm skips. Þannig næst miklu betri nýting í stað þess að hún dreifist út í umhverfið, þar sem hún getur haft heilsuspillandi áhrif á vélstjóra. Hér er sótt um styrk til að koma frumgerð búnaðar í fullgert form sem nýst getur í íslenska (og erlenda) skipaflotann.

Úthlutunarnefndin telur að verkefnið sé líklegt til að minnka þörf á innflutningi smurolíu til skipa og er sérstaklega umhverfisvænt. Hér er verið að sameina sparnað á notkun jarðefnaolíu, bætt umhverfi og heilsuvernd sjómanna. Verkefnið fellur vel að áherslum úthlutunarnefndarinnar og er líklegt til að skila árangri fljótlega. Sótt var um 3 m.kr. styrk og leggur nefndin til að styrkur 2013 verði 3 m.kr.

  • Norðursigling ehf. – rafknúin hjálparvél í seglskipi

Markmiðið er að breyta seglskipi Norðursiglingar þannig að hjálparvélin verði rafknúin frá rafgeymum sem hlaðnir eru í landi og endurhlaðnir með vindorku á sjó í góðum byr. Ljósavél verður til vara. Þannig verður skipið t.d. við hvalaskoðun að fullu knúið á vistvænan hátt. Hér er sótt um styrk til tækjakaupa svo sem vél, vélarhlutum, rafgeymum og fleiru.

Úthlutunarnefndin telur að með verkefninu megi auka umfjöllun og áhuga á vistvænni rekstri skipa. Reynsla af rekstri rafbúnaðar til að knýja skip mun nýtast til að meta hvernig og hvort innlend raforka getur leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi í íslenskum skipum í einhverjum mæli. Verkefnið fellur vel að áherslum úthlutunarnefndarinnar. Sótt var um 20 m.kr. styrk, en nefndin leggur til að styrkur 2013 verði 14 m.kr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum