Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2013 Matvælaráðuneytið

Höfnun Matvælastofnununar á innflutningi á söltuðum þorskgellum.

Vísað er til bréfs fyrirsvarsmanns Dino slf., Súluhöfða 10, 270 Mosfellsbæ, dags. 30. júlí 2013, þar sem óskað er eftir að ráðuneytið skoði málavexti og heimili mögulega innflutning á 500 kg af söltuðum þorskgellum frá Spáni til útflutnings aftur síðar.

I.

Málavextir eru þeir að Dino slf. flutti út saltaðar þorskgellur í fimm 100 kg tunnum til Spánar í apríl 2013. Ágreiningur kom upp um verð milli kaupanda og seljanda  og var ákveðið að endursenda vöruna til Íslands. Við komu til landsins kom í ljós að merkingar höfðu verið fjarlægðar af tunnunum.  

Matvælastofnun hafnaði leyfi til innflutnings og leyfi til endursendingar vörunnar með ákvörðun dagsettri 2. júlí 2013, þar sem merkingar vantar á vöruna þ.e. auðkennismerki, tegundarheiti, best fyrir dagsetning og upplýsingar um geymsluskilyrði. Matvælastofnun vísar til þess að slíkt sé ekki í samræmi við lög nr. 55/1998, um sjávarafurðir. Matvælastofnun vísar til 13. gr. laganna þar sem segir: „Óheimilt er að vinna, pakka eða dreifa sjávarafurðum og eldisafurðum sem ekki uppfylla settar kröfur um meðferð, flutning, geymslu, gæði, heilnæmi, aukefni, pökkun og merkingar samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum með stoð í þeim.“ Jafnframt vísar stofnunin til 5. gr. og II. viðauka við reglugerð EB nr. 853/2004, þar sem fjallað er um auðkennisnúmer starfsstöðvar þar sem afurðirnar eru framleiddar. Reglugerð EB nr. 853/2004, var innleidd með reglugerð nr.  104/2010 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu.

Stofnunin fer fram á að vörunni verði eytt enda telur stofnunin endursendingu vörunnar óframkvæmanlega og vísar stofnunin til 8. gr. reglugerðar nr. 1043/2011 í þessu sambandi. Fyrirsvarsmaður Dino slf. telur hins vegar að eyðing vörunnar sé óþarflega harkaleg aðgerð og óskar eftir því að afurðirnar verði afhentar sér og útflutningur vörunnar verði heimilaður að nýju þar sem varan er í lagi neyslulega séð.   

II.

Fyrir liggur að merkingum umræddrar vöru er ábótavant. Samkvæmt gögnum málins vantar á vöruna: auðkennismerki, tegundarheiti, best fyrir dagsetning og upplýsingar um geymsluskilyrði. Ekkert  auðkennismerki (leyfisnúmer) er á pakkningum utan um umrædda vöru.  Í 11. gr. laga nr. 55/1998, um sjávarafurðir segir: „Sjávarafurðir skulu vera rétt og greinilega merktar þannig að þær upplýsingar, sem fram koma, séu ekki villandi. Á umbúðum skal koma fram nafn Íslands, óstytt eða skammstafað IS, og leyfisnúmer viðkomandi starfs- eða vinnsluleyfishafa þannig að unnt sé að rekja uppruna afurðanna til framleiðandans….“ Í lögum er þannig kveðið á um að á umbúðum skulu koma fram leyfisnúmer viðkomandi starfs- eða vinnsluleyfishafa þannig að unnt sé að rekja uppruna afurðanna til framleiðandans. Tilgangur reglna um merkingar umbúða með vinnslunúmeri er sá að rekja megi viðkomandi framleiðslu til tiltekins framleiðanda (verksmiðju), enda hafi hún tilskilin leyfi.  Eftirlitsaðilar eiga þannig samkvæmt 11. gr. að geta séð á viðkomandi vinnslunúmeri hvaða framleiðandi (verksmiðja) framleiddi vöruna. Vitneskja eftirlitsaðilans um vinnslunúmer er nauðsynleg vegna þess að tilteknir framleiðendur eru viðurkenndir þar sem þeir uppfylla tilteknar kröfur og skilyrði um framleiðslu og eftirlit. Ráðuneytið tekur þannig undir þann skilning Matvælastofnunar að skilyrði 11. gr. laga nr. 55/1998 séu ekki uppfyllt við endurinnflutning umræddrar vöru. Endurinnflutningur vörunnar er því óheimill þegar af þessari ástæðu. Jafnframt vantar aðrar lögbundnar merkingar á vöruna sem ekki er mögulegt að lagfæra eftir að varan er komin úr vörslu framleiðanda.

Fyrirsvarsmaður Dino slf. vísar til þess að fylgigögn með vörunni sýni hvaða vara var flutt út. Hér er um að ræða reikning vegna viðskiptanna, lestarlistar og tollaskjöl. Ráðuneytið vísar til þess að í 11. gr. laga nr. 55/1998 kemur skýrt fram að afurðirnar sjálfar skuli vera rétt og greinilega merktar og leyfisnúmer viðkomandi starfs- og vinnsluleyfishafa skuli vera  á umbúðum.  Jafnframt þarf að vera samræmi milli vottorða og annarra fylgiskjala og merkinga á umbúðum vörunnar. Þannig kemur fram í 5. gr. reglugerðar nr. 1043/2011 að við innflutningseftirlit skuli fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna upplýsingar.   

Fyrirsvarsmaður Dino slf. telur að eyðing vörunnar sé óþarflega harkaleg aðgerð.
Við túlkun á reglum stjórnsýsluréttarins um meðalhóf hefur verið talið að ef völ væri fleiri úrræða er þjónað geti því markmiði sem að er stefnt með tiltekinni ákvörðun, skuli velja það úrræði sem vægast sé. Jafnframt skal vera hóf í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og má ekki ganga lengra en nauðsyn ber.

Lögum samkvæmt er Matvælastofnun heimilt að samþykkja endursendingu afurðanna að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi.  Eðli málsins samkvæmt kemur þetta úrræði ekki til greina enda eru afurðirnar framleiddar hérlendis. Þannig verður hvorki séð af efnisreglum laga nr. 55/1998 né af reglum settum samkvæmt þeim að Matvælastofnun sé heimilt að líta til annarra atriða en þar koma fram.  Samkvæmt 13. gr. laga nr. 55/1998 er óheimilt að dreifa sjávarafurðum og eldisafurðum sem ekki uppfylla settar kröfur. Í samræmi við þetta lagaákvæði hefur Matvælastofnun bannað frekari dreifingu afurðanna  og óskað eftir eyðingu þeirra. Krafa Matvælastofnunar um að vörunni skuli eytt verður því að teljast í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrirsvarsmaður Dino slf. óskar eftir heimild til að ráðstafa vörunni til eigin nota eða gefa til góðgerðarmála. Vakin er athygli fyrirsvarsmanns Dino slf. að samkvæmt 20. gr. laga nr. 55/1998 er Matvælastofnun heimilt í sérstökum tilvikum að ákveða að hagnýta megi sjávarafurðirnar til annarrar framleiðslu. Skilyrði fyrir slíkri ráðstöfun er að afurðirnar verði ekki nýttar til manneldis þ.m.t. fóðrunar dýra sem alin eru til manneldis.

Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að innflutningur vörunnar og dreifing innanlands sé óheimil og Matvælatofnun sé heimilt lögum samkvæmt að eyða umræddri vöru. Þó er vakin athygli á ákvæði 20. gr. laga nr. 55/1998, þar sem Matvælastofnun er heimilt í sérstökum tilvikum að ákveða að hagnýta megi sjávarafurðirnar til annarrar framleiðslu.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Halldór Runólfsson

        Baldur P. Erlingsson

            

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum