Hoppa yfir valmynd
Velferðarráðuneytið

Stefna og tillögur um móttöku flóttafólks

Afganskir flóttamenn í Yazd í Íran
Afganskir flóttamenn í Yazd í Íran

Flóttamannanefnd sem skipuð er af félags- og húsnæðismálaráðherra hefur kynnt áherslur sínar og stefnu um móttöku flóttafólks. Nefndin leggur til að tekið verði á móti einstæðum mæðrum og hinsegin fólki, allt að fjórtán einstaklingum samtals í tveimur hópum á næstu mánuðum. 

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lýsir ánægju með tillögu flóttamannanefndar og áherslurnar sem liggja þar að baki: „Með þessu er fullt tillit tekið til forgangsröðunar Flóttamannanefndar Sameinuðu þjóðanna og við nýtum okkur ákveðna sérstöðu íslensks samfélags þar sem fjölbreytt fjölskylduform eru almennt viðurkennd fordómalaust.“

Íslensk stjórnvöld hafa í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tekið reglulega á móti flóttafólki frá árinu 1996. Í minnisblaði flóttamannanefndar til ráðherra er gerð grein fyrir þeim áherslum sem flóttamannanefnd telur að leggja beri til grundvallar við móttöku flóttafólks framundan. 

Árið 2012 var tekið á móti þremur afgönskum fjölskyldum: einstæðar konur með börn, samtals níu einstaklingum, sem búið höfðu í Íran. Var með því svarað kalli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegan stuðning við að veita afgönsku flóttafólki í Íran skjól í þriðja ríki.

Íslensk stjórnvöld hafa horft sérstaklega til kvenna í neyð við móttöku flóttafólks. Að mati flóttamannanefndar eru allir innviðir hér á landi til að taka á móti einstæðum mæðrum góðir og ástæða til að halda því áfram. Bent er á afar slæma stöðu afgangskra kvenna í Íran. Þær búi flestar við einangrun og efnahagslegar, félagslegar og lagalegar hindranir komi í veg fyrir að þær njóti fullra mannréttinda. Þá séu einstæðar konur og mæður sérstaklega varnarlausar þar sem menning og hefðir geri kröfu um að karlmaður sé höfuð fjölskyldunnar. Möguleikar til framfærslu og fæðuöflunar séu því litlir og réttindi þeirra í landinu takmörkuð.

Viðkvæmustu hóparnir meðal flóttafólks

Auk einstæðra mæðra bendir flóttamannanefnd á að hinsegin fólk sé sérstaklega viðkvæmur hópur flóttafólks. Mörg samfélög líti á samkynhneigð sem sjúkdóm og beiti ýmsum aðferðum sem jafngildi pyntingum til að „lækna sjúkdóminn“. Samkynhneigð er víða bönnuð með lögum og almenn borgaraleg réttindi samkynhneigðra fótum troðin. Hinsegin fólk sætir ekki einungis ofsóknum og mannréttindabrotum í heimalöndum sínum heldur verður jafnvel einnig fyrir ofsóknum þar sem það hefur sótt um vernd. Flóttamannanefnd telur réttindi hinsegin fólks vel varin hér á landi og því geti íslensk stjórnvöld lagt lóð sín á vogarskálarnar með því að taka á móti hinsegin flóttafólki.

Tillaga flóttamannanefndar

Flóttamannanefnd leggur til að tekið verði á móti tveimur hópum; öðrum í lok desember 2013 og hinum byrjun árs 2014. Lagt er til að tekið verði á móti konum í hættu frá Afganistan sem eru búsettar í Íran eða Sýrlandi en jafnframt að tekið sé á móti hinsegin fólki frá Íran og/eða Afganistan sem er staðsett í Tyrklandi. Miðað er við að tekið verði á móti allt að fjórtán einstaklingum samtals.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira