Velferðarráðuneytið

Norræn sýn á aðgerðir gegn atvinnuleysi meðal ungs fólks

Við störf. Ljósmynd: Magnus Fröderberg/norden.org
Við störf. Ljósmynd: Magnus Fröderberg/norden.org

Fjallað er um hvers konar aðgerðir eru árangursríkastar til að hjálpa ungu atvinnulausu fólki inn á vinnumarkaðinn í nýjasta tölublaði Arbetsliv i Norden sem fjallar um vinnumál á Norðurlöndunum. Töluverður munur er á því hvernig Norðurlandaþjóðirnar nálgast þetta verkefni þótt markmiðið sé alls staðar það sama. 

Svíar fara með formennsku í Norðurlandaráði á þessu ári og ákváðu meðal annars að beina sjónum sérstaklega að aðgerðum til að sporna við atvinnuleysi meðal ungs fólks. Meðal annars hefur verið skoðað hvernig Norðurlandaþjóðirnar sinna þessu verkefni og hvaða úrræðum þær beita helst og telja árangursríkastar. Markmiðið er að þjóðirnar deili með sér þekkingu og reynslu til að öðlast betri skilning á því hvaða leiðir gefast best í þágu atvinnuleitenda og vinnumarkaðarins.

Vefritið Arbetsliv i Norden er gefið út fyrir tilstilli Norrænu ráðherranefndarinnar. Nýjasta tölublaðið sem kom út í gær er helgað þessu málefni. Þar er rætt við fulltrúa ráðuneyta og stofnana sem fara með vinnumál og vinnumarkaðsúrræði á Norðurlöndunum sem deila reynslu, sýn og þekkingu á þessum málum. Fjallað er mismunandi fyrirkomulag menntunar, starfsþjálfun og tengsl við atvinnulífið. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í viðtali við Arbetsliv i Norden að samkvæmt reynslunni hér á landi sé starfsþjálfun það úrræði sem skili mestum árangri þegar horft er til þess hve margir fá vinnu; um 6070% þeirra sem fari í starfsþjálfun fái vinnu í framhaldinu en heldur minni árangur sé af þátttöku fólks í starfsmenntunarúrræðum.

Gissur leggur áherslu á að á Íslandi beri aðilar vinnumarkaðarins meginábyrgð á skipulagi starfsmenntunar í gegnum Fræðslumiðstöð atvinnulífsins en fjármögnunin komi frá því opinbera. Með þessu fyrirkomulagi vilji stjórnvöld stuðla að því að framboð starfsmenntunar falli sem best að þörfum atvinnulífsins.

Ísland mun á næsta ári fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, leiðir það starf sem samstarfsráðherra Norðurlanda. Fyrirhugað er að fjalla áfram um atvinnumál ungs fólks þar sem meðal annars verði skoðað hvort þörf sé fyrir aukin tengsl milli atvinnulífsins og almenna skólakerfisins. Stefnt er að því að halda ráðstefnu þar sem fjallað verði meðal annars um þróun starfsþjálfunar sem hluta af hefðbundnu námi, reynslu fyrirtækja af starfsþjálfun innan sinna veggja og hvernig Norðurlöndin geti unnið saman á þessum vettvangi.

Vefritið Arbetsliv i Norden kemur út mánaðarlega, er gefið út á norsku og ensku og boðið er upp á rafræna áskrift. Á vefsíðu ritsins birtast einnig reglulega fréttir frá Norðurlöndunum á sviði vinnumála.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn