Hoppa yfir valmynd
12. september 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra flytur Alþingi skýrslu um Evrópumál

Alþingisgarður
Alþingi

Vilji íslenskra stjórnvalda stendur til að efla og treysta samskipti við Evrópusambandið án þess að til aðildar komi, sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðhera er hann gerði grein fyrir stöðu Evrópumála á Alþingi í dag. Hann sagði ríkisstjórnina einhuga, hlé hefði verið gert á ferlinu en engu slitið.

Í yfirgripsmikilli ræðu sinni kvaðst utanríkisráðherra leggja áherslu á að Ísland stundi sterka og sýnilega hagsmunagæslu innan EES og í tengslum við aðra þá samninga sem gerðir hafa verið við ESB. Þá sé mikilvægt að styrkja tvíhliða samstarf og samskipti við Evrópusambandið enda bjóði tengsl Íslands við sambandið upp á eflingu slíks samstarfs á sviðum sem eru utan EES. Þar nefndi ráðherra sérstaklega aukið samstarf á sviði sjávarútvegs, orkumála og norðurslóðamála.

Ráðherra gerði ennfremur grein fyrir þeim skrefum sem stigin hefðu verið í Evrópumálum frá því að ný stjórn tók við í maí sl. Stækkunarstjóra ESB hefði verið gerð grein fyrir því að gert hefði verið hlé á aðildarviðræðum. Samninganefndir og –hópar leystir upp og að ekki yrðu fleiri ríkjaráðstefnur haldnar. Þá hefði ESB ákveðið að ekki verði um frekari nýja IPA styrki að ræða. „Engar skemmdir hafa verið unnar á einu né neinu, aðildarumsókn hefur ekki verið afturkölluð  - engu hefur verið slitið. Þannig hefur verið staðið að þessu máli öllu í góðri sátt við gagnaðila okkar enda bera viðbrögð ESB ekki merki annars en sambandið hafi fullan skilning á ákvörðun okkar um hlé á aðildarferlinu.,“ sagði utanríkisráðherra.

Utanríkisráðuneytið mun láta gera sérfræðiúttekt á stöðu viðræðanna og þróun mála innan ESB.  Viðræður standa yfir við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands  um gerð þeirrar úttektar og verður hún svo tekin til umræðu í þinginu og kynnt fyrir þjóðinni eins og fram kom í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sl. vor.

Skýrsla ráðherra

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum