Hoppa yfir valmynd
20. september 2013 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingum á reglugerð um flutning á hættulegum farmi til umsagnar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1077/2010 um flutning á hættulegum farmi eru nú til umsagnar. Þeir sem óska geta sent ráðuneytinu umsagnir til og skulu þær berast eigi síðar en 3. október á netfangið [email protected].

Annars vegar er um að ræða lagfæringu á innleiðingu tilskipunar nr. 2008/68/EC um flutning á hættulegum farmi en Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert athugasemdir við innleiðingu hennar í íslenskan rétt. Hins vegar innleiðingu tilskipunar nr. 2012/45/EU um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun nr. 2008/68/EC. Drögin eru unnin í samráði við Samgöngustofu og Vinnueftirlit ríkisins.

Í fyrstu grein draganna er að finna tillögu sem á rætur að rekja til laga nr. 119/2012, sbr. lög 59/2013, en á grunni þeirra sameinuðust samgöngustofnanir og til starfa tók ný stofnun, Samgöngustofa 1. júlí sl. Þykir því eðli máls samkvæmt rétt að setja „Samgöngustofu“ inn fyrir „Umferðarstofu“ þar sem við á í reglugerðinni, enda hefur Samgöngustofa nú tekið við hlutverki þeirrar síðarnefndu samkvæmt reglugerðinni.

Aðrar breytingar lúta einkum að því að mæta ábendingum ESA er varða meðal annars innleiðingu tilskipana eða eru til komnar vegna uppfærslu á viðaukum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum