Hoppa yfir valmynd
24. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávinningur notenda af sameiningu þriggja þjónustustofnana til skoðunar

Halldór Sævar Guðbergsson sérfræðingur hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni skýrir notkun vefvarps fyrir ráðherra
Halldór Sævar Guðbergsson sérfræðingur hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni skýrir notkun vefvarps fyrir ráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur falið verkefnisstjórn að meta mögulegan ávinning af sameiningu þriggja stofnana sem sinna sérhæfðri þjónustu við fatlað fólk. Þetta eru Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Ráðherra heimsótti stofnanirnar í síðustu viku ásamt fulltrúum verkefnisstjórnarinnar, kynnti sér starfsemi þeirra og ræddi við starfsfólk. Tæplega 100 stöðugildi eru samtals hjá stofnununum þremur sem veita þjónustu um allt land. Markmið sameiningar væri að bæta aðgang notenda að mikvægri þjónustu sem þar með yrði á einum stað. Er meðal annars horft til þess að nokkuð er um að fólk þurfi á þjónustu tveggja eða allra stofnananna þriggja að halda.

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis er fjallað um mögulegan ávinning af aukinni samvinnu stofnana sem þjóna einstaklingum með skerta færni og eru þá einnig teknar með Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Hljóðbókasafn Íslands og TMF (tölvumiðstöð fatlaðra). Þar segir meðal annars: „Samþætta mætti betur þjónustu þeirra [stofnananna] og auðvelda aðgengi fatlaðra að henni ef þær flyttust í sameiginlegt húsnæði en þær eru nú dreifðar um Stór-Reykjavíkursvæðið. Það væri einnig í samræmi við stefnu stjórnvalda um að samþætta þjónustu þvert á stofnanir og gera ríkisreksturinn einfaldari og skilvirkari. Í því fælist samfélagslegur ábati til lengri tíma með hagkvæmari rekstri, betri þjónustu og betri nýtingu mannafla.“

Þessar hugmyndir voru til umræðu þegar Eygló Harðardóttir ráðherra og fulltrúar verkefnisstjórnarinnar heimsóttu stofnanirnar í síðustu viku. Starfsfólk lýsti almennt jákvæðum viðhorfum til þessara áforma, sameining geti falið í sér aukinn faglegan styrk, eflt rannsóknar- og þróunarstarf og bætt þjónustu, auk þess sem þar með yrði tekið á þeim húsnæðisvanda sem þær búa við í dag með flutningi í sameiginlegt húsnæði sem sniðið væri að þörfum starfseminnar. Eygló lagði áherslu á að grundvallarmarkmiðið eigi einmitt að snúast um þessa þætti fyrst og fremst: „Ég vil að það sé algjörlega skýrt að fjárhagslegur ávinningur er ekki drifkrafturinn sem ræður för og við ráðumst ekki í breytingar nema víst megi telja að þær stuðli að enn betri þjónustu og aukinni velferð þeirra sem hennar þurfa með.“

Ráðherra fundaði einnig í liðinni viku með fulltrúum frá Blindravinafélaginu, Þroskahjálp, Félagi heyrnarlausra, Heyrnarhjálp, Sjónarhóli, Einhverfusamtökunum, Félagi CP á Íslandi og Fjólu – félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, kynnti fyrir þeim hugmyndir að sameiningu stofnananna, hugsanlegan ávinning og markmið.

Verkefnisstjórninni sem falið hefur verið að undirbúa mögulega sameiningu er ætlað að skila niðurstöðum sínum í febrúar næstkomandi. Verkefnisstjórnin mun starfa í nánu samráði við forstöðumenn stofnananna og fulltrúa helstu hagsmunaaðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum