Utanríkisráðuneytið

Skylda stjórnmálamanna að tryggja mannréttindi

Gunnar Bragi Sveinsson á allsherjarþingi SÞ

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hélt ræðu sína á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í morgun þar sem hann fór yfir áherslur Íslands í utanríkismálum.

Gunnar Bragi hóf ræðu sína á fordæmingu hryðjuverka, nú nýlega þau sem áttu sér stað í Kenýa, Írak og Pakistan. Hann fordæmdi efnavopnaárásina í Sýrlandi, þar sem alþjóðalög voru brotin og lagði áherslu á að þeir sem stæðu á bak við árásina yrðu dregnir til ábyrgðar hjá Alþjóðlega glæpadómstólnum. Þá gagnrýndi hann sýrlensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki uppfyllt skyldur sína gagnvart sýrlenskum borgurum og fagnaði ályktun öryggisráðsins nr. 2118 sem samþykkt var síðastliðinn föstudag. Þá kallaði hann eftir því að Genfar yfirlýsingin um friðarumleitanir í Sýrlandi verði heiðruð, ásamt því að kallað verði hið fyrsta til friðarráðstefnu. 

Gunnar Bragi sagði helstu afrek Sameinuðu þjóðanna vera á sviði alþjóðalaga og fagnaði hann sérstaklega samþykkt  vopnaviðskiptasamningsins síðastliðið sumar. Ísland er fyrsta ríkið sem fullgilti samninginn og kallaði Gunnar Bragi eftir því að öll ríki geri slíkt hið sama svo hann taki gildi án tafa. 

Hann sagði virðingu fyrir alþjóðalögum grundvöll samskipta ríkja og að ávallt skuli leita lausna með friðsamlegum hætti. Sagði hann Hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna gott dæmi um árangursríkan alþjóðasamning í þessu tilliti. Hann gagnrýndi það harðlega þegar deiluaðilar grípa til hótana um þvingunaraðgerðir í stað þess að leita sátta á grundvelli samninga.

Utanríkisráðherra undirstrikaði mikilvægi þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og sagði þau grundvöll stefnu Íslands í  þróunarsamvinnu. Þá lagði hann áherslu á að í nýjum þróunarmarkmiðum, sem taka munu gildi eftir 2015, verði áfram áhersla á upprætingu fátæktar, jafnrétti kynjanna, heilbrigðismál og menntun stúlkna og drengja. 

Gunnar Bragi sagði Ísland hafa mikið fram að færa á sviði landgræðslu, endurnýjanlegrar orku, sjálfbærra fiskveiða og kynjajafnréttis. Við erum stolt af því að miðla af þekkingu okkar og reynslu í jafn mikilvægum málaflokkum.

Utanríkisráðherra sagði mörg verk óunnin, til að mynda í mannréttindamálum. Sagði hann ljóst að þegar fólk fær ekki að njóta skoðanafrelsis og trúfelsis, og því sé jafnvel refsað fyrir kynhneigð eða kynvitund sína, séu alþjóða mannréttindasamningar þverbrotnir. Lýsti hann miklum áhyggjum af nýlegum dæmum um lagasetningu í sumum ríkjum þar sem gengið er gegn grundvallarreglum um jafnræði og tjáningafrelsi.      

Gunnar Bragi sagði það vera skyldu stjórnmálamanna að tryggja mannréttindi í hverju ríki fyrir sig.

Gunnar Bragi hrósaði konum í Arabaríkjum fyrir baráttu sína fyrir jafnrétti, málfrelsi og lýðræðisþróun. Fordæmdi hann allt ofbeldi og skoraði á stjórnvöld Arabaríkja að sína í verki stuðning sinn við lýðræði.

Gunnar Bragi lýsti ánægju sinni með friðarviðræður Ísraels og Palestínu og hrósaði John Kerry fyrir framgöngu sína í málinu. “Við verðum að virða rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunarréttar, en jafnframt rétt Ísraelsríkis til að lifa í sátt og samlyndi við nágrannaríki sín." 

Utanríkisráðherra gagnrýndi Ísrael fyrir að brjóta alþjóðalög með landtökum á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Sagði hann tveggja ríkja lausnina vera í hættu ef ekki yrði breyting á.  Hann gagnrýndi einnig harðlega Hamas samtökin og fordæmdi eldflaugaárásir frá Gaza.
Í lok ræðu sinnar ræddi Gunnar Bragi um verndun hafsins og Norðurslóðir. “Við sem búum á þessum hluta jarðarinnar vitum vel hve mikilvægt það er að huga að framtíðinni. Það þarf að vernda umhverfið og þróa efnahagsleg tækifæri á svæðinu á sama tíma og þarfir íbúa Norðurslóða eru virtar”. 

Ræða utanríkisráðherra á allsherjarþinginu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn