Hoppa yfir valmynd
30. september 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sprengjugengið hlaut viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti  Sprengjugenginu viðurkenninguna við opnun Vísindavöku 2013.
Sprengjugengið hlaut viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun
Sprengjugengið hlaut viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun

Sprengjugengi Háskóla Íslands hlaut viðurkenningu Rannís 2013 fyrir vísindamiðlun. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti  Sprengjugenginu viðurkenninguna við opnun Vísindavöku 2013 í Háskólabíói föstudaginn 27. september.

Sprengjugengið samanstendur af hópi nemenda í efnafræði, efnaverkfræði og lífefnafræði við Háskóla Íslands sem hafa stundað  kynningar og sýningar á undraheimi efnafræðinnar fyrir almenning síðan 2007. 

Í tilkynningu frá Rannís segir ennfremur: „Kynningar og sýningar hópsins eru í senn fræðandi og skemmtilegar og til þess fallnar að örva áhuga ungmenna og almennings á efnafræði og skyldum raungreinum.  Starfsemi hópsins hefur færst jafnt og þétt í aukana síðan 2007 og hefur frá upphafi verið í miklu og góðu samstarfi við skipuleggjendur Vísindavöku.

Sprengjugengið er ekki bara skemmtilegt, heldur leggur það einnig mikla áherslu á að flétta inn skýringar á hinum ýmsu eðlisfræði- og efnafræðilegum eiginleikum sýningaratriða sem og að tengja fræðin við hversdagsleg fyrirbæri.   Hópurinn hefur haldið sýningar víða um land í skólum, félagsmiðstöðum, komið fram í fjölmiðlum og ýmsum samkomum.  Þá hefur hann  lagt sig fram við að vinna með börnum á grunnskólastigi í Háskóla unga fólksins og víðar. 

Það er álit dómnefndar Rannís að Sprengjugengið,  undir forystu Katrínar Lilju Sigurðardóttur, framhaldsnema í efnafræði, sé einstaklega vel að viðurkenningu fyrir vísindamiðlun komið“.

Sprengjugengið hlaut viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun

Sprengjugengið tekur við viðurkenningunni


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum