Hoppa yfir valmynd
2. október 2013 Utanríkisráðuneytið

Hvers virði er menntun?

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra opnaði í dag málþingið "Hvers virði er menntun?", en þar er fjallað um hlutverk menntunar og þekkingar í þróunarstarfi.
Málþingið er hluti af kynningarátaki um gildi þróunarsamvinnu sem ber yfirheitið "Þróunarsamvinna ber ávöxt", en að því standa frjáls félagasamtök á Íslandi sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og Þróunarsamvinnustofnun Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Þetta er þriðja árið í röð sem slíkt kynningarátak er haldið og í þetta skipti er sjónum beint að gildi menntunar og fræðslu í þróunarstarfi, bæði hér á landi og í þróunarríkjum.

Í ávarpi sínu ræddi utanríkisráðherra  mikilvægi menntunar fyrir öll samfélög og tengsl menntunar við hagsæld, jöfnuð og velferð. Þá fór hann yfir stuðning Íslendinga við menntun í þróunarríkjum, bæði menntun barna og fullorðinna, en menntun hefur ávallt skipað mikilvægan sess í þróunarsamvinnu Íslands, ýmist í gegnum starfsemi skóla HSÞ á Íslandi, fjölþjóðastofnanir, eða starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Aðalfyrirlesari málþingsins var Anjimile Oponyo, ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytis Malaví og fjallaði hún um menntun í Malaví og áskoranir í skólamálum. Á málþinginu flutti Hildur Blöndal Sveinsdóttir jafnframt erindið Veröldin og við, menntun margbreytileiki og hnattræn vitund, auk þess sem niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar um viðhorf og þekkingu á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og ný skýrsla um stöðu þróunarfræðslu hér á landi voru kynntar. Við lok málþingsins opnaði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, nýjan upplýsingavef um þróunarfræðslu í grunn- og framhaldsskólum: www.komumheiminumilag.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum