Hoppa yfir valmynd
7. október 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Grunnstoðir ríkisrekstrarins traustar

„Þrátt fyrir erfiða stöðu ríkissjóðs undafarin ár eru grunnstoðir ríkisrekstrarins traustar. Það er ekki síst að þakka samstilltu átaki starfsmanna og stjórnenda ríkisstofnana um allt land,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á fundi um fjárlagafrumvarpið 2014.

Til fundarins var boðað af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, en fundurinn var haldinn á Grand Hótel í morgun. Þar var jafnframt rætt um stöðu ríkisfjármála og hvaða breytingar væru framundan í opinberum rekstri.

Bjarni sagði í framsögu sinni að eins og vitað væri hefði lækkun fjárveitinga verið töluverð undanfarin ár og haft í för með sér miklar áskoranir fyrir forstöðumenn og starfsmenn ríkisstofnana.

„Það á að vera öllum sem starfa hjá hinu opinbera kappsmál að nýta starfskrafta og fjármuni sem best,“ sagði ráðherra. Hins vegar væri hugsanlegt að á tímum niðurskurðar, sem ekki ætti sér mikinn aðdraganda, sköpuðust ekki kjöraðstæður til þess að horfa á stóru myndina og ná sem mestri hagkvæmni í rekstrinum. Kannski væri það einn fórnarkostnaðurinn í kreppunni að menn hafi þurft að bregðst öðruvísi við en hefði verið ákjósanlegt með meiri undirbúningi.

„Það má því segja að þótt unnið hafi verið gott starf á sviði hagræðingar er ekki ávallt hægt að ganga út frá því sem vísu að það hafi verið varanleg eða skynsamleg hagræðing,“ sagði Bjarni.

Öllum væri ljóst að ef menn vildu ná varanlegum langtímaávinningi þyrfti að huga vel að undirbúningi fyrir slíkum ákvörðunum. „Það eru enn tækifæri til að bæta skipulag, stjórnun og þjónustu ríkisins og þá sérstaklega þegar horft er til kerfislægra og skipulagslegra ágalla ríkisrekstrarins og þess lagaramma sem settur er um rekstur og starfsemi stofnana.“ 

Miklar samfélagslegar breytingar hefðu orðið frá því helstu þjónustu- og stjórnsýslukerfi ríkisins voru mótuð. „Skipulag, rekstur og þjónusta ríkisins hefur ekki tekið nægilegt mið af þessum breytingum,“ sagði Bjarni.  Dæmi væri um að ný tækni hefði verið nýtt, svo sem rafræn skil á skattframtölum, sem hefði gengið vel, sparað mörg handtök og stóraukið hagræði í samskiptum borgaranna við þjónustustofnanir.

Hagræðing viðvarandi verkefni

Bjarni ræddi einnig störf hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar og sagði hann ekki hugsaðan sem niðurskurðarhóp.  Hópurinn ætti að horfa til þess hvernig hægt væri að gera hlutina með auknu hagræði. „Það þarf ekki að þýða beinar niðurskurðaraðgerðir heldur á þetta að vera okkar viðvarandi verkefni, að auka hagkvæmnina í opinberri þjónustu með nákvæmlega sama hætti og einkageirinn er stanslaust að leita leiða til að gera hlutina með hagkvæmari hætti.“

Í fjárlögum hvers árs væri almennt gerð veltutengd hagræðingarkrafa. Spurt hafi verið hvort raunhæft væri að hafa enn og aftur uppi hagræðingarkröfur í tengslum við fjárlagagerð fyrir 2014. Þessi spurning væri skiljanleg en lagt hafi verið upp með hagræðingarkröfu á öll ráðuneyti fyrir um 1,5%. „Það skilaði sér á endanum, eftir samskipti við ráðuneytin, í hagræðingu upp á innan við 1%. Sumir kynnu að segja að þarna hafi fjármálaráðherrann verið alltof linur við ráðherrana. En við fórum svo í aðrar sértækar hagræðingaraðgerðir, sem skiluðu enn meira aðhaldi heldur en þessu veltutengda,“ sagði Bjarni. Veltutengda aðhaldið væri í mörgum öðrum ríkjum fastur liður upp á 1% á ári hverju, t.d. í Danmörku.

Í framsögu sinni vék fjármála- og efnahagsráðherra ennfremur að menntamálum og fækkun námsára fram að stúdentsprófi,frumvarpi um opinber fjármál, sem stendur til að leggja fram í nóvember, kjara- og mannauðsmálum, rafrænni stjórnsýslu og fleiri þáttum.

Bjarni Benediktsson á fundi á Grand Hótel um fjárlagafrumvarp fyrir 2014

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum